Örvitinn

Er niðurhal ólöglegt?

Vegna barnalegra hótana og hræðsluáróðurs Smáís* er við hæfi að velta því fyrir sér hvort niðurhal á höfundarvörðu efni sé í raun ólöglegt

Hefur eitthvað breyst síðan 2004 ?

Vafasamt er að niðurhal til einkanota sé ólöglegt athæfi

Það er hins vegar vafasamt að það sé ólöglegt að hala niður efni sem hefur verið sett á Netið með ólögmætum hætti, svo lengi sem það sé eingöngu gert til einkanota og ekki dreift til annarra.
...
Samkvæmt lögunum sé þó heimilt að gera eintök af myndverkum og tónlist, m.a. með því að hala það niður af Netinu, til einkanota. Frekari eintakagerð eða áframsending til annarra sé hins vegar brot á rétti höfundar. Ef mönnum sé það ljóst að með því að taka niður verk af Netinu fyrir sjálfa sig séu þeir um leið að senda það áfram um Netið til annarra séu þeir augljóslega að brjóta gegn rétti höfunda.

Þá er næsta spurning hvort notkun á torrent hugbúnaði, þar sem niðurhal er sameiginlegt/dreift, teljist dreifing.

*Smáís vill ekki vísanir!

Ýmislegt
Athugasemdir

Erlendur - 30/09/09 11:56 #

Hmm, ef að hver einasti torrent bútur er nógu lítill, myndi það teljast fair use.

Arngrímur - 30/09/09 12:04 #

Mér leiðast svona samtök um höfundarrétt, þau eiga til að sniðganga vilja einstakra félagsmanna. Ef Smáís fer í mál þá geta einstakir rétthafar ekki sniðgengið vilja félagsins. Enda skv. íslenskum lögum er höfundarréttur í gildi óháð vilja höfunda og rétthafa.

Matti - 30/09/09 13:19 #

Já, nú vona ég að fólk haldi ekki að ég sé að segja að höfundarréttur sé óæskilegur í sjálfu sér eða að það sé réttlætanlegt að hala niður sjónvarpsefni (hver gerir eiginlega svoleiðis?).

Enda skv. íslenskum lögum er höfundarréttur í gildi óháð vilja höfunda og rétthafa.

Hvernig virkar það eiginlega?

Björn Friðgeir - 30/09/09 13:41 #

Aha. En það er sjálfgefið í torrent forritum að þú hleður upp nær jafn harðan og þú hleður niður.

Þannig að það er líklega dreifing?

Arngrímur - 30/09/09 13:52 #

Það virkar þannig að ef ég gef út bók og Jón og Gunna ljósrita hana og dreifa á götum úti þá hef ég ekki úrskurðarvald um hvort kært verði fyrir ólöglega dreifingu, heldur útgefandinn eða aðrir tilfallandi rétthafar. Í þessu tilfelli er það undir hagsmunasamtökum myndrétthafa komið hvort kært verður, ekki Ragnari Bragasyni og félögum. Það er að segja: höfundur getur kært, en ekki komið í veg fyrir kæru, af því hann er ekki alvaldur um eigið höfundarverk. Mér finnst það ekki alveg í lagi.

Arngrímur - 30/09/09 13:55 #

Svo ég bæti við til að svara því hvernig höfundarréttur er óháður vilja rétthafa, þá er öll afritun höfundarréttarvarins efnis undir öllum kringumstæðum ólögleg. Hvernig það virkar veit ég ekki, ef rétthafar leita ekki réttar síns.

Siggi pönk hefur t.d. gefið út ljóðabók sem stendur í fremst að sé ekki varin höfundarrétti og megi afrita hvernig sem mönnum sýnist. Gagnvart lögum er það ekki rétt. Það er ekki hægt að afsala sér höfundarrétti nema með lögformlegum samningi.

Haukur - 30/09/09 14:15 #

Ég er nú ekki alveg viss um að þetta sé rétt hjá þér, Arngrímur, að hægt sé að framkvæma eitthvert 'afsal' með lögformlegum samningi en ekki með einfaldri yfirlýsingu.

Ef þú tekur upp á að afrita BA-ritgerðina mína í stórum stíl og dreifa henni um hvippinn og hvappinn trúi ég ekki að ég gæti höfðað mál gegn þér og unnið það - í ritgerðinni stendur skýrum stöfum að öll afritun á henni sé heimil.

Íslensku höfundaréttarlögin er eins og hver önnur evrópsk höfundalög - enda koma alltaf af og til EES-tilskipanir sem breyta þeim til hins verra. Creative-Commons-leyfin virðast vera samhæfanleg slíkum evrópskum löggjöfum sbr. þetta yfirlit. Slík leyfi eru einhliða yfirlýsingar um það hvers konar notkun á verki sé heimil.

Arngrímur - 30/09/09 17:17 #

Það kann að vera rétt hjá þér. Mínar upplýsingar hafði ég frá Hagþenki fyrir nokkrum árum. Þar kom skýrt fram að heimild til afritunar á höfundarréttarvörðu efni mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum fara framhjá höfundi nema samningur þar að lútandi væri fyrir hendi.

Heimild til afritunar á béaritgerðinni þinni liggur þá væntanlega þegar fyrir með þínu samþykki samkvæmt skilmálum Landsbókasafns? Ég þurfti a.m.k. að skrifa undir sérstakt samþykki.

