Örvitinn

Magnaður tvískinnungur presta

Green

Þegar ég kíkti á Blogggáttina við morgunverðarborðið í gærmorgun* sá ég fróðlega trúarjátningu á vefsíðunni trú.is.

Þar sem trúarjátningin var ekki eftir fermingarbarn heldur háskólamenntaðan ríkiskirkjuprest ákvað ég að skrifa trúleysisjátningu til að benda á hvað sumt af þessu er kjánalegt. Ég endaði trúleysisjátninguna á orðunum:

Ég trúi ekki á Gvuð vegna þess að ég er ekki alinn upp við trúboð og átti því séns á að trúa ekki á Gvuð ólíkt sumum.

Þetta var augljóslega skot á Hildi Eir Bolladóttur, höfund trúarjátningarinnar, en hún er alin upp af presti og fetar í fótspor föður síns eins og bæði bróðir hennar og systir. Ég tel semsagt að hún hafi í raun aldrei átt séns á öðru en að verða (afskaplega) trúuð og að allar aðrar skýringar séu yfirvarp.

Það kom mér ánægjulega á óvart þegar Hildur Eir skrifaði athugasemd við trúleysisjátningu mína. Innihaldið var aftur á móti ekki jafn ánægjulegt, athugasemdin var svona:

Hildur Eir Bolladóttir - 29/10/09 11:21 #

Hahahaha þetta er óborganlega fyndinn texti hjá þér, þú gjörsamlega bjargaðir deginum hjá mér, bestu kv Hildur Eir

Fyrst svaraði ég bara með álíka stælum og benti á að vissulega þættu mér trúarbrögð hlægileg en svo datt mér í hug að framkvæma litla tilraun. Ég skrifaði athugasemd Hildar óbreytta við trúarjátningu hennar á trú.is - skipti bara út nafni.

Viti menn, athugasemd mín/Hildar var ritskoðuð. Henni eða ritstjórum trú.is þótti athugasemdin of ómálefnaleg til að birtast við trúarjátninguna. Hildur, Árni Svanur eða einhver annar vill semsagt meina að það gildi ekki sömu reglur um Matta og séra Hildi.

Hildur Eir reynir að útskýra muninn í athugasemd og segir:

Hildur Eir Bolladóttir - 29/10/09 20:56 #

Uh bíddu leyfðu mér að hugsa, var það ég eða þú sem skrifaði fyrst útúrsnúning á trúarjátningu ákveðinnar manneskju? Sem mér fannst að vísu mjög fyndin því þótt ótrúlegt megi virðast þá hef ég húmor :)

Þannig að málið er einfalt. Hún afgreiðir trúleysisjátningu mína sem útúrsnúning. Þess vegna má hún svara með þessum hætti, það er til merkis um "húmor" hennar en þar sem henni var svo mikil alvara er svar mitt alls ekki við hæfi!

Við því get ég ekkert sagt annað en að ég var alls ekkert að snúa út úr. Trúleysisjátning mín var alvöru viðbrögð við trúarjátningu Hildar. Trúleysisjátningin var tilraun til að sýna fram á með einföldum hætti hvað trúarjátning hennar var barnaleg eins og hún játar reyndar sjálf í athugasemd.

Síðustu ár hef ég oft fengið á tilfinninguna að þetta sé viðhorf presta. Gagnrýni trúleysingja, sérstaklega okkar í Vantrú, er bara útúrsnúningar og stælar. Þannig geta þeir afgreitt okkur og sleppt því að svara. Losna við að ræða við okkur á jafnréttisgrundvelli þar sem trúarrök eru tekin af borðinu.

Eftir stendur að hjal trúmanna um vilja til samtals er falskt. Þetta fólk vill ekki ræða málin, það vill prédika. Einu svörin sem prestar vilja í raun heyra eru "hallelúja" og "amen".

Amen.

*Hvað áttu við, gera það ekki allir?

kristni
Athugasemdir

Mummi - 30/10/09 12:32 #

Töff mynd! :)

Hvað getur maður sagt um efnið? Hefur ekki allt verið sagt?

Matti - 30/10/09 13:02 #

Viti menn, athugasemd mín er komin inn!

Svar Hildar við athugasemdum Hjalta, Svans og Tinnu er kunnuglegt:

# Hildur Eir Bolladóttir skrifar:
30. 10. 2009 kl. 11.04

Kæri Hjalti, Tinna og Svanur, mér er það bæði ljúft og skylt að hitta ykkur og spjalla um mitt einfalda hjarta og trú og vísindi,að ég tali nú ekki um kvenréttindi kaffið á Kaffismiðjunni við Kárastíg er t.d. dásamlega gott, við gætum hist þar á mánudaginn næsta (frídagurinn minn) spjallað auglitis til auglitis, þið komið með áhugarverðar vangaveltur þannig að til er ég. Bestu kv Hildur Eir

Ég veit ekki hversu oft ég hef séð þessa taktík en þetta er semsagt leið prestanna til að komast hjá því að ræða málin eða ræða þau á sínum heimavelli þar sem ekki er hægt að hafa neitt eftir þeim.

