Örvitinn

Skólamál séra Þórhalls

Þórhallur HeimissonSéra Þórhallur Heimisson skrifar ótrúlegan pistil á trú.is, þetta er fínn vitnisburður um meintan heiðarleika séra Þórhalls. Ég trúi því varla að ég hafi verið að lesa þetta á heimasíðu ríkiskirkjunnar. Ætla að fara yfir nokkra punkta í greininni hér en af nógu er að taka.

Kirkja og skóli í sögu og samtíð

Nú skömmu fyrir jól hefur sprottið upp nokkur umræða í fjölmiðlum um skólaheimsóknir í kirkjur á aðventu. Ýmsir hafa í nafni fjölhyggjunnar svokölluðu kvartað sáran yfir því að íslensk börn skuli fara með skólum sínum í slíkar heimsóknir. Og í ljós hefur komið að þessir hinir sömu vilja sumir helst slíta algerlega á tengsl skóla og kirkju.

Hvaða umræða? Ein blaðagrein - það er allt. Hér er látið eins og mikil umræða hafi verið um þetta mál sem bendir til þess að greinin hafi verið skrifuð fyrirfram og gert hafi verið ráð fyrir látum. Þórhallur er ekki að bregðast við umræðu, hann er einfaldlega að ráðast á þá sem andmæla trúboði í skólastarfi.

Hér höfum við síðan og allt til þessa dags haft kristið siðgæði að leiðarljósi, kærleikann, umhyggjuna fyrir náunganum og Gullnu reglu Jesú sem hljóðar svo – allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.

Hvernig væri að hafa þessa reglu í huga þegar rætt er um tengsl skóla og kirkju? Fyrir utan að þessi regla er langt frá því að vera frumleg og á engan hátt einstök fyrir "kristið siðgæði".

Kristni hefur þannig viðgengist í landinu í meira en tíu aldir, og jafn lengi hafa landsmenn haldið heilög kristin jól. Öld eftir öld hefur kristin siðfræði og kristin boðskapur mótað okkur og fært okkur fram til góðs þó margt sé auðvitað enn að í mannheimum eins og gengur.

Eigum við eitthvað að rifja upp galdrabrennur, Drekkingarhyl og ýmislegt fleira í sögu kristindóms á Íslandi? Hið rétta er að "kristin siðfræði" hefur mótast af þeim framförum sem átt hafa sér stað, kirkjan hefur aldrei verið í fararbroddi, það hefur alltaf þurft að draga hana áfram. Rifjum t.d. upp umræður um hvort konur mættu vera prestar eða varðandi réttindi samkynhneigðra. Kirkjan er og hefur alltaf verið dragbítur á siðferðilegar framfarir hér sem annars staðar.

Ný kenning er sögð eiga að leysa af þann kristna grunn sem við byggjum okkar samfélag á. Sú kenning er kölluð fjölhyggja og segir að allt sé afstætt bæði í trú, samfélagsháttum og siðfræði.

Ha! Þetta er náttúrulega lygi.

En fjölhyggjan er í raun blekking og fjölhyggjusamfélagið í þessari afstæðu og trúlausu mynd er hvergi til. Trúfrelsi er tryggt á Vesturlöndum enda eru það ekki aðrir trúflokkar sem hamast gegn kristnum sið hér á landi eða kirkjuhimsóknum skóla á aðventu. Ég get nefnt sem dæmi að til mín í kirkjuna koma fyrir jól börn bæði búddista og múslíma, með fullu leyfi foreldra, og hafa gaman af. Enda kirkjan samofin menningu þjóðarinnar órjúfanlega.

"Með fullu leyfi foreldra"? Ekki var ég beðinn um nokkuð leyfi áður en farið var með mín börn í kirkju. Það er enginn valkostur, krökkum er einfaldlega hrúgað í kirkju þar sem prestar ljúga að þeim.

