Örvitinn

Tæknistörf við gagnaver

Pressan segir frá því að Guðmundur Ragnar Guðmundsson, netverji og frumkvöðull haldi því fram að tæknistörf við gagnaver séu blekking.

Vandinn við umræðuna er að þarna skiptir máli hvað fólk á við með hugtökunum. Hvað er "tæknistarf"?

Það er ljóst að rafvirkjar munu starfa í gagnaveri og sennilega einhverjir kerfisstjórar og aðrir með þekkingu á rekstri tölvuvera. Annars er lýsing Guðmundar Rangars eflaust rétt, sumir munu vinna frekar einföld verk við viðhald á gagnaverinu og rekstur. Þannig að eflaust skapar gagnaver einhver störf, sum sem krefjast tækniþekkingar og önnur sem krefjast ekki slíkrar þekkingar, líkt og álver.

Ég veit ekki til þess að það sé mikið atvinnuleysi hjá "tæknifólki" á Íslandi í dag. Það er skortur á fólki í hugbúnaðarbransanum þannig að ekki er þörf á að skapa slík störf. Það þarf að skapa fjölbreytt störf fyrir allskonar fólk.

Svo er allt annað mál hvort eitthvað vit sé í að selja mönnum rafmagn á afslætti (mér þykir það gáfulegt ef verið er að semja um mikið magn til langs tíma) og gefa skattaafslætti (að mínu mati á helst ekki að gera upp á milli fyrirtækja í gegnum skattana, frekar breyta sköttum almennt á fyrirtæki).

Það er einnig önnur spurning hvort það geti ekki skapað ákveðin tækifæri fyrir íslensk tæknifyrirtæki að hafa gagnaver í bakgarðinum.

pólitík
Athugasemdir

Matti - 26/04/10 15:25 #

Ég fann ekki mörg dæmi þar sem talað var um tæknistörf í tengslum við gagnaver. Í frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ stendur:

Verne áætlar að 180 til 220 manns fái störf á Íslandi á uppbyggingartímabilinu sem er sjö ár. Gert er ráð fyrir um 100 tæknistörfum og um 100 byggingastörfum.

N.b. þarna er verið að tala um uppbyggingu gagnavers sem er tímabundið verkefni, ekki rekstur þess. Um rekstur stendur:

Þegar henni [uppbyggingu gagnaversins] er lokið munu u.þ.b. 100 manns gegna fullu starfi í gagnaverinu, annaðhvort beint eða á vegum íslenskra undirverktaka.