Örvitinn

Fjölmiðlar og viðmælendur

Eiga fjölmiðlar að geta falið sig bak við viðmælendur?

Hver er munurinn á því að dagblað birti fréttirnar:

Hverju munar fyrir Jón? Er ekki vegið gróflega að æru hans í báðum tilvikum?

Blaðamenn hljóta að hafa einhverja skyldu til að afla frekari gagna til að staðfesta hvort Siggi sýra hefur rétt fyrir sér varðandi það að Jón sé hóra. Ef þeir hafa eitthvað meira en frásögn eins einstaklings geta þeir væntanlega flutt fréttir af hórdómi Jóns daginn út og inn.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Arngrímur - 22/12/09 17:32 #

Ég er ósammála. Eiga fjölmiðlar þá að þagga fórnarlömb mansals til dæmis? Þessir ærumeiðingadómar gegn fjölmiðlafólki fyrir ummæli viðmælenda eru réttarkerfinu til háborinnar skammar.

Matti - 22/12/09 19:39 #

Nei, þeir eiga að mínu mati að vinna vinnuna sína og afla sannana gegn þeim sem ásakaðir eru. Vissulega er þetta töluvert erfiðaðra, en samt sér maður þetta stundum gert erlendis.

Hildur - 22/12/09 23:04 #

Tek undir með Arngrími. Ekki að það borgi sig ekki að reyna að fá staðfestingu víðar, en í mörgum málum, td kynferðisbrotamálum og mansali, er slíkt ekki hægt. Fáránlegt að fréttafólk á að axla ábyrgð á ummælum viðmælenda.

Arngrímur - 22/12/09 23:07 #

Það er ekki alltaf hægt að afla sannana, meiraðsegja lögreglan á víða í erfiðleikum með að sanna það sem þó er vitað. Sérstaklega þegar kemur að starfsemi mafía og öðru tengdu, t.d. mansali. Ef við förum eftir þinni kröfu verða aldrei framar sagðar fréttir af skipulagðri glæpastarfsemi nema takist að afhjúpa hana, en það eru einmitt fjölmiðlar sem oft afhjúpa slíka starfsemi.

Og hvar á svo að draga mörkin? Ef fótboltaþjálfari segir andstæðinga sína hafa verið illa undirbúna fyrir mikilvægan leik á þá að leggjast í rannsókn á því eða sleppa því að birta ummælin? Getum við þá ekki allteins bannað aðsendar greinar?

Ef viðmælandi segir blaðamanni eitthvað þá finnst mér að blaðamaður eigi að birta það ef hann telur það eiga erindi - án þess að eiga á hættu að vera ákærður fyrir að hafa það eftir. Það er á ábyrgð viðmælandans hvað hann segir. Sé sýnt að ummælin standist ekki skal ritstjórn koma á framfæri leiðréttingu.

Matti - 22/12/09 23:17 #

Ef við förum eftir þinni kröfu verða aldrei framar sagðar fréttir af skipulagðri glæpastarfsemi nema takist að afhjúpa hana, en það eru einmitt fjölmiðlar sem oft afhjúpa slíka starfsemi.

Ertu ekki lentur í einhverri flækju þarna? :-) Fjölmiðlar eigi einmitt að afhjúpa með því að skoða málin betur, afla meiri gagna.

Ef viðmælandi segir blaðamanni eitthvað þá finnst mér að blaðamaður eigi að birta það ef hann telur það eiga erindi - án þess að eiga á hættu að vera ákærður fyrir að hafa það eftir.

Ég get snúið þessu við. Hvar eigum við að draga mörkin? Hvað mega viðmælendur blaðamanna ganga langt í ásökunum gegn einstaklingum? Mannorð manna er hægt að skemma í fjölmiðlum og því finnst mér ástæða til þess að fjölmiðlar vandi sig áður en þeir ráðast á fólk - jafnvel þó þeir séu "bara að vitna í viðmælendur".

Ég kannast við manninn sem þessi Hæstaréttardómur fjallar um. Finnst þér þetta eðlileg meðferð hjá fjölmiðli? Ég meina, þeir vitna í viðmælanda. Er það þá nóg, eru þeir þá stikkfrí og í fullum rétti til að reyna að eyðileggja mannorð hans?

