Örvitinn

Eldhrímnir í hádeginu

Kíkti á Eldhrímni ásamt vinnufélögum í hádeginu á fimmtudag. Byrjaði heimsóknina á því að reyna að bakka yfir eigandann í bílakjallaranum en mistókst það, var nýbúinn að stæra mig af því hvað ég væri klár að bakka í stæði. Eldhrímnir er við turninn í Höfðatorgi og þar er nóg af bílastæðum.

Rauðsprettan var búin þegar við mættum tuttugu mínútur í tólf. Flestir fengu sér Borgara bogamannsins en ég pantaði Persneskan hrísgrjónarétt með nautakjöti.

Við biðum frekar lengi eftir matnum, hugsanlega vegna þess við við vorum tíu í hópnum. Þegar maturinn barst á borð reyndust ekki til kartöflur handa öllum sem höfðu pantað borgarann. Eigandinn kom og bauð mönnum upp á gos. Þegar flestir voru búnir að borða kom hann svo með kartöflur. Hrísgrjónarétturinn leit ágætlega út og bragðaðist þokkalega. Það verður samt að segjast að ekki var bruðlað með nautakjötið, satt að segja var ótrúlega lítið af því í réttinum. Borgarinn vakti ekki sérstaka lukku hjá þeim sem hann fengu, buffið var ekkert spennandi en sósan nokkuð góð.

Verðlag á Eldhrímni er hóflegt. Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum í þessari heimsókn eftir að hafa lesið lof um staðinn á bloggsíðum.

veitingahús
Athugasemdir

hildigunnur - 20/01/10 09:55 #

Naanbrauðið hjá þeim er fínt og ódýrt - ég hef svipaða sögu að segja af hádegismat, við hjónin kíktum þangað um daginn, fengum einmitt þennan frekar þurra nautakjötsrétt og naanbrauðin komu allt of seint (fengum þau ókeypis fyrir vikið). Erum búin að skjótast þangað tvisvar eftir þetta til að kaupa naan, munar helmingi á verðinu þar og á Austurlandahraðlestinni.

Matti - 20/01/10 10:48 #

Ég fattaði einmitt þegar ég var kominn með matinn að ég gleymdi að panta naan.