Af hverju svarar manneskjan ekki einfaldlega athugasemdum þeirra? Þær eru allar málefnalegar.

Siggi Óla - 30/10/09 13:03 #

Hehe þetta er fyndið... eða ekki.

Nú eru athugasemdir þínar og Hjalta allt í einu komnar inn á tru.is og þá innan um þær sem voru í gær og innan um þær sem greinilega voru samþykktar inn og skrifaðar á eftir ykkar.

Ótrúlegt... eða ekki.

Matti - 30/10/09 13:04 #

Ætli þessi bloggfærsla hafi ekki sett dálitla pressu á þau :-)

Matti - 30/10/09 13:19 #

Nú dauðbrá mér! Ég skrifaði athugasemd við færsluna og hún fór beint inn!!! (já, þrjú upphrópunarmerki)

Bíður ekki samþykkis, ekki hent í ruslið, heldur birtist hún bara um leið.

Þetta er stórkostlegt, trúmenn myndu kalla þetta kraftaverk.

Batnandi fer fólki best að lifa.

Markús - 30/10/09 13:59 #

Mér finnst nú alveg beisk að þú ættir linka í BloggGáttina :)

Matti - 30/10/09 14:01 #

Hvenær hefur Blogggáttinn eiginlega vísað á mig? (nei, djók :-) ) Bætti úr því í þessari færslu og þeirri næstu.

Markús - 30/10/09 14:07 #

Þakka þér :)

Arnold - 30/10/09 18:18 #

Þessi árátta presta að kalla fólk til fundar þegar búið er að króa þá af í umræðum er skondin en skiljanleg. Rökræður á netinu eru óstjórnlega pínlegar fyrir þá. Þeir vita það og þess vegna koma þeir sífellt með þessa uppástungu.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 30/10/09 19:27 #

Ég veit ekki hvort það sé rétt að segja að það sé búið að króa hana af, en það er undarlegt hvað prestum virðist mörgum vera illa við að ræða þessi mál á netinu.

Nema auðvitað það sé á lokuðum póstlistum.

Arnold - 30/10/09 19:46 #

Hjalti, hvað viltu kalla það þegar hún svarar alls ekki málefnalegum spurningum? Hvers vegna vill hún frekar hitta ykkur á kaffihúsi þar sem engin skráning verður á því sem fer fram? Það má alveg kalla það eitthvað annað. Breytir ekki því að hún vill umræðuna frá sjónum alþjóðar í kaffispall fjögurra einstaklinga. Ég seigi að það sé vegna þess að hún gerir sér grein fyrir því að hún mun líta illa út þegar hún fer að verja mál sitt.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 30/10/09 19:58 #

Arnold, það sem ég á við er að umræðan er varla byrjuð. Ég myndi frekar segja að þetta sé ótti við það að verða króaður út í horn.

Breytir ekki því að hún vill umræðuna frá sjónum alþjóðar í kaffispall fjögurra einstaklinga. Ég seigi að það sé vegna þess að hún gerir sér grein fyrir því að hún mun líta illa út þegar hún fer að verja mál sitt.

Algjörlega sammála.

Brynjar - 30/10/09 21:52 #

Ég veit ekki hvort þið hafið heyrt umfjöllun um nýja skáldsögu Jose Saramago í Víðsjá í vikunni, en þar þóttu mér koma fram ansi skemmtilegar skoðanir hans um guð, ég sperrti a.m.k. eyrun og hef verið að hugsa um þær síðan.

Svo ég reyni að vitna í Víðsjá, sem vitnuðu í viðtal við skáldið, þá sagði hann m.a. eftirfarandi:

"guð, djöfullinn, hið góða, hið illa - allt þetta er í höfðinu á okkur, ekki á himnum eða í helvíti, sem eru líka uppfinningar okkar. Um leið og mennirnir sköpuðu guð gerðust þeir þrælar hans - biflían er handbók í vondu siðgæði."

Áhugasamir geta hlustað á alla umfjöllunina hér: http://dagskra.ruv.is/ras1/4508111/2009/10/20/1

Ég hef síðan aðeins verið að fletta þessu upp á netinu og þetta viðtal við kallinn er að valda miklum usla innan kirkjunnar i Portúgal og víðar.

P.s. þetta kemur færslunni að ofan ekkert við, afsakaðu það! Mig langaði bara að koma þessu á framfæri við trúleysissystkin mín.. :)

Matti - 31/10/09 00:32 #

Takk fyrir það, þetta virðist áhugavert. Ég hlusta á þetta á morgun.