Örvitinn

Gosumfjöllun

Ég sá fréttir af eldgosinu á Facebook rétt eftir miðnætti. Fylgdist með fréttum til rúmlega tvö í nótt.

Kíkti aðeins á Twitter. Þar lofaði fólk Twitter og vonaðist til að þessi atburður yrði til að fólk á Íslandi myndi sjá hvað það væri góður vettvangur. Ég sá ekkert nema fjölda fólks að segja það sem ég vissi fyrir - að eldgos væri hafið. Virkar Twitter eitthvað ef enginn er á svæðinu? Lítið á því að græða þegar fólk endurtekur fréttir án þess að bæta neinu við, en vísanir eru náttúrulega fínar, sá þar m.a. vísanir á vefmyndavélar sem lítið sýndu og fréttir af því að flugi hefði verið aflýst.

Netmiðlarnir stóðu sig þokkalega, mbl voru fyrstir með almennilegar fréttir - dv.is voru næstir sýndist mér, náðu sambandi við fólk á svæðinu, mér fannst lítið á Vísi. Ég heyrði bara tónlist á Rás2 þegar ég náði að hlusta gegnum netið - sem datt reyndar út á tímabili. ADSL samband mitt við Símann datt út rétt fyrir tvö og ég náði ekki að tengjast í svona 10 mínútur. Rétt rúmlega tvö nennti ég ekki lengur að fylgjast með og fór að sofa.

Bloggarar hafa fátt sagt af viti nú sem fyrr :-) Ætli sé ekki best að fylgjast með Jón Frímanni.

Ljósmyndaáhugamenn á ljósmyndakeppni.is voru farnir að plana ferðir austur strax í nótt. Hafa vonandi ekki margir farið að þvælast fyrir.

Í morgun hef ég horft á fréttir ríkissjónvarps, Kolla vakti okkur þar sem fréttatíminn kom í stað barnatíma. Þar sér maður loks einhverja umfjöllun og almennilegar myndir af gosinu. Stöð2 er bara rugluð. Ég skipti örstutt á erlendu stöðvarnar en sá enga umfjöllun.

Nú erum við að fylgjast með flugáætlunum til að sjá hvort afmælisbarnið komist heim frá Amsterdam í dag.

fjölmiðlar