Örvitinn

2007 var ekki eðlilegt

Í umræðu um Icesave, kreppu og ástandið á Íslandi gleymist stundum að setja stöðuna í samhengi. Ástandið á Íslandi árið 2007 var ekki normið, það var óeðlilegt. Við höfðum það í raun of gott. Hér var flutt inn of mikið af dóti, við eyddum of miklu í of dýra bíla svo dæmi sé tekið og vorum of rík þegar við ferðuðumst til útlanda. Keyptum fínasta innbú, fínustu tæki, flottasta dótið. Tókum þetta jafnvel að láni því það var svo auðvelt.

Froskalæri í ParísMillistéttarmaðurinn ég, einhver forritaradrusla úti í bæ, var staddur í miðborg Parísar sumarið 2007, í þriðja hverfi til að vera nákvæmur. Fjölskyldan var þar í lítilli íbúð í viku, rétt við Republique torgið. Þar röltum við út í næstu kjörbúð og hlógum næstum því að verðlaginu. Ég keypti bjór, léttvín, osta og Foie gras eins og það kostaði ekki neitt. Borgaði bílstjóranum sem ók okkur til og frá flugvelli hundrað evrur og þótti lítið, reikningurinn var bara 80. Fórum á fáránlega fínan veitingastað í hádeginu til að Kolla fengi að smakka froskalæri, það kostaði dálítið mikið en samt ekki neitt!

Auðvitað leyfir maður sér ýmislegt í útlöndum og við tókum þetta ekki á krít heldur áttum fyrir þessu en það breytir því ekki að miðborg Parísar er dýrari en við upplifðum þá. Við vorum of rík.

Þetta var ekki eðlilegt þá og við getum ekki ætlast til þess að fá sömu lífsgæði fljótlega aftur. Mér heyrist nefnilega einhverjir vilja bakka aftur til ársins 2007 og halda áfram þar sem frá var horfið.

Annað mættu við hafa í huga þegar við ætlumst til þess að Bretar aumki sér yfir okkur. Ætli lífsgæði okkar séu ekki talsvert betri en þeirra?

kvabb pólitík
Athugasemdir

Eggert - 19/01/10 15:02 #

Bretar hafa það reyndar helvíti skítt núna, gengislega séð. Á meðan dollarinn fór úr 80 kr. í 120 kr., þ.e.a.s. 50% hækkun, fór pundið úr 160 kr. í 200 kr. Sem er ekki nema 25% hækkun. Fyrir hrun var hægt að fá 6 dollara fyrir 3 pund, nú fást ekki nema 5. Það er 16% gengisfall - sem Bretar finna vel fyrir á ferðalagi t.d. (nema til Íslands).

Sævar Helgi - 19/01/10 15:56 #

Árið 2007 var einmitt mjög óeðlilegt. Ég fór í þriggja mánaða ferðalag um Suður-Ameríku með kærustunni minni og við lifðum eins og kóngafólk. Á meðan ferðinni stóð keypti ég í gegnum netið síu í stjörnuskoðun sem kostaði þá 25.000 kr.

Samt kom ég efnaðari heim en þegar ég fór út.

Það er fínt að lífsgæðin færist aðeins til baka. Þetta var alltof mikið af hinu góða.

Jón Magnús - 19/01/10 16:03 #

Dísus! þið hljómið eins og einhverjir kommúnistar! ;)

Haukur - 19/01/10 17:08 #

Þegar gengi krónunnar var sem hæst var ég, eins og hálfviti, forritarablók á Englandi með kaup í pundum.

Erna Magnusdottir - 19/01/10 20:29 #

Já, maður fann það á fólki sem kom til USA árið 2007 að það fannst öllum allt svo ódýrt. Þegar ég flutti til NYC árið 2001 fannst mér allt alveg ógeðslega dýrt, enda gengið á dollara í 110 kr. Það bættust fáir við í íslenska stúdentahópinn fyrr en um 2004 þegar gengið var orðið hagstæðara, og svo allt í einu fór fólk að streyma í heimsókn og tala um djók verðlag...

Nú er ég hins vegar flutt til UK og fór í heimsókn til Íslands í haust. Ég fæ greitt í Evrum og þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði að koma á Klakann í átta ára fjarveru þar sem ég svitnaði ekki við að kaupa einföldustu hluti. Það var náttúrulega ekki eðlilegt að skyrdós kostaði $10.

Hins vegar væri í lagi ef krónan væri ekki annað hvort í ökkla eða eyra.

Hildur - 19/01/10 21:04 #

Ja en sko, gengið má alveg aftur fara til síns heima (til ársins 2007) þegar ég fer næst til útlanda...