En undir gagnrýninni á tengsl skóla og kirkju rær illa dulin mannhyggja. Þeir sem lengst ganga þar á bæ vilja afmá öll tákn kristindóms í samfélaginu. Þeir vilja þjóðsöngin burt, enda lofsöngur til Guðs, fánann burt, enda er þar sterkasta tákn kristninnar á ferð og kristið siðgæði, Gullnu regluna, burt úr skólanum.

Þetta er lygi. Já, Þjóðsöngurinn er sálmur og út í hött að hafa hann sem sameiningarsöng - en hver hefur rætt um Þjóðsönginn síðasta ár eða svo? Enginn hefur farið fram á að skipt verði um fána og enginn hefur talað um að taka eigi "Gullnu regluna burt úr skólanum" enda er hún ekki einkaeign kristninnar.

En hér er Þórhallur að nota sömu taktík og notuð er á Fox sjónvarpsstöðinni, "þessir andskotar vilja taka boðorðin tíu úr skólum".

En við skulum gera okkur grein fyrir því að ef kristin gildi eru aflögð hlýtur eitthvað annað að koma þar í stað. Mannkynssagan kennir okkur það. Saga tuttugustu aldarinnar sýnir síðan hverjum sem vera vill hvílíkar hörmungar mennirnir hafa kallað yfir sig í þjóðfélögum sem hafna Guði en setja manninn á stall í hans stað.

Í alvöru talað, hvað finnst ykkur um þennan málflutning?

Slík kúgun fámenns minnihluta, ef af yrði, væri brot á réttindum allra hinna mörgu sem áfram vilja farsælt samstarf skóla og kirkju í landinu eins og verið hefur allt frá upphafi skólahalds hér á landi.

Allra hinna mörgu? Hvað hefur maðurinn á bak við það? 75% vilja aðskilnað ríkis og kirkju og Þórhallur talar um kúgun fámenns minnihluta.

Fámenni minnihlutinn er sá litli hluti þjóðarinnar sem enn berst hatrammalega fyrir því að ríki og kirkja verði áfram í einni sæng.

Eftir stendur að séra Þórhallur, sem þorði ekki að mæta mér aftur í útvarpi og laug (eruð þið farin að sjá trend?) til um ástæðu, er ekkert sérlega heiðarlegur náungi.

Þessum manni borgum við öll um sjö hundruð þúsund krónur á mánuði úr ríkissjóði fyrir að halda fram svona málflutning.

Það hefur einkennt varnarbaráttu ríkiskirkjunnar síðastliðin ár að þar hikar fólk ekki við að ljúga til að gera andstæðinga sína tortryggilega. Er þetta virkilega fólkið sem á að halda uppi siðgæði í landinu?

kristni
Athugasemdir

Reynir Harðarson - 16/12/09 10:49 #

Saga tuttugustu aldarinnar sýnir síðan hverjum sem vera vill hvílíkar hörmungar mennirnir hafa kallað yfir sig í þjóðfélögum sem hafna Guði en setja manninn á stall í hans stað.

Frekar vil ég 20. öld með öllum sínum mannréttindum en myrkar miðaldir, þegar kirkjan (ekki guð) fékk öllu ráðið. Þótt menn hafni óviðeigandi samkrulli kirkju og skóla eru þeir ekki að hafna guði, Þórhallur.

Teitur Atlason - 16/12/09 11:06 #

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með statusunum á Facebook varðandi Þjóðkirjuna. það logar allt í andstyggð á þessu kerfi. Einn presturinn er að flýja til Noregs (eins og hann sjalfur kallar það) vegna þess að Íslendingar eru svo siðlausir.

Þetta er ósköp venjulegt dæmi um hve fólk er reitt út í Þjóðkirkjuna. Tekið af Facebook.

Prestar í Þjóðkirkjunni eru flestir ömurlegir og eru á föstum launum hér til æviloka. Fær ekki kirkjan að minnsta kosti 5 milljarða í bullið. Gefa prestar eitthvað af föstum launum sínum til fátækra? Svo bulla þeir og bulla úr ræðustóli eitthvað sem þeir trúa ekki einu sinni sjálfir á. Líklega þurfa þeir ekki aðstoð hjá fjölskylduhjálpinni eða Mæðravernd. Sveiattan hræsnarar.