Haukur - 30/09/09 17:31 #

Fara framhjá höfundi? Ég skil ekki alveg hvað þú átt við en ég hef kannski sjálfur orðað þetta frekar ruglingslega.

Þegar ég skilaði Landsbókasafninu BA-ritgerðinni var ég beðinn um að fylla út eyðublað þar sem fram kæmi hvernig mætti nota hana. Ég skrifaði þetta á blaðið:

"Öllum er heimilt að nota verkefnið í hvaða tilgangi sem er að hluta eða í heild. Til dæmis er heimilt að afrita verkefnið, prenta það, gefa það út, selja af því eintök og nota það í önnur verk. Ekki þarf að sækja frekara leyfi frá höfundi. Þetta á bæði við um prentað eintak og stafrænt eintak."

Ég sé að þín BA-ritgerð er lesanleg á netinu, Arngrímur. Það er gott mál og vonandi verður það hin almenna venja. Nógu oft þarf ég samt að hlunkast upp á þriðju hæð á LBS til að lesa þessi litlu kvikindi.

Arngrímur - 30/09/09 17:52 #

Ég vona það líka, finnst það bara svo sjálfsagt að þetta sé aðgengilegt öllum. Lenti í talsverðu basli við að kynna mér sambærilegar ritgerðir vegna stífra reglna um notkun. Svo ég fór bara til höfundanna sjálfra og sniðgekk Landsbókasafn.

En svo ég skýri betur hvað ég á við þá hefur mér lengi skilist að höfundur geti ekki afsalað sér höfundarrétti gagnvart lögum nema með þartilgerðum samningi.

Svo jafnvel þótt þú setjir klausu í ritið sem heimilar hverskonar afritun á verkinu án frekara leyfis hafi það ekki gildi gagnvart lögum. En þar sem enginn er til að sækja mál fyrir þína hönd fyrir afritun á verkinu þá er „heimilt“ að afrita það.

Ef Háskólaútgáfan gæfi það út á hinn bóginn þá gætu þeir sótt mál gegn hverjum þeim sem afritaði verkið, jafnvel þótt fyrir lægi leyfi frá þér til hvers sem vera kynni að afrita það.

Eða þannig hefur mér hingað til skilist að það virkaði.

Haukur - 30/09/09 18:03 #

Ég held að höfundur og útgefandi geti samið sín á milli með margvíslegum hætti. Útgefandi sem samþykkir að prenta verk með klausu sem segir að hver sem er megi afrita það hlýtur að vita að hverju hann gengur. En ég er enginn lögfræðingur.

Reglur um notkun á námsritgerðum eru í meira lagi furðulegar. Hvað á maður til dæmis að gera þegar höfundur er látinn? Má þá enginn vitna framar í verkið um aldur og ævi?

Arngrímur - 30/09/09 18:11 #

Haha, það er athyglisverð pæling!

Jón Yngvi - 30/09/09 22:21 #

Ég held þú hafi eitthvað oftúlkað Hagþenki Arngrímur, eða sá sem talað fyrir hann verið óskýr (ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið fyrir mína tíð, man amk ekki eftir að hafa talað við þig í því starfi). Íslensk höfundarréttarlög gefa höfundi einkarétt á birtingu verks, en þau gefa honum líka fullan rétt til að afsala sér öllum rétti (nema réttinum til nafnbirtingar) hvort sem er með samningum eða einfaldlega yfirlýsingu eins og þeirri sem er fremst í bók Sigga pönk. Íslensk höfundaréttarsamtök hafa ekki oft svo mér sé kunnugt gripið fram fyrir hendurnar á rétthöfum eða gert neitt til að hindra þá í að dreifa verkum sínum hvort sem er ókeypis eða gegn gjaldi. Ég þekki raunar ekki mjög vel til hjá Smáís, það má vel vera að þeir grípi til aðgerða án samráðs við einstaka rétthafa, en það er óþarfi að setja öll höfundaréttarsamtök undir sama hatt.

Arngrímur - 30/09/09 22:57 #

Nei, þá hlýt ég að hafa misskilið þetta á sínum tíma. Við nánari skoðun sé að ég hef rangt fyrir mér, einsog ég þóttist nú handviss um þetta:

Úr I. kafla 4. gr.: Ógilt er afsal höfundar á rétti samkvæmt þessari grein, nema um einstök tilvik sé að ræða, sem skýrt eru tilgreind bæði um tegund og efni.

og

III. kafli. Um aðiljaskipti að höfundarétti. Almenn ákvæði. 27. gr. Framsal höfundaréttar að nokkru leyti eða öllu er heimilt með þeirri takmörkun, sem leiðir af ákvæðum 4. gr. Nú er eintak af verki afhent til eignar, og felst þá ekki í þeim gerningi framsal á höfundarétti að verkinu, nema þess sé getið sérstaklega.

Einar Jón - 01/10/09 07:02 #

Er ekki skylda að nota rel="nofollow" smokk á smáís eins og Már benti á í fyrri færslunni um þá?

Matti - 01/10/09 09:33 #

Æi, ég nota markdown og nenni ekki að breyta þessu. Bætti við alt texta.

Haukur - 04/10/09 15:40 #

Þeir eru dálítið seinheppnir að minna á það einmitt í sömu viku að þessi Pétur og Páll sem SMÁÍS ætlar að lögsækja fyrir að horfa á þættina eru sami Pétur og Páll og hafa þegar að verulegu leyti greitt fyrir gerð þáttanna með skattpeningum.