Örvitinn

Nóbelsverðlaunakvabb

Imagine peace tower - second version
Mynd fönguð á CCD skynjara
og flutt með ljósleiðara.
Af hverju beinist athygli allra að bókmennta- og friðarverðlaunum Nóbels? Mér finnst Nóbelsverðlaunin í efna-, læknis- og eðlisfræði miklu áhugaverðari. Samt fá hinir töluvert meiri athygli. Hvað veldur?

Hugsanlega er ekki jafn einfalt að útskýra vísindin og verðlaunahafarnir eru yfirleitt ekki heimsfrægir fyrir. Flestir ættu að átta sig á því hverju eðlisfræðingarnir hafa áorkað en rannsóknir þeirra hafa veitt okkur (eða bætt) ljósleiðaratæknina og ccd myndflöguna. Efnafræðingarnir fá verðlaunin fyrir rannsóknir á ríbósómum (bloggfærsla hér og Vísindavefsfærsla um myndun prótína). Þetta er ekkert léttmeti en samt er hægt að útskýra þetta fyrir fólki þannig að flestir skilja.

Bókmenntaverðlaunahafinn virðist fyrst og fremst hafa skrifað leiðinlegar bækur ef eitthvað er að marka íslenska álitsgjafa og friðarverðlaunahafinn er rosalega frægur stjórnmálamaður!

Kannski er þetta það sama og veldur því að listi yfir gáfuðustu menn Íslands inniheldur aðallega stjórnmálamenn og skáld en fáa eða enga vísindamenn?

Horfði á ágætan vísindaþátt Ara Trausta í sjónvarpinu í gærkvöldi. Við þurfum meira af slíku efni í fjölmiðla til að vekja áhuga á vísindum. Vísindaþættir eru nefnilega oft stórskemmtilegir. Hef svosem sagt þetta áður.

fjölmiðlar kvabb
Athugasemdir

Sævar Helgi - 09/10/09 11:06 #

Er hjartanlega sammála þér og hef lengi velt þessu líka fyrir mér. Fyrsta frét mbl.is um eðlisfræðiverðlaunin var mjög furðuleg, ekki nema fjórar línur og engin útskýring. Við blogguðum um það þar sem við reyndum að útskýra CCD flögur. Svo reyndar lagfærði mbl.is fréttina seinna.

Það reyndar vantar oft vísindamenn til að útskýra fyrir fjölmiðlum fyrir hvað mennirnir fá verðlaunin. Við ætlum að fjalla um Nóbelsverðlaunin 2009 í Vísindaþættinum næsta þriðjudag.

ÁJ - 09/10/09 11:40 #

Kannski tengist þetta því að Barack Obama er örlítið frægari en Willard Boyle.

Íslenskir álitsgjafar sem tala um „leiðinlegar bækur“ hafa varla fengið mikla og góða menntun í bókmenntum.

Matti - 09/10/09 12:00 #

Þetta var kannski ofsagt hjá mér, hið rétta er að Illugi Jökuls las bókina Ennislokkur einvaldsins og "heillaðist ekki" :-)

Ég minntist líka á þetta með frægðina. Það er væntanlega skýringin en oft eru þeir sem fá friðar- eða bókmenntaverðlaunin ekkert rosalega frægir.

Það mætti svosem segja mér að ef einhver rosalega frægur fengi nóbel fyrir vísindastarf yrði töluvert fjallað um það. Ég veit bara ekki hver kemur til greina :-)

Lárus Viðar - 09/10/09 20:52 #

Þetta er alveg rét. Stundum eru þessir bókmenntaverðlaunahafar gleymdir eftir einhvern tíma. Friðarverðlaunin eru líka stundum misheppnuð, ef það á að segjast eins og er.

Vísindaverðlaunin fara þó undantekningarlaust til fólks sem hefur breytt heiminum um alla framtíð. Mjög gott dæmi eru eðlisfræðiverðlaunin í ár, ljósleiðaratæknin og CCD flögur hafa haft gífurleg áhrif.

Bæði efna- og læknisfræðiverðlaunin í ár fara til þýðingarmikilla grunnrannsókna í sameindaerfðafræði sem hafa kannski ekki haft jafn mikil sjáanleg áhrif enn sem komið er en mikilvægi þeirra er ekki minna fyrir það.