Örvitinn

Kjellin

Í ákveðnum kreðsum er nokkuð algengt að menn kalli hvorn annan kjellin.

Alf Kjellin
Hvað segir Kjellin?
"Hvað segir kjellin?" "Kjellin er bara góður á því". "Blesaður kjellin". Borið fram með einu essi og einu enni. Það virðist ekki skipta máli þó menn séu ansi nálægt því að kalla hvorn annan kerlingu, þetta er sagt í mesta bróðerni og af ástúð.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvaðan þetta kæmi, hélt þetta væri tengt Selfossi, strípum og bíldruslum með vindskeið en rambaði um daginn á svarið fyrir algjöra tilviljun. Ég var að skipta milli sjónvarpsstöðva og sá að stórþættirnir Dynasty voru að hefjast á Skjáeinum. Vissi ekki að þeir væru í sjónvarpinu þannig að ég ákvað að horfa á fyrstu mínúturnar. Meðan upphafsstefið spilaði og áhorfendur fengu að virða fyrir sér glæsihallirnar sem persónur þáttanna eiga að búa í blasti svarið við á skjánum. Sænski leikarinn og leikstjórinn Alf Kjellin var augljóslega mikill örlagavaldur í íslenskri hnakkamenningu. Hnakkarnir eru því alls ekki jafn grunnir og sumir héldu heldur hafa þeir djúpan og þroskaðan smekk á klassísku sjónvarpsefni og nota vísanir í það í daglegu tali sjálfum sér og öðrum til upplyftingar.

Svo ég vitni í skáldið (Dr. Gunna):

Verum góð við hnakkana.
Þetta er ekki þeim að kenna.
Þeir meina vel en þeir eru bara svona
og lítið hægt að gera við því.

ps. Ég gafst upp á Dynasty-glápi eftir þrjár mínútur. Annars er kjellin bara ljúfur.

Ýmislegt
Athugasemdir

Arngrímur Vídalín - 17/09/09 15:15 #

Oft borið fram tsjeddlinn, með fráblásnu tannbergsmæltu hálflokhljóði sem rutt hefur sér rúms í íslensku gegnum tökuorð. Svipað og í enska orðinu change.

Svo er enn nýlegra djengz, sem kallarnir.is reyndu að koma á framfæri en mistókst. Ófráblásið tannbergsmælt hálflokhljóð sambærilegt við framburð á nafninu John. Z-an oft undanskilin framburð, höfð með í stafsetningu af því það er töff.

Matti - 17/09/09 15:37 #

Svo segir fólk að ég sé nörd vegna þess að ég veit eitthvað um tölvur :-)

Arngrímur Vídalín - 17/09/09 16:21 #

Ég hef aldrei skilið það hugtak almennilega. Mér virðist það geta átt við um nær alla sem hafa tileinkað sér einhverja menntun, þ.e.a.s. einsog það er notað núorðið, ekki einsog það var upphaflega hugsað.

Matti - 17/09/09 16:39 #

Já, ég veit. Núorðið nota ég "nörd" til að hrósa fólki fyrir þekkingu :-)

Ásgeir - 19/09/09 10:43 #

Arngrímur, þú gleymir náttúrulega "kjeppinn".