Örvitinn

Domo

sushi á domoÍ tilefni tíu ára afmælis Kollu fórum við út að borða í gærkvöldi. Kolla vildi sushi, er óskaplega hrifin af því eins og eldri systir hennar. Við hin erum ekki jafn spennt, sérstaklega ekki yngsti fjölskyldumeðlimurinn. Við leituðum því að veitingastað sem býður upp á sushi og eittthvað annað. Ég rambaði inn á Veitingastaðir.is og fann nokkra. Leitaði svo ráða á Facebook og endaði með því að velja Domo.

Þegar við mættum spurði sá er tók á móti okkur hvort við hefðum séð auglýsingarnar, staðurinn var semsagt að auglýsa í gær. Þetta fór alveg framhjá mér en svo blasti heilsíðuauglýsing við í Fréttablaðinu í morgun.

Við pöntuðum okkur Hrossacarpaccio með ferskum kryddjurtum og balsamic gljáa (1350.-) í forrétt, deildum tveimur skömmtum. Það er skemmst frá því að segja að þetta er besta carpaccio sem ég hef fengið, alveg ótrúlega gott. Allir voru sammála um það.

Kolla á DomoÁróra og Kolla fengu svo sushi og sashimi sem þær kunnu vel að meta, pöntuðum einn stóran skammt (22 bita, 3190.-) handa þeim og það var alveg passlegt. Inga María pantaði Tígrisrækjur með tagliatelli pasta kryddað með hvítlauk og rósmarín (2400.-) en rækjurnar voru ekki til þannig að hún fékk humar í staðin. Ég sé á kvittun að við borguðum 2400.- fyrir þennan rétt en á matseðli á netinu stendur að hann kosti 1900.- Inga María var ánægð með humarinn og borðaði þokkalega af pastanu en ég held að einfaldari réttur hefði hentað henni.

Ég og Gyða fengum okkur bæði Appelsínuönd með rótargrænmeti og kartöflubátum (3500.-). Þann rétt hef ég ekki smakkað í áratug og stóðst ekki freistinguna. Þetta var ógeðslega gott.

Við fengum okkur svo öll desert, yngri stelpurnar ís, þær eldri créme brulée og ég fékk mér súkkulaði mousse. Eftirréttir vöktu enga sérstaka lukku hjá stelpunum en minn var góður.

Þegar allt er talið saman kostaði afmæliskvöldverðurinn fyrir okkur fimm 23.060,- með gosi og hvítvínsglasi (990.-). Það kostar sitt að fara með fjölskylduna út að borða á fínan veitingastað. Ég mæli með Domo, sérstaklega carpaccio og öndinni. Afmælisbarnið og unglingurinn mæla með sushiinu og ákveðið var að kíkja aftur síðar.

veitingahús
Athugasemdir

Einar Örn - 07/01/10 10:35 #

Jamm, ég hef farið nokkrum sinnum á Domo og aldrei orðið fyrir vonbrigðum.

Haukur - 07/01/10 11:52 #

Þegar ég var lítill var uppáhaldsmatur barna pylsa. Einhvern tíma á táningsárum mínum breyttist hann í pítsu. En mér verður um og ó við þessar sushi-fréttir! Ég reyndi einu sinni að borða þetta og eftir það verður mér alltaf pínulítið flökurt þegar ég sé einhvern annan gera það. Nú verð ég bara að vona að mín börn taki ekki upp á þessu.

Sindri Guðjónsson - 07/01/10 14:27 #

Ég verð oft svangur við það að líta á bloggið þitt.

Matti - 07/01/10 14:53 #

Gott ;-)

Haukur, Kolla (afmælisbarnið) er mikill sælkeri. Eflaust vill hún líka ganga í augun á stóru systur sinni sem er mikið fyrir sushi.