Örvitinn

Seðlabankastjóri og ríkisstarfsmenn

Um daginn ræddi Páll Skúlason um landlæga fordóma gegn hinu opinbera. Íslendingar hafa löngum talið að opinberir starfsmenn geri allt með hangandi hendi og þessir fordómar hafa verið notaðir til að færa rök fyrir einkavæðingu. Með því einu að færa verkefni til einkaaðila verði þau hagkvæmari því starfsmennirnir verði sjálfkrafa betri. Reynslan sýnir reyndar annað.

Seðlabankastjóri (sem er ríkisstarfsmaður) tjáði sig um bankana í gær og sagði þá meðal annars:

„Svo eru allir opinberir starfsmenn í raun og veru í bönkunum eins og er óbeint á vegum ríkisins. Þá er kannski besta og auðveldasta lausnin að sitja og gera ekki neitt vegna þess að það mun enginn saka þig fyrir það, en það er auðvitað mjög slæmt fyrir heildardæmið,"

Sumir frjálshyggjumenn grípa á lofti orð um ríkisstarfsmenn sem sitja og gera ekki neitt

Mér finnst þetta vafasamur málflutningur.

Það er alveg ljóst að það er ekki skortur á lánsfé hér á landi en vextir eru háir, það er dýrt að taka lán. Einnig er töluverð óvissa sem gerir það að verkum að fyrirtæki og einstaklingar þora ekki að taka lán. Það er einnig ljóst að bankarnir eru ekki að fara að lána án góðra veða og jafn ljóst að fáir þora að veðja eigum sínum í þessu ástandi.

Undirtektir frjálshyggjumanna, sem halda að ríkisvæðingin valdi því að bankarnir eru ekki að springa út, gengur ekki upp. Seðlabankastjóri benti nefnilega á hina raunverulega ástæðu fyrir því að bankamenn þora ekki að taka (umdeildar) ákvarðanir í dag.

Þeir sem hafa verið inni í bönkunum hafa verið hræddi við ákvarðanir. Hvort sem það er að lána einhverjum eða gera eitthvað vegna þess að það er umræða um það að það þurfi allt að vera gagnsætt og það megi ekki mismuna og þvíumlíkt,

Engu máli skiptir hvað gert í er í dag, um leið stekkur fram fólk sem hrópar um spillingu og valdafíkn. Kauping mátti ekki taka við (lélegu) tilboði frá Björgólfsfeðgum án þess að ráðist væri á bankann og starfsmenn með upphrópunum og hótunum. Þó gerði bankinn ekkert annað en að taka við bréfi. Mér finnst skiljanlegt að bankamenn hiki við að taka ákvarðanir í þeirri stemmingu sem ríkir í samfélaginu í dag.

Fyrir utan þá staðreynd að auðvitað er búið að taka fullt af (umdeildum) ákvörðunum í bankakerfinu, t.d. afskriftir hjá stórfyrirtækjum meðan önnur hafa verið yfirtekin.

Þessi umræða er í raun gjörsamlega glórulaus.

pólitík