Örvitinn

Þöggunarþjóðfélagið

Í umræðu um nýja tíma og heiðarlegt samfélag sýnist mér ansi mikil orka fara í að útiloka fólk frá umræðunni og þar með samfélaginu. Hinn eða þessi er ekki marktækur, það á ekki að hlusta á hann.

Við erum eiginlega hætt að ræða málefnin og einblínum þess í stað á persónurnar.

Þetta er áberandi í viðbrögðum við nær öllu sem Vilhjálmur Þorsteinsson skrifar. Í stað þess að andmæla honum, sem einhverjir gera málefnalega, virðist mest orka margra fara í að benda á hvað Vilhjálmur er skelfilegur maður, hann hefur jú verið í einhverjum viðskiptum sem Björgólfur Thor tengist og er fjárfestir (gvuð minn almáttugur á innsoginu). Skilaboðin eru einföld, Vilhjálmur á að halda kjafti, hann er bara einhver Samfylkingar-Björgólfs-auðvalds-spillingarmálpípa. Það skiptir ekki máli þó greinar hans séu vandaðar og málefnalegar.

Allir sem eitthvað tengdust bönkunum eru dæmdir úr leik, allir sem hafa tengst stjórnmálaflokkum eru dæmdir úr leik. Allir eru spilltir þó ekkert bendi til þess að þeir hafi nokkuð gert. Skilaboðin eru einföld, "hinir" eiga að þegja.

Mér hugnast þessi umræða ekki. Þetta er heimskulegt, þetta er skaðlegt og þetta er siðlaust.

Sérstaklega þegar ég lendi í henni líka.

pólitík
Athugasemdir

Jóhannes Laxdal - 27/01/10 17:12 #

Hefur það ekki hvarflað að þér að greinar Vilhjálms séu hvorki vandaðar né málefnalegar vegna þess að maðurinn er hlutdrægur? Maður hlýtur að skoða það sem hann lætur frá sér í ljósi þess að hann á mikilla hagsmuna að gæta sem stór fjárfestir og hann er líka með bein tengsl inní stjórnsýsluna sem ráðgjafi um fjárfestingar. Allt þetta gerir hann vanhæfan í mínum augum. Auðvitað getur maðurinn tjáð sig eins og hann vill en hann á ekki að koma fram sem hlutlaus álitsgjafi

Matti - 27/01/10 17:17 #

Hefur það ekki hvarflað að þér að greinar Vilhjálms séu hvorki vandaðar né málefnalegar vegna þess að maðurinn er hlutdrægur?

Svo ég vitni í sjálfan mig og feitletri í þetta skipti:

Í stað þess að andmæla honum, sem einhverjir gera málefnalega, virðist mest orka margra fara í að benda á hvað Vilhjálmur er skelfilegur maður

Ég hef engan séð hrekja greinar Vilhjálms en nóg hef ég séð af skítkasti og tal um vanhæfni eins og frá þér hér.

Þetta er akkúrat það sem ég var að tala um.

Það getur enginn komið fram sem hlutlaus álitsgjafi. Allir eiga einhverja fortíð, þekkja einhvern, eru tengdir einhverjum eða hafa einhverjar hugsjónir.

Ef við ætlum að bíða eftir að Jesús sjálfur mæti á svæðið er ég hræddur um að við munum bíða helvíti lengi.

Jóhannes Laxdal - 27/01/10 17:28 #

Ég var að benda á fjárhagslega hagsmuni Vilhjálms. Alls staðar eru þeir hagsmunir taldir vega þyngst þegar talað er um vanhæfi. Ég er ekki að tala um fortíð eða kunningjatengsl enda þekki ég ekki það vel til mannsins. Finnst þér ekkert athugavert að hann hafi verið ráðgjafi iðnaðarráðherra varðandi aðkomu ríkisins að gagnaveri verne holding, vitandi að Vilhjálmur er sjálfur stór hluthafi í Verne Holding og einnig hluthafi í Auði Capital sem hefur fjárfest í þessari "grænu" orku. Og ég frábið mér allar ásakanir um skítkast. Læt þér það eftir

Matti - 27/01/10 17:39 #

Þú ert að gera nákvæmlega það sem ég skrifaði um. Til hamingju með það :-)

Ég ætla ekkert að halda uppi vörnum fyrir Vilhjálm Þorsteinsson hér, þessi bloggfærsla fjallar ekki um hann þó ég hafi nefnt hann sem dæmi. Mér þætti þú aftur á móti meiri maður ef þú gagnrýndir málflutning Vilhjálms (og þá á síðunni hans, ekki minni) en ekki persónu.

Og ég frábið mér allar ásakanir um skítkast. Læt þér það eftir

Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona hrikalega sorglegt.

Nonni - 27/01/10 17:53 #

Nú skil ég ekki alveg. Vilhjálmur skrifar. Fullt af fólki er sammála honum, og annað er ekki sammála honum og skýrir hvers vegna (Vilhjálmur gefur sér vitlausar forsendur). Svo kemur einhver einn tuðari (Guðmundur 2.) og tuðar yfir hagsmunatengslum Vilhjálms, og þá finnst þér vera einhver þöggun í gangi?

