Örvitinn

Fyrir ári

Þann 6. október í fyrra vorum við hjónin stödd í London í tilefni tíu ára brúðkaupsafmælis. Höfðum planað ferðina með löngum fyrirvara og hættum því ekki við þrátt fyrir ástandið. Ég ætlaði alltaf að skrifa ferðasögu en trassaði það. Var uppteknari við að pæla í ástandinu. Kláraði ekki einu sinni að fara yfir myndirnar sé ég núna þegar ég fletti í gegnum þær.

Þennan dag byrjuðum við á því að fara að Covent garden og fengum okkur morgunverð á veitingastað við torgið.

Eftir morgunmat heimsóttum við Build a bear búðina og keyptum bangsa handa Kollu og Ingu Maríu. Bangsarnir voru dýrir og síðar reyndust þeir miklu dýrari. Stelpurnar hafa nú samt verið ósköp ánægðar með þá.

Röltum svo að London Eye, fórum einn hring og dáðumst að útsýninu. Borguðum með korti.

London

Fylgdumst með fréttum af ástandinu á Íslandi og furðuðum okkur á því af hverju ekkert var rætt við íslenska stjórnmálamenn í erlendum fjölmiðlum. Þeir höfðu náttúrulega ekkert að segja, þetta var búið.

Hluta ferðarinnar fjármögnuðum við með linsu sem ég seldi í Nikon búð í London í upphafi ferðar. Hún fór öll í mat og drykk. Ef ég miða við sunnudagsgengið á pundinu var þetta einn besti díll sem ég hef gert.

Daginn eftir, að kvöldi sjöunda október, lögðum við af stað heim til Íslands. Hlustuðum á útvarpið á Reykjanesbrautinni og höfðum áhyggjur af framhaldinu.

dagbók