Matti - 16/12/09 11:08 #

Já og n.b. þetta eru ekki statusar hjá vantrúarsinnum - því sumir virðast halda að einungis meðlimir Vantrúar séu á móti ríkiskirkjunni.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 16/12/09 12:11 #

Ef þeir fá ekki að stunda trúboð á krökkum í kirkjuheimsóknum, þá endar það í alræði og fjöldamorðum. Honum tókst að sannfæra mig!

Davíð - 16/12/09 12:29 #

Þessi mynd er náttúrulega bara snilld, er hún photosjoppuð, eða er maðurinn bara einfaldlega bara svona heppinn með útlit?

Haukur - 16/12/09 15:27 #

Enginn hefur farið fram á að skipt verði um fána

Nei, en ef Þórhallur ætlar stöðugt að nudda okkur upp úr því að "krossfán[inn] sem blaktir enn yfir landinu" sé "sterkasta tákn kristninnar" þá fer mig nú að langa til að skipta um fána...

Var ég annars búinn að nefna það hvernig öll þessi Þórsnöfn sem eru svo ríkjandi í landinu eru sterkasta tákn heiðninnar? Augljóslega er í gangi víðtæk sátt í samfélaginu um að Þór sé sá guð sem Íslendingar hafa mest traust á enda mundi fólk ekki ganga um heitandi Þórhallur hægri vinstri að öðrum kosti.

Sigurlaug Hauksdóttir - 16/12/09 15:36 #

Nú er minni manns alls ekki fullkomið... en ég verð bara að segja það að ég man ekki eftir því að það hafi nokkurn tíma komið prestur í barnaskólann á Ísafirði (ekki einu sinni þegar að barn úr árgangi mínum lést), nú eða Gaggann nema þegar sr. Sigurður (faðir sr. Agnesar) kom og var með fermingarfræðslu. Sem þá var seinust á stundatöflunni, en ekki inn í miðri stundaskrá á fimmtudegi eins og dóttir mín lenti í fyrir tveim árum í Hrafnagilsskóla.

Þess vegna skil ég bara alls ekki hvað maður er að fara með: "..farsælt samstarf skóla og kirkju í landinu eins og verið hefur allt frá upphafi skólahalds hér á landi..".

Ég man ekki betur en að fyrir 35-40 árum þegar ég gékk í barnaskóla, að þá hafi litlu jólin aðallega gengið út á það að við skreyttum stofuna okkar, það var verulega stórt mál að fá að nota litakrítina á töfluna, og bestu teiknararnir fengu að spreyta sig þar. Einnig höfðum við fengið að föndra eitthvað jóló vikurnar á undan. Svo gengu litlu jólin út á að mæta með kerti og kertastjaka í skólann og svo las kennarinn okkar einhverja hugljúfa (raunar kristna) sögu fyrir okkur. Meira var það ekki..

En, nú er yngsta barnið mitt að ljúka grunnskóla í vor og ég verð bara að segja það að ágangur presta hefur síaukist í gegnum árin. Dóttir mín t.d. hefur ekki tekið þátt í litlu jólunum í Hrafnagilsskóla sl. ár vegna þess að þau eru nákv. svona (tekið úr síðasta föstudagspósti Hrafnagilsskóla):

  • Á föstudaginn eru litlu jólin í skólanum kl. 10:00. Farið verður í kirkju en eftir það munum við eiga notalega stund saman í stofunni okkar. -

Mér finnst orðið farið að ganga á með eilífum kirkjuferðum hjá yngri börnum í stórfjölskyldunni ekki bara grunnskóla heldur og líka leikskólum. Gæti kannski verið orðin eitthvað "sensitívari" gagnvart þessu með auknum þroska, en held samt ekki.

Matti - 16/12/09 15:38 #

Ég man þetta nákvæmlega eins og þú Sigurlaug, fyrir 25-30 árum voru litlu jólin haldin í grunnskólunum í Garðabæ en ég man ekki eftir kirkjuferðum.

