Örvitinn

Nafnleysingjar á netinu

Umræðan um nafnlaus blogg fjallar næstum aldrei um blogg. Yfirleitt er um að ræða spjallborð (málefnin.com og barnaland) eða athugasemdir á bloggsíðum, sérstaklega hjá Agli á Eyjunni og vinsælum mogglingum.

Ég sé ekkert að því að þeir sem halda úti bloggsíðu fjarlægi athugasemdir sem þeir vilja ekki bera ábyrgð á sjálfir. T.d. ef einhver skrifar níð eða hótanir í garð þriðja aðila í nafnlausri athugasemd. Ef þeir fjarlægja þær ekki bera þeir ábyrgð á þeim enda hefðu þeir alveg eins getað skrifað þær sjálfir. Þeir hafa þá þann möguleika að gefa upp ip-tölu ef einhver fer í mál og hugsanlega komið ábyrgðinni á réttan aðila.

Aftur á móti rugla margir þessu saman við ritskoðun, þ.e.a.s. áráttu sumra, sérstaklega mogglinga, við að fjarlægja athugasemdir þeirra sem andmæla þeim og loka alfarið á þá. Þar skiptir nafnleysið engu máli og grimmt er lokað á þá sem skrifa undir fullu nafni.

Björgvin þarf svo að kynna sér Streisand áhrifin. Það vissi varla nokkur um fyllerís og framhjáhaldssögurnar fyrr en hann fór að blaðra.

Ég held að í rauninni séu stjórnmálamenn og auðkýfingar aðallega ósáttir við ótakmarkaða umræðu. Vilja helst geta hringt í ritstjóra og þaggað niður í óþægilegum pennum, t.d. með því að hóta að hætta að kaupa auglýsingar. Hafa enga stjórn á bloggurum.

vefmál
Athugasemdir

Óli Gneisti - 07/09/09 16:54 #

Ég hef oft velt fyrir mér hvort fréttamenn séu svona vitlausir í netmálum eða hvort þeir geri ráð fyrir að þeir séu að miðla hlutum til vitleysinga.

Matti - 07/09/09 17:39 #

Það hjálpar ekki til að stór hluti mogglinga misskilur umræðuna líka.

Lárus Viðar - 08/09/09 05:39 #

Þetta er góður punktur með nafnlausu bloggin sem eru alls ekki blogg.

Held að nafnlaus blogg séu frekar fá núorðið.

Matti - 08/09/09 09:12 #

Jónas er fyndinn og sorglegur. Fær voðalega oft sömu hugmyndir og ég!

Nafnleysingjar eru nánast áhrifalausir í blogginu. Þeir sjást þar ekki, nema þeim sé hossað af bloggstjórum Moggans og Vísis. Sjálfsagt er, að því verði hætt. Ekki rugla bloggurum saman við þá, sem skrifa nafnlausar athugasemdir við fréttir á mbl.is og dv.is. Sjálfsagt er, að fjölmiðlarnir hætti að ota þessum nafnleysingjum framan í fólk. Þar fyrir utan grassera nafnleysingjar á sérstökum spjallsvæðum fyrir níð, svo sem Barnalandi. Það er ekki heldur blogg. Björgvin Sigurðsson hruns-ráðherra ruglar þessu öllu saman, enda í vondu skapi. Látið hann ekki komast upp með að láta ritskoða og banna blogg.