Örvitinn

Endurtekningar á blogginu

jonas_bergmal_litil.png Ég er að spá í að velja eitt umfjöllunarefni og blogga um það oft á dag út frá níundu reglunni. Þannig fæ ég örugglega meiri athygli og eins og allir vita þá er ég athyglissjúkur - eða var það klámsjúkur - ég rugla þessu alltaf saman.

Æi nei, þetta er öfund og tilraun til þöggunar en á myndinni hér til hliðar sjáum við þrjár bloggfærslur frá deginum í dag eftir nestor íslenskrar blaðamennsku. Smellið á til að sjá nógu stórt til að lesa. Efni í þrjár bloggfærslur? Hvað finnst ykkur?

Sennilegra er að mér farið að leiðast dálítið að hanga slappur heima.

Vandinn við að hafa mynd til hliðar í færslu er að þá þarf að skrifa dálítinn texta til að allt flútti fallega. Þ.e.a.s. það er vandi þegar maður hefur ekkert að segja og ef manni stendur ekki á sama um flútt.

Mér finnst líka dálítið pirrandi að fyrirsagnir flestra DV bloggara eru með HÁSTÖFUM. Einu sinni var ég með þetta svona en hætti þegar bent var á að það væri eins og ég væri að hrópa í fyrirsögnum. Er einhver til í að benda DV bloggurum á þetta?

Ég elska kommentara á eyjunni sem tuða útaf því að ráðuneytið heitir núna Dóms og mannréttindaráðuneitið en ekki Dóms og hötumtrúleysingjaráðuneytið*. Mannréttindi eru svo gildishlaðið hugtak. Þetta er nákvæmlega sama umræða og var á Alþingi þegar kristinni arfleifð íslenskrar menningar var troðið í leik- og grunnskólalög. Þá var lögð fram breytingartillaga sem bætti mannréttindum inn í upptalningu en það var fellt vegna þess að það væri svo óljóst en kristin arfleifð greinilega ekki þegar talað var um starfshætti skólanna. Veröldin er full af fávitum.

Hér er ég með efni í þrjár eða fjórar bloggfærslur, þetta er allt of löng bloggfærsla. Þetta er bruðl og þetta er sóun. Ég hlýt að vera sjúkur.

*Heimildarmenn mínir í stjórnkerfinu segja að BB hafi viljað nota það heiti. Núverandi dómsmálaráðherra ku hafa verið hrifin af hugmyndinni.

kvabb vefmál