Örvitinn

Hagsmunasamtakalógík dagsins

Andrea Ólafsdóttir stjórnarkona í Hagsmunasamtökum sumra heimila skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þetta er önnur blaðagrein hennar á stuttum tíma.

Kjarni greinar dagsins er þessi:

Nú þegar hefur stór hluti skulda bankanna verið afskrifaður og er því rými til að gera slíkt hið sama við skuldara í bönkunum. Eins hefur verið bent á að leiðrétting verðbólguskotsins er aðgerð sem er algert réttlætismál fyrir alla skuldara. Þar að auki má ekki gleyma að fordæmi fyrir almennum aðgerðum til að bæta tjón neytenda vegna efnahagskreppunnar er fyrir hendi þar sem stjórnvöld ákváðu að tryggja innstæður umfram skyldu með svo kölluðum neyðarlögum og bæta í peningamarkaðssjóði. Skuldaleiðrétting þarf þó ekki að kosta ríkissjóð bein fjárútlát, heldur væri hann öllu heldur að verða af framtíðartekjum í formi óeðlilega hárra verðbóta og viðurkenna þar með þann stóra galla sem verðtrygging lána er.

Ég hef þrjár athugasemdir.

  1. Afskriftalógík. Þó gert hafi verið ráð fyrir tilteknum afskriftum hjá bönkunum er ekki þar með sagt að gert hafi verið ráð fyrir enn meiri afskriftum. Hluti þeirra afskrifta sem Hagsmunasamtökin leggja til er hrein viðbót og veldur því að afskrifa þarf meira.

  2. Innistæður voru ekki greiddar úr ríkissjóði heldur færðar framar í röð krafna og falla á kröfuhafa bankanna. Já, ég veit það er munur á innistæðum og peningamarkaðssjóðum og þetta er ekki einföld umræða.

  3. Það er að mínu mati óskaplega furðulegt að tala um að eitthvað muni ekki "kosta ríkissjóð bein fjárútlát" en muni valda því að hann "verði af framtíðartekjum". Ef framtíðartekjur ríkissjóðs minnka þýðir það einfaldlega hærri skatta á skattgreiðendur framtíðarinnar. Auk þess munu auknar afskriftir valda því að eigið fé Íbúðarlánasjóðs minnkar sem þýðir væntanlega fjárhagsútgjöld ríkissjóðs.

Mér hundleiðist þessi umræða og hef engan áhuga á að gagnrýna þessi samtök sérstaklega. Umræðan er að mínu mati yfirleitt ansi einhliða og þeir sem reyna að benda á aðrar hliðar yfirleitt fljótt dæmdir úr leik, sakaðir um hagsmunatengsl eða eitthvað verra. Sjá t.d. athugasemdir við fínan pistil Vilhjálms Þorsteinssonar.