Sigurlaug Hauksdóttir - 16/12/09 15:43 #

Og verð að bæta við að þessir altumfaðmandi "barna"prestar þekktust nú bara alls ekki. Í dag eru þeir allir orðnir svo "barnvænir" að það hálfa væri mikið meira en nóg!

Bjarki - 16/12/09 15:59 #

Ég tek undir með Sigurlaugu hvað varðar upplifun mína af grunnskólanum. Þegar ég var í grunnskóla á Akureyri '87-'98 var aldrei farið í kirkju á vegum skólans og ég man ekki eftir því að hafa nokkurntíman séð prest í skólabyggingunni. Það var kristinfræðikennsla en hún gekk út á utanbókarlærdóm á karakterum og sögum úr biblíunni og skildi ekkert eftir sig. Ég held að kennaranum hafi frekar leiðst að þurfa að standa í þessu. Þegar kom að fermingarfræðslu þá fór hún fram í safnaðarheimili kirkjunnar en ekki í skólanum.

Vegna þessarar reynslu ætlaði ég varla að trúa því þegar ég fór síðar að heyra sögur af ágengu kristniboði í leik- og grunnskólum. Þvílík öfugþróun!

Einar Jón - 16/12/09 18:01 #

Bjarki: hvar varst þú í skóla? Í Gagganum voru prestarnir úr Akureyrarkirkju (sr. Birgir og sr. Kölski) að skipta með sér kristinfræðikennslu í fermingarárgangnum í nokkur ár upp úr 1990.

Ég man ekkert úr þeim tímum nema að fyrstu orð Jesú við lærisveinana eftir meinta upprisu voru "friður sé með yður", og að kristnitökuárið var "voðalega lág tala, og þrjú núll á eftir (prófspurningar, og hjálp sem annar presturinn gaf í prófi)

Bjarki - 16/12/09 19:09 #

Ég var í Glerárskóla.

GH - 16/12/09 19:18 #

Þessi ásókn í börn er mjög ógeðfelld og þjóðkirkjunni mjög til vansa. Börn eru svo opin og hægt að telja þeim trú um hvað sem er.

Tinna G. Gígja - 16/12/09 20:45 #

Ég man eftir kirkjuferðum fyrir hver jól, þó ég hafi reyndar oftast sleppt þeim, ýmist með leyfi eða án...

Hildur - 16/12/09 22:34 #

Þessar hártoganir um meirihluta vs minnihluta eru að mínu viti óþarfar. Það getur verið að Þórhallur sé í raun að meina að meirihluti foreldra samþykki trúboð í skólum (td með þögninni) og að það sé minnihluti sem setji sig upp á móti því. Sennilega er það alveg rétt.

Hins vegar er það engin réttlæting í sjálfu sér. Mannréttindi snúast einmitt ekki síst um að tryggja réttindi minnihlutahópa og einmitt af því að um minnihlutahópa er að ræða hefur oft gengið treglega fyrir þá að fá fram réttarbætur, jafnt á Vesturlöndum sem annars staða. Meirihlutinn samþykkir núverandi ástand af því að hann hagnast á því sjálfur og skilur ekki af hverju minnihlutinn getur ekki bara gert slíkt hið sama. Af sömu ástæðu er algjörlega beint lýðræði í raun útilokað í nútímalýðræðisríkjum. Meirihlutinn á ekki alltaf að geta traðkað á minnilhlutanum.

Matti - 16/12/09 22:48 #

Góður punktur.

Teitur Atlason - 17/12/09 07:24 #

Þjóðkirkjan er ekkert að fara að bakka út úr grunnskólunum eða leikskólunum.

Þetta er síðasta vígið ef svo má að orði komast. Þau munu ekki fara sjálfviljug svo mikið er víst.

Eina sem hægt er að gera er að kvarta til skólastjornar, til skólaþjónustunnar og kæra til persónuverndar.

Þetta vinnst ekki nema með hefðbundum leiðum lýðræðissamfélagsins.