Örvitinn

Erla Ósk "Icesave drottning"

Það er varla hægt að segja að ég sé mikill stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins þó ég hafi verið það í eina tíð. Hef meira gagnrýnt þann flokk en lofað síðustu ár. Ég skil samt ekki alveg umræðuna sem upp hefur komið eftir að Erla Ósk Ásgeirsdóttir settist á þing.

Teitur bloggaði um málið í fyrradag og sagði meðal annars:

Nú situr s.s á Alþingi manneskja sem þekkir frá fyrstu hendi hvernig var staðið að markaðssetningu þessara glæpareikninga. Manneskja sem er að hluta til ábyrg fyrir mestu svívirðu sem Íslendingar hafa séð og fundið á eigin skinni.

Sandkorn vitnaði í Teit og talar um Erlu sem "Icesave drottningu" og í dag endurtekur Jónas bloggfærslur annarra og nær að toppa Teit.

Hana má kalla IceSave drottningu. Vann á græðgistímanum við að ginna Breta og Hollendinga til að leggja fé í IceSave. Ég vona sannarlega, að Erla Ósk sýni ekki á þingi sama dugnað við rangindi og hún sýndi þá. Er hún var í fylkingarbrjósti IceSave-brasks einkavinavædda Landsbankans. Hún er ný sönnun þess, að þingflokkur sjálfstæðismanna er hluti af hruninu. Að hann er sjálfur Hrunflokkurinn.

Ég rökræddi þetta aðeins við Teit á Facebook þar sem hann talaði um að Erla væri "ekki flekklaus" og verð að játa að ég skil málið ekki ennþá.

Hvað er það nákvæmlega sem Erla Ósk gerði af sér? Samkvæmt umfjöllun DV vann hún í markaðsdeild Landsbankans, meðal annars við markaðsrannsóknir þar sem skoðaðir voru möguleikar á að fara með Icesave reikningana til annarra landa. Erla var starfsmaður á plani, ekki stjórnandi, hún tók ekki ákvarðanir um Icesave.

Ég vann í Landsbankanum á árunum 2003-2005, í hugbúnaðardeildinni sem þá var staðsett í Álfabakka (Mjódd). Ég er nokkuð viss um að einhverjir sem ég vann með þá unnu síðar að tölvukerfum fyrir Icesave og hugsanlega hefði ég komið nálægt slíkum verkefnum ef ég hefði unnið áfram í bankanum. Er hægt að kalla það fólk "Icesave kónga" og "Icesave drottningar" fyrir að mæta í vinnuna og sinna verkefnum? Eru þau "að hluta til ábyrg"? Sigurjón Þ. Árnason var "Icesave kóngur", um það er ekki deilt, sennilega einhverjir aðrir toppar í bankanum líka en almennir starfsmenn sem stimpluðu sig inn á morgnana og unnu sín verkefni - nei fjandakornið, það var að vinna vinnuna sína.

Vel má vera að Erla Ósk sé alveg ómöguleg en ég get ekki séð að vinna hennar í markaðsdeild Landsbankans geri hana óhæfa til að sitja á þingi.

pólitík
Athugasemdir

BFI - 03/02/10 15:43 #

Vel mælt.

Grímur - 03/02/10 16:38 #

"Ég vann í Landsbankanum á árunum 2003-2005, í hugbúnaðardeildinni" Það setur þig í hóp þeirra sem "lögðu grunn að IceSave". Ég átta mig ekki alveg á hvar þú ert í tignarstiganum. IceSave hertogi kannske, nærð ekki alveg að vera IceSave prins.

Matti - 03/02/10 16:41 #

Icesave var ekki einu sinni til sem hugmynd þá þannig að ég hlýt að teljast ansi lítilfjörlegur Icesave-wannabe :-)

Grímur - 03/02/10 16:46 #

Vinsamlegast ekki blanda staðreyndum inn í þessa umræðu. Þær eru málinu óviðkomandi.

Matti - 03/02/10 17:08 #

Jenný þekkir fólk sem er "alveg brjálað" yfir þessu fokkmerki að Erla sé sest á þing.

Svenni - 03/02/10 17:19 #

Alveg rétt hjá þér.

Sumt fólk er orðið svo fíkið í að vera reitt að það skiptir litlu hverju er klínt á hvern lengur.

helga - 03/02/10 18:23 #

mér finnst svo gaman að lesa bloggið þitt af því að þú ert réttsýnn og skemmtilegur, svo áttu heilbrigða vini líka:)

Gefur manni von að lesa svona innan um allt bullið.......

