Örvitinn

Aðskilnaðarstefna í skólum

Mæli með þessari grein eftir Falasteen Abu Libdeh, Felix Bergsson og Jóhann Björnsson sem sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Aðskilnaðarstefna í skólum

Á meðan við sem aðhyllumst fjölmenningarlegt samfélag erum að leitast við að samþætta alla hópa samfélagsins í eina heild þá er formaður mannréttindaráðs að leggja áherslu á aðskilnað barna eftir trúar- og lífsskoðunum. Aðskilnaður mismunandi hópa samfélagsins kann aldrei góðri lukku að stýra. Við eigum að sameina íbúana hvernig sem þeir eru og skólarnir eiga að fara þar fremstir í flokki. Það er vafasamt þegar skólar kjósa að haga starfsemi sinni með þeim hætti að aðstæður skapist þar sem börn eru tekin út úr hópum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra. Með því að bjóða upp á "hefðbundið kirkjustarf skólabarna" í skólum er verið að þvinga börn og foreldra þeirra til að velja á milli þess að standa við sína lífsskoðun annars vegar eða falla inn í hópinn hins vegar. Fjölmörg dæmi eru um það að foreldrar eða börn ákveði að taka þátt í trúarstarfi í þeim eina tilgangi að vera ekki stimpluð öðruvísi.

Ég skrifaði á sínum tíma grein um að leikskólatrúboð væri ekkert val þar sem ég benti einmitt á að þetta er enginn valkostur fyrir foreldra.

kristni vísanir
Athugasemdir

Helgi Þór - 15/12/09 10:14 #

Mjög mikið til í þessu og augljóst að skólastarfið er afar mótsagnakennt. Segjast vilja samþætta alla hópa samfélagsins en mismuna svo fólki á grundvelli trúar.

Matti - 15/12/09 10:24 #

Þess má geta að dætur mínar fóru í kirkju með skólanum í morgun. Ekki var boðið upp á neina valkosti.

Ég fæ skýrslu frá stelpunum í kvöld.

Arnar - 15/12/09 10:41 #

Bæði börnin mín, annað í grunnskóla og hitt í leikskóla hafa verið að fara í kirkjur á síðustu vikum.

Alltaf frétti ég af því eftir á.

Helgi Þór - 15/12/09 10:43 #

Þetta er með ólíkindum. Hvernig er hægt að færa rök fyrir því að þetta sé ekki trúboð?

Svo þegar maður er að rökræða við fólk þá segir það gjarnan að það hafi aldrei heyrt að prestar komi í grunnskólana og ræði við börnin. Hvað þá að það sé verið að fara í skipulagðar heimsóknir í kirkjurnar.

Einar K. - 15/12/09 11:12 #

"Þess má geta að dætur mínar fóru í kirkju með skólanum í morgun. Ekki var boðið upp á neina valkosti.

Ég fæ skýrslu frá stelpunum í kvöld."

Yngri dóttir mín átti líka að fara í svona 'vettvangsverð' í morgun. Það er greinilega allt gefið í botn fyrir þessi jólin hjá Ríkiskirkjunni. Ég minnist þess ekki að þetta hafi verið gert hér í Firðinum í fyrra.

Teitur Atlason - 15/12/09 11:14 #

Í bréfinu segir:

Nýverið sá formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkur ástæðu til að senda leiðréttingarbréf til stjórnenda leik- og grunnskóla þar sem lögð er áhersla á að skólastarf í borginni skuli vera með þeim hætti að börnin skuli aðgreind eftir trúar- eða lífsskoðunum. Í bréfi sínu segir formaðurinn m.a.:

„Ætlunin var alls ekki að gera athugasemdir við hefðbundið kirkjustarf skólabarna heldur að benda á mikilvægi þess að þeim sem hafa aðrar lífs-eða trúarskoðanir standi annað til boða á meðan á kirkjustarfinu stendur."