pólitík
Athugasemdir

- grettir - 17/09/09 17:07 #

Varðandi lið 3. Með því að segja að það þurfi að hækka skatta vegna þess að ríkið verði af þessum "tekjum" sem verðbæturnar á lánin eru nú ertu nánast að gefa í skyn að ríkið sé búið að gera ráð fyrir þessum peningum og að ríkið komi til með að eiga þessa þrjá banka um ókomna tíð.

~~~ Ég skil ekki þetta viðhorf sem þú hefur tekið gegn þessum afskriftar hugmyndum/umræðum. Staðreyndin er að sá sem skuldar verðtryggt lán býr við þann veruleika að lánið hefur hækkað um næstum 20% á rúmu ári. Þessi 20% eru tölur á blaði. Enginn afhenti skuldaranum þessa peninga og skuldarinn þarf að borga þetta tilbaka á tugum ára. Hvers vegna ættu bankarnir að fara á hausinn (aftur) við að leiðrétta þetta fé sem var aldrei þeirra?

Hvaða aðra leið veistu um sem gæti leiðrétt þetta óréttlæti? Ég hef lesið síðuna þína í mörg ár og er sammála þér í flestum málum og er satt að segja dáldið hissa á þessari afstöðu.

Matti - 17/09/09 20:40 #

ertu nánast að gefa í skyn að ríkið sé búið að gera ráð fyrir þessum peningum og að ríkið komi til með að eiga þessa þrjá banka um ókomna tíð.

Nei, en ég geri ráð fyrir að auknar afskriftir hafi áhrif á "verð" bankanna - eða hve mikið ríkið þurfi að leggja til þeirra.

Einnig nefndi ég til sögunnar Íbúðarlánasjóð sem er og verður vonandi áfram ríkisbanki. Hann er langstærsti lánveitandi verðtryggðra húsnæðislána og almennar afskriftir (meiri en gert hefur verið ráð fyrir) mun valda því að eigið fé hans lækkar sem veldur því að ríkissjóður þarf að leggja til meiri fjármuni.

Staðreyndin er að sá sem skuldar verðtryggt lán býr við þann veruleika að lánið hefur hækkað um næstum 20% á rúmu ári.

Afborgarnir okkar af verðtryggðu húsnæðisláni hafa hækkað um 12% milli ára.

Hvers vegna ættu bankarnir að fara á hausinn (aftur) við að leiðrétta þetta fé sem var aldrei þeirra?

Það eru skuldbindingar á móti þessum útlánum sem bankarnir þurfa að greiða. Aftur nefni ég svo Íbúðarlánasjóð til sögunnar.

Hvaða aðra leið veistu um sem gæti leiðrétt þetta óréttlæti?

Ég vil ekki tala um óréttlæti. Hvað vil ég gera til að aðstoða þá sem eru í vandræðum vegna þessara hækkana.

Það sem ég vil gera er að bjóða fólk frystingu og lengingu lána þannig að það ráði við afborganir. Launavísitala og neysluvísitala hækka yfirleitt á víxl hér á landi. Síðustu ár hækkaði launavísitala mun hærra en neysluvísitala, vonandi verður það þannig aftur innan tíðar.

Ég geri ráð fyrir að hlutirnir skáni að lokum. Ég geri ráð fyrir að krónan styrkist fyrr en síðar, þó það gæti liðið ár eða tvö þar til það fer af stað og hún mun ekki fara í þá stöðu sem var árið 2007. Gengistryggð lán munu a.m.k. hækka 40% til langframa.

Svo við tökum dæmi, þá þykir mér undarlegt ef við erum búin að afskrifa 20% lána hjá fólki sem hefur tekið erlent lán - ef krónan styrkist svo og það fólk er aftur komið með mun hagstæðari lán heldur en við sem tókum verðtryggð. Á þá að af-afskrifa þau?

Það má vel vera að þetta dæmi sé allt saman óskaplega ósanngjarnt. Mér finnst helvíti fúlt að horfa á húsnæðislánið mitt hækka. En ég get ekki séð að almennar afskriftir sé nokkur lausn á málinu. Hef áður rætt að það gagnast í raun bara litlum hluta skuldara.

Þau rök að afskrift sé góð vegna þess að hún örvi neyslu finnst mér beinlínis vond.

Mér finnst hugmyndir um að fasteignafélag kaupi húsnæði og leigi fólk svo út ágæt. Ég veit þó að margir eru afar ósáttir við slíkt og finnst móðgun að stungið sé upp á að það leigi húsið "sitt". Það er þó forsenda fyrir þessu að fólk sé ekki skuldugt eftir að það hefur misst húsnæðið.

Ég hef enga heildarlausn á þessum málum enda vandamálin mörg og flókin. Það er ekki þar með sagt að ég hafi afsalað mér rétti til að gagnrýna hugmyndir eða málflutning annarra.

Hagsmunasamtök heimilanna eru einfaldlega afar ótrúverðug að mínu mati og mér finnst felst sem frá þeim eða talsmönnum þeirra hefur komið ósannfærandi.