Örvitinn

Algild og/eða gildishlaðin mannréttindi BB

Björn Bjarnason segir að orðið mannréttindi sé of gildishlaðið til að hægt sé að nefna gamla ráðuneytið hans Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið*.

Þrátt fyrir að orðið sé gildishlaðið hefur það ekki komið í veg fyrir að Björn noti það af og til, til dæmis þegar hann fjallar um Kína:

Deilur um mannréttindi á alþjóðavettvangi snúast ekki síst um það, að talsmenn einræðisstjórnarinnar Kína krefjast þess, að önnur mælistika sé notuð um kínverska stjórnarhætti og kúgun, til dæmis á Tíbetum, en á vestræna stjórnarhætti. Sé látið undan þessari kröfu Kínverja er fallist á, að mannréttindi séu ekki algild réttindi, sem hver maður á að njóta. #

Við annað tækifæri sagði hann:

Ekkert segir okkur, að veröldin verði betri með því að steypa alla í sama mót – hitt er á hinn bóginn nauðsynlegt nú eins og fyrir fimmtíu árum, að frjálshuga menn og þjóðir taki höndum saman um að tryggja mannréttindi og leggi nokkuð á sig í því skyni #

Hvort eru mannréttindi gildishlaðið orð eða algild réttindi sem hver maður á að njóta og þjóðir eiga að taka höndum saman um að tryggja? Ég hallast að því síðara og styð að ráðuneyti dómsmála fjalli einnig um mannréttindi. Eflaust má færa fyrir því rök að þau sé bæði, en fyrst þau eru algild hlýtur að vera við hæfi að nefna ráðuneyti eftir þeim. Því miður hefur stundum skort virðingu fyrir réttindum manna í þessu ráðuneyti og/eða þeim stofnunum sem undir það heyra.

*Sjá t.d. umræður hjá Agli Helgasyni

pólitík
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 08/10/09 14:37 #

Matti, veistu ekki að það er dónaskapur og ofsóknir að benda fólki á sínar eigin þversagnir og rökvillur?

Matti - 08/10/09 14:37 #

Jú, ég er bara svo hatrammur ;-)

Eyja - 08/10/09 14:58 #

Ég sé ekkert að því að segja að 'mannréttindi' sé gildishlaðið orð. Ég hefði haldið að það sem orðið vísar til séu ákveðin gildi sem liggja til grundvallar lýðræðinu. Þ.e.a.s. lýðræði fær ekki þrifist nema tiltekin gildi séu höfð í heiðri, s.s. skoðana- og tjáningarfrelsi, jöfn tækifæri til náms og starfs, jafnrétti þegnanna, o.s.frv. Það hljómar hins vegar mjög undarlega að fyrrverandi ráðherra í svokölluðu lýðræðisríki skuli gefa í skyn að þessi tilteknu gildi séu eitthvað sem ekki skuli ríkja sátt um.

Matti - 08/10/09 15:00 #

Ekkert að því að segja að orðið sé gildishlaðið en það er að mínu mati stór furðulegt að segja að það sé of gildishlaðið til að nota á ráðuneyti :-)

Eyja - 08/10/09 15:08 #

Viðkomandi maður er kannski ekki sá sem þekktastur hefur verið fyrir mannréttindabaráttu....

Jón Magnús - 08/10/09 15:22 #

"Ekkert að því að segja að orðið sé gildishlaðið en það er að mínu mati stór furðulegt að segja að það sé of gildishlaðið til að nota á ráðuneyti :-)"

Sérstaklega þegar hitt nafnið á þessu ágætis ráðaneyti var Kirkjumálaráðaneytið. Mín skoðun á því er að það sé töluvert meira gildishlaðnara í lýðræðisríki en Mannréttindaráðaneyti.