Örvitinn

Silfrið, hlutleysi og hægrimenn

Getur verið að hægrimenn sem kvarta undan því að vissir fjölmiðlar séu ekki nægilega hlutlausir misskilji hugtakið hlutleysi.

Björn Bjarnason og mótmælendur
Björn Bjarnason gengur í þinghúsið
við setningu Alþingis í Janúar.
Ef ég verð vitni á því að maður gengur upp að konu á Laugaveginum og hrækir framan í hana er hlutlausa frásögnin fólgin í því að lýsa einmitt því sem gerðist eins og það gerðist.

Björn Bjarnason virðist telja að hlutlaus frásögn byggist á því að gera ekki upp á milli aðila í frásögninni, að vissum fjölmiðlum beri að taka fram að konan hafi staðið í vegi fyrir manninum, verið í ljótum kjól og sé þar að auki kommadrusla. Að umfjöllun eigi að byggja á frásögnum allra aðila án þess að gera upp á milli þeirra.

Eitt sem pirrar mig við fjölmiðla er einmitt óviðeigandi hlutleysi, sú furðulega árátta fjölmiðlamannað gefa öllum hliðum jafn mikið vægi. Rugludallur (t.d. Jónína Ben) fær jafn mikið vægi og sérfræðingur (t.d. læknir) þegar deilt er um detoxið. Það er ekki hlutleysi, sannleikurinn liggur ekki alltaf mitt á milli öndverðra skoðana. Dæmigerð frétt í sjónvarpi byggist á því að einn aðili segir sína skoðun á tilteknu máli. Kvöldið eftir kemur einhver annar og andmælir en sjaldgæft er að fréttamenn rannsaki málið og vegi rökin sem fram hafa komið, þeim er bara varpað fram án gagnrýni. Ítarleg umfjöllun byggist svo gjarnan á því að stilla tveimur aðilum með andstæðar skoðanir upp og láta þá rífast í fimm mínútur.

Þetta verður sérstaklega áberandi þegar einhverjir aðilar hika ekki við að segja ósatt. Ríkiskirkjan stundaði þetta t.d. í umræðum um trúboð í skólum og alltaf fengu þeir að koma sinni hlið að - jafnvel þó hún væri lygi. Vissulega fengu aðrir að svara en fólk úti í bæ þurfti að vega og meta, margir trúðu kirkjunni vegna þess að þeir töldu ranglega að þar væri heiðarlegt fólk sem ekki beitti blekkingum.

Að mínu mati á hlutleysi fjölmiðla að felast í því að komast að sannleika málsins hver svo sem hann er. Fjölmiðlar eiga ekki að dæla út skoðunum heldur rannsaka þær fullyrðingar sem fram koma. Þess vegna eru þættir eins og Kompás sálugi svo mikilvægir, þar er fólk a.m.k. að reyna að komast að kjarna málsins. Vel getur verið að stundum hafi það rangt fyrir sér, en það er betra að hafa stundum rangt fyrir sér heldur en að vera alltaf skoðanalaus.

Nú er hægt að segja ýmislegt um Egil Helgason því hann er ansi mistækur, á það til að vera ómálefnalegur. Það er aftur á móti furðulegt að ásaka hann um hlutdrægni í þáttum sínum í ljósi þess að Egill hefur ekki hikað við að bjóða allskonar fólki í þáttinn sinn þó hann sé ekki sammála því, meira að segja mér! Í umræðum hjá Agli kemur meira að segja fram að þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa komið oftar en aðrir í þáttinn á þessu hausti.

Vissulega hefur hann skoðanir í þættinum og andmælir þeim sem hann er ekki sammála, en gestir hafa tækifæri til að setja mál sitt fram og reyna að sannfæra Egil og áhorfendur um mál sitt. Svo lengi sem hann ritskoðar ekki alla gagnrýni á blogginu sínu, eins og hann gerði einu sinni, er mér nokkuð sama um hvað hann skrifar þar. Maður hefur tækifæri til að andmæla.

