Örvitinn

Lambaskankapælingar

lambaskankiÉg eldaði lambaskanka í fyrsta skipti í dag. Hef satt að segja ekki hugmynd um ástæðu þess að ég hef ekki gert það fyrr.

Notaði ekki uppskrift en studdist við leiðbeiningar á mbl og Stóru matarbókina. Í bókinni var talað um að elda skankana í ofni við 180° í tvo tíma. Sá svo hjá Nönnu að hún eldar skanka við lægri hita í lengri tíma og Jóhannes talaði einnig um það á Facebook. Næst prófa ég að elda lengur en ég hafði kjötið í tæpa tvo og hálfan tíma í ofninum, lækkaði hitann í lokin.

Í soðinu var ég með grænmeti (gulrætur, sellerí, hvítlauk, lauk), lambasoð, hvítvin, lárviðarlauf og tómatkraft ásamt kryddi. Brúnaði kjötið á pönnu og setti í steikarpott, steikti grænmeti og setti í pottinn ásamt rest.

Þetta kom afskaplega vel út. Bar skankana fram með kartöflumús með pestó og parmesan, steiktum sveppum, rótargrænmeti úr pottinum og gulum baunum. Sósan var soðið úr pottinum þykkt með hveiti.

Ég hjó svo eftir því að skankarnir eru kallaðir grillleggir á merkimiða frá Nóatún og voru einnig merktir þannig í Krónunni. Hver grillar eiginlega skanka? Mér finnst það út í hött og Nönnu líka. Jóhannes vill meina að þetta hafi verið gert svo hægt væri að hækka verðið. A.m.k. þykir mér þetta ekkert sérlega ódýrt kjöt á um 1200 kr kílóið.

Ég var ekki alveg viss um hve mikið þyrfti á mann. Keypti fimm skanka enda finnst mér að hver þurfi að fá heilan bita á sinn disk. Þetta voru rétt tæp 3kg. Ég kláraði minn bita en stelpurnar borðuðu um hálfan. Ég gæti því reynt að velja minni skanka fyrir þær.

matur
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 25/04/10 22:06 #

Þú notar mjög svipaða grunnaðferð og ég. Munar helst að ég bæti ferskum kryddjurtum (Rósmarín og Timian) og steyttum piparkornum í steikarfatið. Oftast nær á ég afskurði af lambasteikum í frystinum og leyfi þeim oftast að fara með í steikarfatið. Ég læt soðið rétt tæplega þekja skankan, en sný honum einusinni á ferlinu. Sjaldnast fer ég yfir 120°, en held mig vanalega í kringum 80-90°c. Tímalengdin veltur á því hvort ég vilji hafa skankann heilan eða rífa.

Besta sósan fæst með því að sjóða bara niður djúsinn úr fatinu, helst með smáræði af svituðum skarlottulauk, sem er búið að dassa aðeins af góðu rauðvíns eða balsamic ediki yfir. Þarna má líka nýta afganginn af jurtunum. Snobbhundar og ég geta sigtað soðið í gegnum hreinan dúk til að losna við gruggið.

Til þess að klára skankann, og gefa honum huggulegan gljáa, þá er hægt að taka svolítið af sósunni, sjóða niður í drasl, bæta smáræði af grófu sinnepi samanvið, pensla á kjötið og gefa þeim smáskot í ofni.

Annað sem ég er rosalega hrifinn af með lambi, það er að pilla ferskt esdragon í blandarann, með góðu dijon sinnepi, mauka í drasl og smyrja utaná lambið.

Skankarnir eru sennilega minn uppáhaldsbiti af rollunni...

Matti - 25/04/10 23:48 #

Sammála, mér finnst þetta agalega góðir bitar. Takk fyrir þessi ráð, ég mun fikra mig áfram næst og vafalaust prófa eitthvað af þessu. Ég klikkaði einmitt á því að kaupa rósmarín, nennti bara ekki aftur út í búð. Það klikkar eiginlega aldrei með lambi.

Jóhannes Proppé - 26/04/10 00:44 #

Svo er ein sniðug leið til að nýta afganga af skönkunum, að rífa þá aðeins niður, skella þeim í hrærivélina, ásamt smá sósu, smjöri, fínsöxuðum skallotlauk, söxuðu dilli og smakka það til með salti, pipar og nokkrum dropum af ediki.

Þetta er frábært sem álegg, sérstaklega á beyglur með rjómaosti.

hildigunnur - 26/04/10 10:04 #

Uss ekkert að því að kaupa mikið af svona kjöti - afgangar eru himneskir! Ég nota alltaf núorðið uppskrift frá honum Huga Þórðar, ætlaði að vísa á hana beint en hun er ekki lengur aðgengileg á síðu frá honum að ég fái séð þannig að hér er hún bara:

Lambaskankar með rósmaríni

Innihald

  • 4 lambaskankar
  • Slurkur af ólífuolíu
  • 4 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 1 matskeið saxað, ferskt rósmarín
  • 2dl hvítvín
  • salt
  • pipar

Aðferð
Brúnaðu skankana í olíunni á heitri pönnu/potti í 10 mínútur til korter. Taktu skankana svo til hliðar

Lækkaðu hitann á pönnunni og settu hvítlauk og lauk saman á hana. Steiktu þar til laukurinn verður glær (ekki brúna hann).

Settu skankana aftur á pönnuna, helltu hvítvíninu yfir þá og kryddaðu með rósmaríninu, saltinu og piparnum. Lokaðu pönnunni og láttu malla á lágum hita þar til skankarnir eru mjög meyrir - í ca. tvo til tvo og hálfan tíma.

Algjört sælgæti!

hildigunnur - 26/04/10 10:05 #

já - þetta kom í belg og biðu, alltílæ... :D

Matti - 26/04/10 10:10 #

Á þessu bloggi lagast almennilegar athugasemdir af sjálfu sér :-)

hildigunnur - 26/04/10 11:36 #

Almennileg síða atarna :D

Hrund - 29/09/11 14:26 #

Hæ, er betra að nota hvítvín frekar en rauðvín í soðið? Hafði hugsað mér að gera einhvers konar rauðvínssósu úr soðinu í lokin

Matti - 29/09/11 16:00 #

Ég notaði hvítvín vegna þess að ég átti opna hvítvínsflösku. Notaðu endilega rauðvín.