Arnold - 03/02/10 18:24 #

Sammál Matta þarna. Fáránlegt að klína ICESAVE á viðkomandi þingmann. Það er fyrst og fremst forsvarsmenn bankans sem er við að sakast.

Nær væri að gagnrýna veru þingmanns sem stolið hefur af skattgreiðendum og iðrast einskins. Mætir svo með biblíuna í ræðustól alþingis og talar um siðgæði um leið og mannréttindabrot eru framin af meirihluta þings og að honum meðtöldum.

Matti - 03/02/10 18:32 #

Takk Helga, ég roðna bara!

Arnold, það er ekki hægt að ræða þingmennsku ÁJ ógrátandi.

Nafnlaus - 03/02/10 19:55 #

Það er staðreynd að Icesave var ekki bara klúður heldur hreint bankarán. Enda stóð aldrei til að borga til baka fólki í Hollandi sparifé sitt, heldur vísa því að tóman innistæðutryggingasjóð. Eru Erla Ósk og Þórlindur Kjartansson alveg saklaus af Icesave? Þau unnu við markaðssetningu á þessu fram á síðasta dag. Vitandi það að bankinn var á kvínandi kúpunni og að peningarnir sem voru lagði þar inn fóru beinustu leið úr sparireikningum Hollendinga og Breta í skuldahít Björgólfs og co. Þau kannski fundu ekki upp Icesave, eða voru æðstu stjórnendur, en þau hefðu getað sagt eitthvað og reynt að stoppa þessa vitleysu. Allir sem vita um glæp sem fer fram en segja ekkert eru meðsekir. En kannski voru þau bara svona utanvið sig og fengu ekkert að vita um hvað þau voru að vinna við. Ekki frekar en viðskiptaráðherrann?

Sindri Guðjónsson - 03/02/10 19:57 #

"Eru Erla Ósk og Þórlindur Kjartansson alveg saklaus af Icesave? Þau unnu við markaðssetningu á þessu fram á síðasta dag. Vitandi það að bankinn var á kvínandi kúpunni og að peningarnir sem voru lagði þar inn fóru beinustu leið úr sparireikningum Hollendinga og Breta í skuldahít Björgólfs og co."

Ég efast mjög stórlega um að þetta sé satt. Hvernig veist þú þetta? Hvað hefur þú fyrir þér?

Sindri Guðjónsson - 03/02/10 20:00 #

Ég þekki Erlu Ósk ekkert, en ég kannast aðeins við Þórlind. Hann hefur virkað á mig sem réttsýnn og heiðarlegur maður þegar við höfum rætt saman um hin ýmsu mál. Það kæmi mér óvart ef það kæmi á daginn að hann hafi ekki starfað af heilindum.

Matti - 03/02/10 20:22 #

Æi kommon, hvað er málið með nafnleysið? Það er ekki eins og þetta séu skoðanir sem þú getur lent í fangelsi fyrir að viðra.

Það er staðreynd að Icesave var ekki bara klúður heldur hreint bankarán. Enda stóð aldrei til að borga til baka fólki í Hollandi sparifé sitt, heldur vísa því að tóman innistæðutryggingasjóð.

Þetta er afskaplega langt frá því að vera staðreynd.

Eru Erla Ósk og Þórlindur Kjartansson alveg saklaus af Icesave? Þau unnu við markaðssetningu á þessu fram á síðasta dag

Fram kemur í frétt DV sem ég vísa á í færslunni að þau unnu við markaðsrannsóknir vegna Icesave.

Þau kannski fundu ekki upp Icesave, eða voru æðstu stjórnendur, en þau hefðu getað sagt eitthvað og reynt að stoppa þessa vitleys

Má ekki segja það sama um annan hvern íslending? Hverjir reyndu að stoppa þessi vitleysu?

Þau eru álíka "sek" og fólkið í tölvudeildinni og mötuneytinu.

Matti - 03/02/10 21:11 #

Það er komin Facebook grúbba til að mótmæla því að Erla Ósk sé á þingi!

Grúbban virðist byggja á grein Teits og eftirfarandi er manifesto hópsins:

Erla Ósk Ásgeirsdóttir, þingmaður sjálfstæðisflokksins, skipulagði markaðssetningu ICESAVE reikninganna í Hollandi og Bretlandi. Þessi hópur vill að hún segi þingmennsku tafarlaust af sér af þeim sökum.