Mannréttindaráð Reykjavíkur er sem sagt að segja að mismunun vegna trúarskoðana sé auðvitað slæm en hún eigi ekki við þegar um Þjóðkirkjuna er að ræða.

Tinna G. Gígja - 15/12/09 12:04 #

"skuli vera með þeim hætti að börnin skuli aðgreind eftir trúar- eða lífsskoðunum"

Voðalega hljómar þetta illa...

Matti - 15/12/09 14:44 #

Takk Eyja. Ég uppfærði hlekkinn í færslunni.

Nonni - 15/12/09 19:20 #

Ég er gjörsamlega sammála þessu, en mér finnast rökin svolítið hæpin, og þá sérstaklega

er verið að þvinga börn og foreldra þeirra til að velja á milli þess að standa við sína lífsskoðun annars vegar eða falla inn í hópinn hins vegar.

Svo við förum með þetta alveg út á kant, er það þá mismunun þegar bekk er kennt um þróunarkenninguna, og eitthvert barnið kemur frá sértrúarsöfnuði sem gúterar ekki þróunarkenninguna?

Ég er að reyna að sjá að það sé einhver eðlismunur hér á, og tekst það barasta ekki.

Matti - 15/12/09 20:26 #

Tja, spurningin er hvort við gerum greinarmun á lífsskoðunum, t.d. trú og stjórnmálum og vísindum og fræðum.

Ég held að enginn sé að segja að skoðanir foreldra eigi að stjórna kennslu í skólum enda fjallar þessi tiltekna grein ekki um kennslu.

Ingibjörg Stefáns - 16/12/09 11:33 #

Teitur, þú segir: ,,Mannréttindaráð Reykjavíkur er sem sagt að segja að mismunun vegna trúarskoðana sé auðvitað slæm en hún eigi ekki við þegar um Þjóðkirkjuna er að ræða"

Mannréttindaráð Reykjavíkur hefur ekkert sagt um þetta, heldur hefur formaður ráðsins gert það. Án samráðs. Væntanlega verður skipt um formann eftir kosningar í vor.

Formaður Mannréttindaráðs sendi út bréf þessa efnis án samráðs við ráðið. Þessu mótmæla þau Falasteen, Felix og Jóhann sem sitja í minnihlutinn í Mannréttindaráði m.a. með því að senda títtnefnda grein í blöðin en ég er varamaður fyrir Felix og Falasteen og hef því fylgst með þessu mál.

Matti - 16/12/09 11:41 #

Takk fyrir Ingibjörg, þetta er afskaplega áhugaverður flötur á málinu.

Jón Yngvi - 16/12/09 12:09 #

Formaður Mannréttindaráðs heitir Marta Guðjónsdóttir. Hringir það ekki einhverjum bjöllum?

Freyr - 16/12/09 12:48 #

Ég er svo heppinn að hafa börn í skóla þar sem þeim er boðið upp á að fara í sögustund hjá skólastjóranum í stað þess að fara í kirkju. Sögustundin er auglýst með tölvupósti til allra foreldra. Ég setti börnin mín í þessa sögustund í fyrra, en í ár ákvað ég að leyfa þeim sjálf að ráða.

Þetta fór nokkurn veginn svona: Ég: Hvort viljið þið fara í kirkjuna með hinum krökkunum eða vera í sögustund hjá skólastjóranum eins og í fyrra? Strákurinn: Sögustund Stelpan: Kirkjan Ég: Ok Smá þögn. Stelpan: Hvað verður gert í kirkjunni? Ég: Það mun einhver prestur tala um jólin og Jesú. Stelpan: Ooooooh. Þá vil ég frekar fara í sögustund.

Jón Yngvi - 16/12/09 13:59 #

Hvaða skóli er þetta Freyr?

