Örvitinn

Eldsmiðjuklúður

Ég ákvað að panta pizzur frá Eldsmiðjunni í kvöld vegna þess að þar er fínt tilboð í gangi, tíu ára gamalt verð á pizzunum.

Ég hringdi úr vinnunni klukkan sex, Kolla var á námskeið til sjö og ég var því rólegur þó við þyrftum að bíða dálítið. Þurfti að hringja nokkrum sinnum til að ná í gegn en var ekkert stressaður enda að panta tímanlega. Þegar ég náði í gegn og pantaði fékk ég þau skilaboð að það væri tveggja tíma bið á Suðurlandsbraut en 90 mínútna bið á Bragagötunni. Ég pantaði því pizzuna frá Bragagötu.

Þegar ég og Kolla mættum þangað klukkan tuttugu mínútur yfir sjö var röð út á götu. Við fórum inn og borguðum pizzurnar klukkan 19:26 - en þær áttu semsagt að vera tilbúnar klukkan 19.30 miðað við símtalið. Ég spurði afgreiðsludömu hvort það væri einhver auka bið og hún sagði að svo væri - um tuttugu mínútna töf. Okkur þótti nú lítið mál að bíða aðeins en biðum aðeins lengur en við gerðum ráð fyrir.

Þetta endaði með því að við biðum á Bragagötunni í hundrað mínútur. Fengum pizzurnar rúmlega níu, meira en þremur tímum eftir að við pöntuðum.

Það er óhætt að segja að andrúmslofið hafi verið þrungið í Eldsmiðjunni, sumir kúnnar pirraðir en aðrir þokkalega léttir á því eins og við feðginin sem spjölluðum við aðra sem biðu eins og við. Einn skelltli hurðum þegar hann frétti að pizzurnar hans yrðu tilbúnar eftir 5-10 mínútur. Væntanlega hefur hann verið búinn að bíða lengi. Landsþekkt leikkona var að missa sig vegna þess að hún hafði beðið í klukkutíma, þá hafði var ég að rölta út eftir hundrað mínútna bið.

Þegar við komum heim var klukkan langt gengin í tíu og stúlkurnar sem biðu glorsoltnar, enda kláruðust pizzurnar á skömmum tíma.

Það er semsagt ljóst að Eldsmiðjan er ekki alveg að höndla þetta tilboð.

kvabb
Athugasemdir

Þórður Ingvarsson - 23/10/09 23:34 #

Ég hef lent í viðlíka klúðri hjá Eldsmiðjunni. Vorum þrjú sem pöntuðum tvær pizzur, biðum eftir henni í tvo til tvo og hálfan tíma og loks þegar maður fékk þær í hendurnar þá voru þær báðar vitlaust afgreiddar.

Grunar að svona bölvð klúður sé bara furðulega algengt hjá Eldsmiðjunni og sögusagnir um að starfsfólk í eldhúsinu þarna sé meira og minna freðið eigi bara við einhver rök að styðjast miðað við hvernig þeir höguðu sér: óttalegir amatörar þar sem hver hendin er uppi á móti annarri en samt að reyna vera ógislega töff og pró.

Jóhannes Proppé - 23/10/09 23:54 #

Það er nokkuð klárt mál að bestu bökurnar í bænum eru á pizzaverksmiðjunni í lækjargötu, sérstaklega svo ef Óli gamli er sjálfur á vaktinni.

Matti - 24/10/09 00:02 #

Þið hafið báðir rangt fyrir ykkur. Bestu bökurnar fást heima hjá mér þegar ég nenni að gera þær sjálfur ;-)

Jón Magnús - 24/10/09 08:59 #

Vá þannig að heimagerðu pizzurnar sem ég gerði heima í gær voru 3sinnum fljótari en eldsmiðju-pizzurnar og ég verð nú bara að segja alveg hrikalega góðar :)

Haukur H. Þórsson - 24/10/09 11:52 #

Ég skil ekki alveg þetta fuzz í kringum þetta tilboð .... hvert er verðið á 16" pizzu með t.d 3 áleggstegundum hjá þeim á þessu tilboði?

Matti - 24/10/09 12:08 #

Ég keypti þrjár pizzur, tvær 16" og eina 12". Þessar stóru voru báðar matarmiklar af matseðli en sú litla var margherita. Fyrir borgaði ég 3.700,- minnir mig. Held að stóru pizzurnar hafi kostað 1500 stykkið og sú litla 690.

Ef við berum þetta saman við verð á öðrum stöðum, þar sem ég er ekki með "venjulega" verðið á Eldsmiðjunni, þá kostar stór matarmikil pizza hjá Rizzo um 2500 krónur og 2700 hjá Dominos. Þannig að á venjulegum degi hefði þetta væntanlega kostað rúmlega sex þúsund krónur.

Þannig að afslátturin er góður en ekki biðarinnar virði.

Óli Gneisti - 24/10/09 14:42 #

En eru verðin mikið betri en á Rizzo Express?

Matti - 24/10/09 14:49 #

Nei, sýnist vera sama verð þar. Vissi ekki af þeim stað.

-DJ- - 24/10/09 16:41 #

"Þannig að afslátturin er góður en ekki biðarinnar virði." - Nákvæmlega.

Rizzo Express er auðvitað úti í rassgati fyrir allt venjulegt fólk (fólk sem býr ekki þarna úti í rassgati)

Óli Gneisti - 24/10/09 17:03 #

Fyrir okkur sem búum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þá er Rizzo Express ekkert sérstaklega langt í burtu.

Helgi Þór - 25/10/09 20:56 #

Menn eiga bara að fá sér pizzur á Saffran ;) Þær eru alveg merkilega góðar (og hollar) og ódýrar að mínu mati :)

Helgi Briem - 26/10/09 13:40 #

Ég og konan reyndum að fá okkur kebab, sem þeir kalla "Naanwich" á Saffran í Kópavogi í gær. Réttur sem venjulegast tekur 30 sek að framreiða? 5 mín ef byrjað er frá grunni að elda allt.

Sá sem virtist vera kokkurinn fór út að reykja rétt eftir að við settumst niður og var úti í svona 10 mín. Þegar hann kom aftur fór hann að skafa grillið og bardúsa, fór svo aftur út að reykja. Eftir ca 25 mínútna bið fór ég að kanna málið. Kokkurinn var farinn eitthvað og hrátt kjöt lá á grillinu. Við spurðum afgreiðslustúlku hvort það væri langt í matinn. Hún sagði að það hefði óvart verið slökkt á grillinu og það væri enn einhver bið. Við báðum um að fá endurgreitt og fengum það greiðlega.

Þess má geta að það voru svona 6-8 aðrir að bíða eftir mat, órólegir á svip.

Það verður einhver bið á því að ég reyni að éta á Saffran aftur.

Matti - 26/10/09 15:44 #

Þetta er ansi magnað klúður hjá þeim - eins og maturinn er nú góður.