Vandinn er að Erla Ósk skipulagði alls ekki markaðssetningu Icesave reikninganna í Hollandi og Bretlandi.

Svona getur fólk getur fólk verið með læti út frá slakri bloggfærslu og staðleysum.

Svanur Sigurbjörnsson - 03/02/10 22:50 #

Er ekki einmitt dýrmætt að hafa fólk á þingi sem þekkti innviði bankavitleysunnar án þess að hafa haft frumkvæði að ruglinu? Ég þekki ekkert til Erlu Óskar, en ég er sammála þér Matti að þetta hljómar allt svipað og að hengja bakara fyrir smið. Fín færsla Matti.

Arnold - 04/02/10 07:34 #

Ef að Erla og Þórlindur sem voru "Starfsmenn á plani" í Landsbankanum eru meðsek í þessum skandal bakastjóranna og bankaráðs landsbankans þá tel ég rétt að hafa upp á grafískum hönnuði herferðarinnar. Hans sök er mikil. Hann hannaði þetta líka grípandi logo sem hefur örugglega aukið að athygli þessara reikninga.

Þetta er auðvitað komið út í vitleysu.

Ég tek fram að ég er fyrrverandi sjálfstæðismaður. Ég kaus ekki flokkinn síðast og mun aldrei aftur kjósa hann. Ég er því ekki pólitískur stuðningsmaður Erlu og Þórlindar.

Helgi Briem - 04/02/10 08:44 #

Ég er innilega sammála þér Matti. Ég er jafn reiður og hver annar yfir Icesave draslinu en skil ekki þörfina fyrir að seilast alla leið niður starfsmannaskipurit bankanna eftir sökudólgum.

Matti - 04/02/10 11:34 #

Teitur heldur áfram í ruglinu. Skrifar:

Tveir valinkunnir bloggarar ruku upp til varnar og sögðu að ekki mætti “dæma” Erlu Ósk því hún væri saklaus og hefði bara unnið hjá vondu fyrirtæki.

Ég hef ítrekað spurt hvað það var sem Erla á að vera sek um. Hvorki Teitur né aðrir hafa getað bent á nokkuð, bara að hún vann í markaðsdeild LÍ.

Teitur fullyrðir ítrekað að hún hafi unnið við að markaðssetja Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi. Ég held það sé rangt hjá honum enda kemur annað fram í frétt DV þar sem sagt er að hún hafi unnið við markaðsrannsóknir þar sem verið var að skoða hugsanlega útbreiðslu Icesave.

Matti - 04/02/10 11:50 #

Annað skondið, Teitur byrjar á að segja:

Öllu er hrært saman í einn graut og svo vinnur sá sem æpir hæst eða nær að bása upp einhverja stemningu.

Eins og ég vísaði á er búið að stofna Facebook hóp út frá skrifum Teits. Þessi orð eiga algjörlega við um hann.

Arnold - 04/02/10 12:25 #

Svo má alveg hafa það í huga að ICESAVE var ekki ólöglegur gerningur. Ég hef alla vega séð það rökstutt. Hins vegar var þetta algert glapræði í boði ríkjandi stjórnvalda og stjórnenda bankans. Að fara að saka starfsfólk markaðsdeildar í þessu máli er bara hreint út sagt fáránlegt.

svansson.net - 04/02/10 12:59 #

Það er rétt að Icesave var ekki ólöglegt, en hitt er nokkuð ljóst að stjórnvöld hefðu getað stöðvað þessa innlánasöfnun, en líklega þjónaði hún líka hagsmunum ríkissjóðs.

En það má líka hafa það í huga að það var ekki innlánasöfnunin sem slík sem er undirrót vandamála okkar í dag, heldur eignabruninn sem át upp eigið fé bankanna. Það stafar að sjálfsögðu af lélegri fjárfestingarstefnu Landsbankans - þeir sem mótuðu hana eru sökudólgarnir, ekki þeir sem komu að innlánasöfnuninni.

Grímur - 04/02/10 13:28 #

Það er hrikalegt að horfa upp á þetta. Hér koma menn fram, hver á eftir öðrum, með staðreyndir og vel ígrundaðar skoðanir. Þetta þjónar þeim tilgangi einum að rugla umræðuna.