Þessi mál fjalla ekki alltaf um skíthæla sem reka nektardansstaði, stundum fjalla þau um venjulegt fólk sem á ekki skilið að lenda í fjölmiðlum.

Arngrímur - 22/12/09 23:43 #

Varðandi fyrra atriðið þá var punkturinn minn sá að fjölmiðlar hafa fá tæki til að afhjúpa það sem lögreglan getur ekki afhjúpað á eigin spýtur - nema á grundvelli þessa frelsis sem þú treystir þeim ekki til að fara með.

Hvað seinni punktinn varðar þá er allt vald vandmeðfarið og auðvitað eru náungar sem geta farið með þvætting í fjölmiðla. En mér þykir verra ef það á að hengja blaðamenn fyrir þá skíthæla. Það eru stærri hagsmunir í húfi.

Og þetta dæmi, þó það sýni glögglega hversu vandmeðfarið þetta vald er, er ekki að öllu sambærilegt við það sem ég á við. DV undir stjórn Mikaels Torfasonar og Jónasar Kristjánssonar birti ítrekaðar forsíðufréttir undir fyrirsögnum á borð við „Einhentur pedófíll skekur Ísafjörð“. Ég er að tala um mjög alvarlegri og víðtækari mál sem fjölmiðlar eiga ekki séns á að afhjúpa. Ekki tekst lögreglunni það, sem er einmitt vandamálið, því gagnvart lögum er munurinn auðvitað enginn. Það eru einmitt lögin sem hindra það að réttlæti nái fram að ganga í þeim málum sem mér þykja mestu máli skipta - mansalsmálum.

Það veit hver einasti maður sem vita vill hvað fer fram bakvið tjöldin á þessum andskotans Strawberry's og mér finnast talsvert meiri hagsmunir þar í húfi þótt tveir ritstjórar forðum hafi vísvitandi ástundað mannorðsmorð og atvinnuróg. Hér er dæmt fyrir það að ekki hafi þótt sannað að einhver dyravörður hafi gefið upp vinnuveitanda sinn sem litáísku mafíuna. En þótti sannað að hann hefði ekki gert það? Auðvitað ekki. Hér er orð gegn orði og ólíku saman að jafna.

Þorsteinn - 22/12/09 23:52 #

En afhverju ekki að höfða mál gegn viðmælandanum? Ef um nafnleynd er að ræða þarf reyndar að skoða frekar ábyrgð fjölmiðla.

p.s. linkurinn þinn virkar ekki Matti.

Matti - 22/12/09 23:55 #

Linkurinn virkar, það er heimasíða Hæstaréttar sem virkar ekki! Þ.e.a.s. það er ekki hægt að komast á hana nema slá inn einhvern kóða fyrst. Fáránlegt dæmi.

Ætli málið sé ekki að einstaklingur sem blaðrar um þig veldur þér eflaust litlum skaða, fjölmiðill sem slær blaðrinu upp á forsíðu veldur þér hugsanlega stórskaða.

Ég er ekki að fara fram á að fjölmiðlar sanni allt sem þeir fjalla um 100%, einungis að þeir afli sér frekari heimilda. Það þarf ekki alltaf að vera mjög erfitt.

Halli - 23/12/09 00:53 #

Þetta er svolítið svart/hvítt umræða.

Auðvitað eiga þeir að geta birt það sem viðmælendur segja upp að einhverju frekar háu marki, sá sem mælir á f.o.f. að taka afleiðingunum ef um meiðandi ummæli er að ræða.

Hvort fjölmiðlamenn eigi að reyna að fá ummæli staðfest (leita fleiri gagna) áður en þeir birta er annað mál. Það má eflaust finna mælikvarða á hvenær nægt tilefni er til þess.

Ábyrgð fjölmiðla er einhver en hún er ekki algjör. Þetta er ekki spurning um að þeir annað hvort geti falið sig í öllum tilvikum bakvið viðmælendur eða verið alltaf ábyrgir fyrir því sem viðmælendur segja.