Það kemur ekki á óvart að Máni Atlason eigi heimskulegustu athugasemdina hjá Agli en hann skrifar:

Eru ekki þessar stuðningsyfirlýsingar hér einmitt ágætt merki um að þú haldir ákveðnum skoðunum á lofti í gegnum þáttinn þinn Egill? Og eðlilega eru þeir sem eru þér sammála ánægðir og skipa sér hér í lið með þér (og hafa verið uppnefndir nafnlaus her og ég veit ekki hvað og hvað) en aðrir sem eru óánægðir skrifa um það. Eða ertu ósammála þessu mati?

Hvað er hægt að segja við svona lógík BB klónans? Hjörtur J. Guðmundsson er svo með álíka gáfuleg innlegg. Um þann mann er best að segja sem minnst.

Reyndar er sannleikskorn í því að margir sem kommenta hjá Agli eru með lausa skrúfu svo vægt sé til orða tekið.

Þess má geta að ég er ekkert að stressa mig á því þó ég missi orðið af Silfrinu í sjónvarpinu.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Sigurdór Guðmundsson - 21/10/09 13:05 #

Fjölmiðlamenn mætti (oft) vera harðari í umfjöllun sinni (almennt) og tækla vafasamt "bullshit" um leið og það kemur fram.

Matti - 21/10/09 13:06 #

Það kemur fyrir að maður sér fjölmiðlamenn draga fram gögn sem sýna að fullyrðingar viðmælenda standast ekki - en það er frekar sjaldgæft.

Matti - 21/10/09 14:09 #

Þetta myndband er klassík og smellpassar með bloggfærslunni. Ég vísaði á þetta í júlí.

Eyja - 21/10/09 14:10 #

Það vantar oft bullshitsíu í fjölmiðlana. Þessi tilhneiging að vera að gera illa upplýstu og grunnþenkjandi fólki hátt undir höfði með því að vera sífellt að fá það í fjölmiðlaviðtöl sem fulltrúa "hinnar hliðarinnar" veldur því að hugsandi fólk hættir að nenna að fylgjast með. Það sem væri kannski gagnlegast væri að fá tvo (ef við höldum okkur við þá tölu) viðmælendur sem hefðu að einhverju leyti mismunandi sýn á málefnið en hefðu samt báðir vel ígrundaðar skoðanir og færir um að ræða þær á málefnalegan hátt. Í staðinn er gjarnan reynt að stefna saman tveimur andstæðum pólum, alveg óháð því hvort um vitrænar skoðanir er að ræða.

Og já, ég er bölvaður hrokagikkur.

Helgi Briem - 21/10/09 15:06 #

Nú myndi ég hæla þér fyrir góða grein Matti, nema að það yrði væntanlega túlkað sem sönnun þess að hún væri vond.

Kristján Atli - 21/10/09 15:38 #

Frábær grein. Ég hef engu við hana að bæta, hún er sjálfri sér nóg. Vildi bara þakka þér fyrir hana.

Þorgrímur Gestsson - 21/10/09 17:26 #

Með aldarfjórðungsreynslu í blaðamennsku á bakinu segi ég bara: Þetta er alveg rétt, hér skortir algjörlega gagnrýna blaðamennsku og að mál séu sett í samhengi. Ég vil aðeins benda á að munur er á hlutleysi og óhlutdrægni. Þessi umræða var tekin fyrir 20-30 árum, ekki síst í tengslum við hlutverk Ríkisútvarpið. Því ber að gæta óhlutdrægni, þ.e. leyfa öllum sjónarmiðum að njóta sín. Hins vegar er enginn hlutlaus og hlutlaus fjölmiðill, sem kemur einvörðungu öllum sjónarmiðum til skila en gleymir samhenginu og að vera vettvangur samfélagslegrr gagnrýni er ónýtur fjölmiðill. Þannig blað var Mogginn en nú er hann orðinn að málgagni. Ekki meira um það. Og ég tek undir nauðsynina á bullsíunni.