Örvitinn

Trúarlegt uppeldi

Ásdís Pétursdóttir Blöndal spyr hvort hún eigi að veita barni sínu trúarlegt uppeldi.

Því betur sem börn eru að sér í kristinni trú, því meiri möguleika hafa þau á að bera hana saman við aðrar kenningar og þannig hafna henni eða halda á grundvelli þekkingar. Ef börnin eru ekki alin upp í trú, fara þau á mis við það frelsi sem felst í að geta hafnað trúnni á grunvelli reynslu og þekkingar.

Ég og fleiri kommenta, Jón Yngvi vísar meðal annars á frábæra grein Eyju Margrétar um trúaruppeldi. Ásdís kom skemmtilega á óvart og svarar athugasemdum.

Í athugasemd segir hún:

Varðandi það að kenna gagnrýni á trúna, þá sé ég ekki að lítil börn hafi forsendur til að læra um Guð og gagnrýna hann á sama tíma. Það væri ekki uppbyggjandi að mínu viti. En þegar grunnurinn er lagður, þá hafa þau fullt frelsi til að gagnrýna,endurskoða og bera kristindóm saman við aðrar kenningar. Ef þau finna eitthvað betra, taka þau það eflaust upp.

Þetta þykir mér alveg makalaust sjónarmið. Fyrst skal innræta kristni (án gagnrýni) svo þegar því verki er lokið mega krakkar heyra um eitthvað annað! Auðvitað hefur kennsla í kristinfræði farið svona fram á Íslandi en það er áhugavert að sjá kirkjufólk segja þetta.

kristni
Athugasemdir

Kristján Hrannar - 03/02/10 19:12 #

Það er augljóst að með því að fræða börn um Samfylkinguna hafa þau meiri möguleika á að bera hana saman við aðra flokka.

Matti - 03/02/10 19:15 #

Um leið er ljóst að börn hafa ekki þroska til að læra bæði um Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn í einu, því þarf að velja annað!

Kristján Atli - 03/02/10 21:36 #

Takk, enda hefur henni ekki enn verið svarað. Það vill oft gerast þegar maður kemur með 'góðan punkt' í umræðum við trúaða.

Kristín Kristjánsdóttir - 04/02/10 14:08 #

Mér finnst svolítið áhugavert það sem hún skrifar um leiðandi uppeldi því ég hef áður séð þessu kastað fram af einmitt trúaðri manneskju en miðað við grein Ásdísar þá virðast þær tvær hafa nákvæmlega sömu ranghugmynd um leiðandi uppeldi.

Ég fór á fyrirlestur þegar ég vann sem leikskólakennari hjá uppeldismenntaðri manneskju sem var um leið djákni (man ekki hvað hún heitir), en sú vildi kenna okkur verðmæti leiðandi uppeldis.

Hún útskýrði leiðandi uppeldi með því að stilla því upp á móti skipandi uppeldi. Skipandi foreldri, sagði hún, að væri einstaklingur sem skipaði barninu sínu að gera eitthvað án útskýringar. Leiðandi foreldri hins vegar einhver sem sagði barninu sínu að það ætti að gera eitthvað og gæfi einhvers konar útskýringu á því af hverju.

Þær gleyma báðar algerlega valinu, þar sem börnin fá að velja vegna þess að þeim er leyft að sjá rauverulegt verðmæti hlutanna og ákveða sig út frá því.

Djákninn útskýrði þetta nánar með því að segja dæmisögu af því hvernig þessi viska opinberaðist henni á sínum tíma. Hún var í strætó og sá barn sem vildi ekki sitja kyrrt í sætinu sínu. Það átti móður sem skipaði því bara að sitja kyrrt án málalenginga.

Svo sá hún aðra móður sem bað barnið að sitja kyrrt og gaf langa útskýringu á því af hverju, en gaf barninu ekki færi á öðru en að sitja.

Hið rétta er hins vegar þegar kemur að leiðandi uppeldi, ef aðstæður leyfa það, að benda barninu á það að það geti slasað sig ef það er að flækjast um í strætisvagni á ferð í stað þess að sitja kyrrt. En leyfa barninu svo að reka sig á það að detta og meiða sig (auðvitað án þess að stefna barninu í alvöru voða) ef það velur að hlusta ekki.

Með því lærir barnið tvennt, það borgar sig að sitja í strætó OG viðvörunarorð þín áttu rétt á sér.

Þegar viðvörunarorðin eiga ekki rétt á sér þá er hins vegar skiljanlegt að ekki sé gefið rými fyrir barnið til að komast að því, því þá kæmist það auðvitað að óheiðarleikanum á bakvið þau.