Örvitinn

Hænuungarnir í Þjóðleikhúsinu

Við hjónin kíktum í leikhús fyrir nokkrum vikum og sáum sýninguna Hænuungarnir á litla sviðinu (Kassanum).

Leikritið gerist í fjölbýlishúsi. Helgina áður var brotist inn í geymslu í kjallara og níu kjúklingum rænt úr frystikistu. Sigurhans grunar feðgana í næstu íbúð um glæpinn og boðar til húsfundar til að komast að hinu sanna í málinu.

Þetta er saga um fordóma og vænisýki. Fólk býr nálægt hvert öðru en þekkist samt ekkert. Við erum fljót að spinna sögur um náungann í stað þess að kynnast honum. Þá er hætt við að ófriður ríki og misskilningur verði að báli.

Þjófnaðurinn

Ég hef lent í því að brotist var inn hjá mér og get tengt við ýmislegt í viðbrögðum persónanna. Það er eðlilegt að mann fari að gruna ýmsa við þessar aðstæður, skyndilega verða þeir sem á vegi manns verða hugsanlegir krimmar. Var það náunginn í búðinni eða jafnvel konan sem gekk framhjá húsinu rétt í þessu.

Yfirlýsingar

Eftir hrun hefur umræðan hér á landi iðulega verið galin. Stöðugar ásakanir og árásir í allar áttir, ekkert þarf að rökstyðja, nóg er að ásaka og helst sem hæst og oftast. Ásakanir Sigurhans í garð nágranna sinna minna mig á þessa stemmingu, sérstaklega þegar í ljós kemur að eflaust tengjast brotin honum meira en hann vill horfast í augu við. Það er nefnilega auðveldara að ásaka þá sem tengjast manni ekki á nokkurn hátt.

Comic relief

Mér þykir dálítið ódýrt að nota tvær aðferðir til kreista fram hlátur. Annars vegar er það konan með elliglöpin sem misskilur margt. Hins vegar ölvaði maðurinn sem missir smátt og smátt sjálfstjórn. Vissulega var hlegið að sumu en þetta voru að mínu mati hálfgerðir fimmaurabrandarar.

Niðurstaða

Það er langt síðan ég fór í leikhús og þetta var ágæt skemmtun. Sagan er ekkert óskaplega innihaldsrík en þó er hægt að ræða ýmislegt eftir sýningu og sjá marga fleti á verkinu.

leikhús