Ég næ ekki alveg upp í þessa færslu.

Mér finnst sjálfsagt að líta á málflutning fólks eftir því hvaða hagsmuna það hefur að gæta. Jón og Vilhjálmur eru ósammála um forsendur og spár, og fá þess vegna mismunandi niðurstöður. Hvor um sig fær niðurstöðu sem þjóna málflutningi og hagsmunum þeirra. Ekki satt?

Matti - 27/01/10 17:56 #

dæs :-)

Svo kemur einhver einn tuðari (Guðmundur 2.) og tuðar yfir hagsmunatengslum Vilhjálms, og þá finnst þér vera einhver þöggun í gangi?

Ég hef ekki hugmynd um hver Guðmundur 2 er eða hvað hann hefur skrifað. Ég hef séð marga aðila fjalla um að Vilhjálmur sé ómarktækur. En þessi bloggfærsla fjallar EKKI um Vilhjálm.

Mér finnst sjálfsagt að líta á málflutning fólks eftir því hvaða hagsmuna það hefur að gæta.

Þú sagðir það: "líta á málflutning". Ég er að tala um fólkið sem telur ekki ástæðu til að líta á málflutning sumra heldur telur að hópar fólks skuli útilokaðir úr umræðunni.

Nonni - 27/01/10 18:05 #

Ok, það sem þú bentir á sem gögn til stuðnings máli þínu var blogg Vilhjálms. Þau gögn þóttu mér ekki styðja skoðun þína, við snöggt yfirlit.

Ég skal alveg taka undir að það er mikið af upphrópunum í samfélaginu, en það hefur alltaf verið þannig. Fólk skipar sér í lið, það rakkar hitt liðið niður, og hlustar ekki á rök mótaðilans. Þetta er bara á aðeins háværari nótum en venjulega, því fólk var virkilega tekið í óæðri endann.

Ég myndi flokka þessa færslu undir kvabb, frekar en pólitík. Nema hvort tveggja væri :-)

Matti - 27/01/10 18:05 #

Ok, það sem þú bentir á sem gögn til stuðnings máli þínu var blogg Vilhjálms. Þau gögn þóttu mér ekki styðja skoðun þína, við snöggt yfirlit.

Ekki gögn heldur dæmi. Á því er dálítill munur.

Ég nefndi líka annað dæmi neðst í færslunni með smáu letri.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki ýtt en mér sýnist ástandið vera afar slæmt um þessar mundir. Að sjálfsögðu er vantraust í þjóðfélaginu en þetta er orðið sturlað.

Nonni - 27/01/10 18:30 #

Já, ég meinti dæmi. Mér finnst það reyndar koma út á eitt. Dæmið studdi ekki mál þitt. Ég er samt nokkuð viss um að þú hafir rétt fyrir þér, þó ég viti ekki hvort það sé hægt að kalla það þöggunn.

Var fólk annars að útiloka þig úr einhverri umræðu, því þú forritaðir einu sinni fyrir banka? Eða missti ég af einhverju?

Átti þetta kannski að fara undir kvabb, pólitík og dylgjublogg? :-Þ

Matti - 27/01/10 19:35 #

Dæmið styður mál mitt, bara ekki með þeim hætti sem þú heldur. Mér þótti Jóhannes t.d. strax styðja dæmið.

Nei, ég má ekki tjá mig um bankamál vegna fjölskylduvensla. Ef ég tjái mig um bankamál (sem eru ansi stór hluti af pólitískri umræðu hér á landi) er hætt við að fjölmiðlar segi frá því. Svo má ég líka eiga von á að nafnlausir aðstandendur vefrita noti það gegn mér. Þetta er sturlun.

Örn - 27/01/10 20:01 #

Þegar ég fletti inn á athugasemdirnar þá var ég alveg handviss um að einhver var búinn að ganga beint í gildruna. Til hamingju, Jóhannes.

Bráðum kemur einhver með athugasemd með langri sögu um frænku sína að vestan.

Leyfði mér að benda á færsluna þína hjá Baldri.

Freyr - 28/01/10 11:55 #

Mér finnst að málflutningur manna geti oft fallið um sjálft sig eftir því hver á í hlut, eins og dæmið með Vilhjálm.

Þetta er alveg sama og með djöfulinn, Haíti og Pat Robertson. Þjóðsagan er til og ef sagnfræðingur hefði sagt frá henni væri ekki mikið gert úr því, en af því að ákveðinn einstaklingur (Pat) sagði þessi orð, þá er frásögnin/málflutningurinn ósmekklegur.

Kannski er ég úti að aka, en mér finnst vera margt sameiginlegt með þessi tvö dæmi.

Matti - 28/01/10 12:12 #

Ég sé ekkert sameiginlegt með þessum dæmum.