Steindór J. Erlingsson - 16/12/09 15:41 #

Ég hvet alla til þess að lesa athugasemd Árna Sveins við bloggfærsluna Aðskiljum skóla og kirkju hjá Óla Jóni. Þar segir Árni m.a.:

Ég kvartaði undan þessu við skólann. Skólastjórnendur tóku langan tíma í að svara þessu, og svöruðu þessu með skætingi þegar þeir loksins gerðu það. Stuttu seinna ræðst skólastjóri skólans á drenginn minn, sparkar undir borð sem hann situr við svo hann fær borðið framan í sig og fær blóðnasir.

Af þessu tilefni sendi ég þessa athugasemd frá mér á sama bloggi:

Frásögn Árna Sveins er sláandi. Ég hef sjálfur þurft að standa í þessu stappi. Nýlega sendi ég stjórnendum skólans sem börnin mín sækja póst þar sem ég mótmælti kirkjuheimsóknum. Þar sagði ég m.a.

Ég er ekki hrifinn af því að dóttir mín taki þátt í trúariðkun safnaðar sem grundvallar trú sína m.a. á heimsendatrú:

"Nýlega las sr. Bolli P. Bollason yfir söfnuði sínum: 'Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn'. Bolli lét þessi orð falla í prédikuninni 'Lausn yðar er í nánd', sem hýst er á tru.is, og bætti svo við að þá verður 'ekki einvörðungu um að ræða friðsama birtingu jólabarnsins'"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/heimsendir.html

Ég kæri mig heldur ekki um að dóttir mín umgangist fulltrúa safnaðar sem segja:

"trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/biskup.html

"Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/sidur.html

"Málið er ekki 'bara' að elska Guð eða 'bara' náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/sjalfhverfur.html

"Hættan sem stafar af því að afneita Guði virðist samkvæmt sr. Birgi vera hnignun menningarinnar, en merki hennar 'kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð'"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/heimska.html

Ég kæri mig ekki um að dóttir mín umgangist einstaklinga sem halda því fram á opinberum vef þjóðkirkjunnar ég sé hættulegur samfélaginu; ég hafi ekki siðferðisvitund eða kærleika; að ég sé heimskur. Allar þessar vísanir eru úr messum Þjóðkirkjunnar og vísa slóðirnar í blaðagreinar þar sem ég hef brugðist við þeim.

Hér sjáum við dæmi þess að undir hinu "góða" kristna siðgæði kraumar fyrirlitning á þeim sem ekki eru sammála því sem stendur í Biblíunni. Af þessum sökum finnst talsmönnum kristni líklega ekkert tiltökumál að skilja börn þeirra sem ekki eru sammála þeim eftir "út í horni", eins og Árni Sveinn kemst að orði.

Freyr - 17/12/09 10:10 #

Jón Yngvi: Þetta er Salaskóli í Kópavogi.

kristjana - 17/12/09 13:22 #

Ég fagna þessari umræðu. Stend utan trúfélaga og sé enn eftir að hafa ekki gert meiri athugasemdir við skólann meðan mín börn voru í grunnskóla. Taldi ekki rétt barnanna vegna að vera með uppsteyt.

Þegar dóttir mín var í 9. bekk sá hún sjálf um uppreisnina og gerði það vel. Gekk svo langt að hún fékk viðtal við umboðsmann barna, án minnar vitundar.

Nú segir hún mér (17 ára) að sér hafi alla tíð þótt erfitt að taka þátt í kirkjulegu starfi og bænastundum innan skólans án þess að trúa, biðja bænir gegn sinni sannfæringu.

Mamma, afhverju gerðirðu ekki eitthvað? spyr hún.

Svona umræða herðir foreldra sem eru í vafa um hvernig bregðast eigi við ásókn kirkjunnar í skólabörn. Við þurfum að vita að við erum ekki ein um að finnast þetta óeðlilegt.

Jón Yngvi - 18/12/09 09:22 #

Ég sendi kurteislegt bréf á skólastjórann í skóla yngri dætra minna og benti henni á fyrirkomulagið í Salaskóla. Hvet aðra til að gera slíkt hið sama.