Örvitinn

"Pönk" trúleysingjanna

Séra Bjarni Karlsson skrifar athugasemd á trú.is og útskýrir af hverju Hildur Eir (mágkona Bjarna) vill ekki eiga í samræðum við trúleysingja á netinu.

Ég held að gallinn við þau samskipti sem þið biðjið um hér sé sá að ef orð ykkar eru skoðuð bókstaflega þá eruð þið bara að spyrja áhugaverðra spurninga og viljið fá heiðarleg svör. En flest fólk skynjar hins vegar að andinn í því sem þið eruð að segja er pönk. Þið eruð að pönkast í prestunum og það er út af fyrir sig drep fyndið að gera það einmitt inni á trúmálavef Þjóðkirkjunnar. #

Þannig að þó spurningar séu áhugaverðar og við viljum fá heiðarleg svör, þá sér trúfólk hverjir það eru sem spyrja og "veit" að við erum að "pönkast". Eru þetta ekki þokkalegir fordómar hjá presti?

Hvað er "drepfyndið" við að spyrja spurninga á trúmálavef Þjóðkirkjunnar þegar greinin sem verið er að ræða er þar? Við höfum spurt spurninga víða, t.d. hér á mínu bloggi og á Vantrú. Það skiptir ekki máli hvar við spyrjum, við fáum engin svör.

Ég var annars búinn að gefa mér það sem Bjarni segir þarna en það er ágætt að fá staðfestingu.

Getur verið að prestar ríkiskirkjunnar líti á öll andsvör sem útúrsnúninga? A.m.k. öll andsvör frá vissum hópi.

Er það möguleg skýring á málefnafátæktinni? #

Einnig hér:

Síðustu ár hef ég oft fengið á tilfinninguna að þetta sé viðhorf presta. Gagnrýni trúleysingja, sérstaklega okkar í Vantrú, er bara útúrsnúningar og stælar. Þannig geta þeir afgreitt okkur og sleppt því að svara. Losna við að ræða við okkur á jafnréttisgrundvelli þar sem trúarrök eru tekin af borðinu. #

Það sem Bjarni kallar pönk er einfaldlega sú staðreynd að við sættum okkur ekki við svarið "Gvuð gerði það" eða "vegir Gvuðs eru órannsakanlegir". Við viljum að forsendur umræðunnar séu heiðarlegar.

kristni
Athugasemdir

Haukur - 03/11/09 10:17 #

Ég hef nú svolitla samúð með þessu viðhorfi prestanna. Ég hef sjálfur a.m.k. tvisvar staðið í flame-war samskiptum við fólk á netinu, síðan hitt það augliti til auglitis og átt eftir það miklu uppbyggilegra netsamband við það.

Matti - 03/11/09 10:20 #

Ágætur punktur.

"Við" höfum reyndar hitt marga af þessum prestum. Það hefur litlu breytt :-)

Helgi Briem - 03/11/09 11:07 #

Fyrirlestur Dennetts skýrir þetta ansi vel.

Margir, sennilega fjölmargir, prestar eru alveg trúlausir eins og Bjarni. En það er mjög, mjög erfitt að viðurkenna það.

Þeir vita alveg eins vel og við að mörg þúsund ára gamlar þjóðsögur hirðingjaþjóða hafa lítið sem ekkert að segja nútímafólki um siðferði og góða hegðun en þeir eiga lífsviðurværi sitt og virðingarstöðu undir því að viðhalda blekkingarleiknum og sýndarmennskunni.

Þess vegna eru þeir enn í skápnum og tuða einhverja loðmullu um kærleik og vinarþel (eins og trúleysingjar eigi ekki jafnmikið af þessu) og að skoða lífið í ljósi krists.

Það væri hressandi ef einhver prestur stæði upp opinberlega og segði "guð er ekki til". Ég er viss um að þeir eru margir þeirrar skoðunar undir niðri þó þeir segi "guð er kærleikur" eða "guð er alheimurinn" eða eitthvað slíkt.

Haukur - 03/11/09 12:44 #

Ég skildi þennan fyrirlestur Dennetts ekki alveg. Fyrst skildist mér að hann væri að tala um guðlausa presta - en svo kom í ljós að honum fundust þessir prestar sem hann var að tala um vera bjánar ("not very good thinkers") sem segðu bjánalega hluti ("god is no being at all") sem þeir áttuðu sig ekki á að jafngiltu guðleysi.

Jón Yngvi - 03/11/09 12:50 #

Er þetta ekki óþarfa viðkvæmni? Hvað er að pönki? Ég veit amk að séra Bjarni kann að meta gott pönk. Eina skiptið sem ég hef stigið fæti inn í Laugarneskirkju þau 18 ár sem ég hef búið í hverfinu var í fertugsafmæli kunningja míns sem haldið var undir yfirskriftinn "pönk og predikanir". Þar spilaði afmælisbarnið og sóknarnefndarmaðurinn ásamt pönkhljómsveitinni Trúboðunum og séra Bjarni predikaði. Það var gott pönk. Allra magnaðast var þó þegar organistinn blastaði Anarchy in the UK á kirkjuorgelið. Ég held ég hafi aldrei skemmt mér jafnvel í kirkju. Meira pönk!

Magnús - 03/11/09 13:01 #

Öllu heldur: Meira pönk, meira helvíti!

Matti - 03/11/09 13:52 #

Hey, ég hef ekkert á móti pönki! Ef Bjarni væri að segja "þið eruð pönkarar og ég er til í að rökræða við ykkur" væri þetta ekkert vandamál en hann er að segja "þið eruð pönkarar og við höfum ekkert við ykkur að ræða" sem er það sem ég kvarta undan :-)

Hólmfríður Pétursdóttir - 03/11/09 15:32 #

Ég mæli með því að Helgi Briem og þið fleiri kynnið ykkur predikun og málflutning Bjarna Karlssonar.

Mér þykir hann ómaklega dæmdur. Það er varla til harðari dómur um prest, en að hann trúi ekki því sem hann boðar.

Enginn sem hefur heyrt eða lesið það sem Bjarni hefur sagt um trú sína og afleiðingar hennar í afstöðu til einstaklinga og þjóðmála getur efast um einlægni hans.

Hann velur aldrei einfaldasta kostinn hann Bjarni og ég virði hann mikils.

Matti - 03/11/09 19:46 #

Það er varla til harðari dómur um prest, en að hann trúi ekki því sem hann boðar.

Tja, boðar Bjarni eitthvað þennan kristna persónulega Gvuð? Ég þekki það ekki.

Held satt að segja að hann sé næstum því jafn trúlaus og ég.

Helgi Briem - 03/11/09 19:48 #

Dæmdur? Ég dæmi hann ekkert fyrir að trúa á gufuguð sem gerir ekkert.

Það er í fínu lagi út af fyrir sig og ég var svoleiðis áður en ég endanlega kastaði trúnni.

Kristinn - 03/11/09 23:32 #

Ég hef álit á Bjarna. Það á hann Bjarni sameiginlegt með ykkur Vantrúarmönnum að hann hefur barist fyrir breytingum innan Þjóðkirkjunnar og er hataður fyrir það.

Fólk sem situr það ekki fyrir sig að vera hatað í ljósi skoðanna sinna finnst manni virðingarvert. (Allaveganna ef skoðanirnar eru byggðar á því sem manni sjálfum finnst rétt)