Örvitinn

Ekron - kristilegt áfangaheimili?

Lógó EkronÍ fyrrakvöld sá ég frétt í sjónvarpinu af því að áfangaheimilið Ekron sé í vandræðum, opinberir aðilar vilja ekki semja og því stefnir í að Ekron þurfi að loka. Ég hjó eftir því í fréttinni að ekkert var minnst á trúarbrögð en sá ýmis merki um að starfssemi Ekron sé rekið á trúarlegum forsendum. Fyrsta vísbending er merki félagsins. Jesús-fiskurinn bendir til þess að starfsemin sé kristileg.

Nafnið Ekron er tengt landinu helga.

Þetta er landið sem eftir er: Öll lönd Filistea og allt land Gesúríta 3frá Síhórá austan við Egyptaland og norður til landa Ekrons sem allt telst heyra Kanverjum til. [Jósúa 13-2]

Auk þess sást ágætis bænaherbergi og myndarlegur kross í frétt sjónvarps.

Það fer þó furðulega lítið fyrir umfjöllun um þessi kristilegu tengsl á heimasíðu Ekron. Hugsanlega vegna þess að fólk er dálítið efins um að best sé að láta trúfélög sinna þessum málum í kjölfar þess sem gerst hefur í kristilegu meðferðarstarfi nýlega.

Nú er að sjálfsögðu ekkert sem kemur í veg fyrir að kristið fólk sinni starfi sem þessu en við hljótum að gera þá kröfu að opinberir aðilar styrki einungis starfsemi sem fer fram án tengingar við trúarbrögð. Vel má vera að ekkert sé kristilegt við starfssemi Ekron og þá væri fínt að fá það á hreint.

Mér finnst félaginu vanta ansi mikla peninga miðað við allt það sjálfboðaliðastarf sem talað var um í fréttinni. 80 milljónir er dálítið mikið af peningum

Í viðtali við Margrét Scheving félagsráðgjafa í Bjarma (1. tbl 2007) segir hún.

Þegar maður leitast við að hafa Guð að leiðtoga lífs síns þá verða ýmsarbreytingar sem maður þarf að bregðast við, breytingar sem utanaðkomandi aðilar, sem ekki hafa heildarsýn á líf manns,skilja oft ekki.Í framhaldi af þessu var mér boðið aðtaka þátt í þróunarverkefni EKRon um atvinnulega endurhæfingu vímuefnasjúkra og alkóhólista. Þetta er starf sem Hjalti Kjartansson er hugsjónamaðurinn að og er mjög áhugavert. Það er rekið á trúarlegum grunni. (feitletrun mín - MÁ)

Nú sé ég ekki betur en að starfið sem Ekron sinnir sé jákvætt, það er þörf á því að taka við fíklum úr meðferð og aðstoða þá við að komast aftur út í samfélagið. Ég held samt að betra væri að slík starfssemi færi fram á veraldlegum forsendum en ekki trúarlegum.

kristni
Athugasemdir

Sirrý - 25/03/10 10:47 #

Mér finnst einhvern vegin að það sé bara ekki næg þekking á meðferðarstarfi almennt án þess að notast við guð og guðsóttan.

Það þarf bara almenna breitingu í þjóðfélaginu, það þarf ekki trú til þess að fólk geti hagað sér á siðmenntaðan hátt, siðmenntun kemur trú ekkert við. Hvað ef fólk sem ekki er trúað og er ekki tilbúið að taka trú og leiðist til "glötunar" á það þá bara að vera þar því ekki eru til neinar meðferðaraðferðir sem ekki fela í sér trú.

æji mér gengur illa að koma orðum að því sem ég er að segja en alla vega er svo sem sama hvaðan gott kemur og finnst mér full ástæða til þess að halda starfi Ekron áfram en við þurfum samt að fara að kíkja út fyrir kassa og finna lausnir sem felast í öðru en trú.

Matti - 25/03/10 10:49 #

en við þurfum samt að fara að kíkja út fyrir kassa og finna lausnir sem felast í öðru en trú

Akkúrat. Lausnir fyrir alla óháð því hvaða lífsskoðun þeir hafa.

GH - 25/03/10 11:05 #

Mjög athyglisvert, hélt ég vissi helling um þetta félag, sá reyndar krossinn uppi á vegg í sjónvarpsfréttinni, en datt þó ekki í hug að þetta væri byggt á kristilegum grunni/trúði því hreinlega ekki. Veit nefnilega að a.m.k. einn aðstandandi/stofnandi er félagsráðgjafi og gerði því ráð fyrir fagmennsku þarna.

Svavar Kjarrval - 25/03/10 11:15 #

Það væri gott að vita í hvað þessi peningur fer. Það kostar varla tugi milljóna að leigja staðinn eða borga af honum.

Matti - 25/03/10 11:20 #

Annars vegar er þetta húsnæði við Grensásveg en einnig er um að ræða einbýlishús í Breiðholti þar sem fólk býr meðan það er hjá Ekron. Húsaleiga getur verið slatti af þessu. Samkvæmt heimasíðunni virðast vera nokkrir starfsmenn hjá Ekron, það er fljótt að telja. Spurning hvort einhverjir þeirra séu sjálfboðaliðar.

Það kostar náttúrulega allt pening í dag og miklu meiri pening nú en fyrir tveimur árum.

Tinna G. Gígja - 25/03/10 14:20 #

Þar sem áfangaheimilið er núna var áður rekið fullbúið gistiheimili. Eiga þau húsnæðið?

Tinna G. Gígja - 25/03/10 14:35 #

Hefurðu skoðað þennan Gregory Aikins sem er með námskeið hjá þeim? Hann skrifaði nokkuð...áhugaverða grein í moggann. Reyndar fyrir 14 árum...

Matti - 25/03/10 14:37 #

Nei, ég var ekki búinn að skoða hann. En já, þetta er áhugaverð grein :-)

Sindri G - 25/03/10 17:10 #

Ég man eftir miklum viðtölum á Lindinni þegar Ekron var að byrja, við frumkvöðulinn, sem fékk hugmyndina af starfinu af himnum ofan og leit á þetta sem verkefni sem Guð hafði falið honum.

GH - 26/03/10 08:23 #

Ég tók mig út af lista sem stuðningsaðili Ekron á Facebook (til að mótmæla lokun staðarins). Vil ekki koma nálægt neinu sem tengist svona algjörum rugludöllum, takk fyrir að benda á þetta.

Gott starf og ekki gott starf, ég vil fara að sjá fagmennsku í svona vinnu í stað þess að biblíutextum sé barið inn í hausinn á fólki. Hvað ætli t.d. Krossinn hafi fengið í styrki í gegnum tíðina fyrir Krossgötur, kristilegu meðferðarmiðstöðina? Svona ofan á það að hafa byggt húsið fyrir félagsleg lán (2,4% vexti) sem ætluð voru fátæku fólki. Það er ekki sama hvaðan "gott" kemur!!!

Matti - 26/03/10 16:22 #

Jæja, nú er búið að semja við Ekron. Engin umræða hefur orðið um hvort eðlilegt sé að svona starf fari fram á trúarlegum forsendum - nema hér náttúrulega.

Hólmfríður Pétursdóttir - 26/03/10 17:59 #

Bara ítreka það að trú útilokar ekki fagmennsku. Að reka eitthvað á kristnum grunni getur merkt svo margt t.d. að starfsfólkið vilji temja sér ákveðið viðmót og afstöðu til fólks, en ekki beint trúboð. Ég þekki ekki til starfsins, en það fer óskaplega í taugarnar á mér þegar trú er álitin útiloka fagmennsku.