Örvitinn

Laun seðlabankastjóra

Viljum við ekki hæfasta einstaklinginn í stöðu bankastjóra Seðlabankans? Er ósk fólks kannski að þangað leiti stjórnmálamenn á eftirlaunum eða fólk með metnað til að komast lengra sem lítur á stöðuna sem ágætt stökkpall? Væri ekki bjánalegt ef meðalstórt fyrirtæki á Íslandi myndi bjóða bankastjóra Seðlabankans tvöfalt hærri laun fyrir að gerast millistjórnandi?

Staða bankastjóra Seðlabankans skiptir gríðarlega miklu máli. Ef við viljum topp einstakling í stöðuna þurfum við að borga fyrir það.

En það má náttúrulega ekki segja þetta :-)

pólitík
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 03/05/10 16:08 #

Þetta er ofureinföldun á aðstæðum. Bankafólk í UK eru einmitt búnir að reyna að snúa upp á handlegginn á strjórnvöldum hvað varðar bónusa með sömu rökum.

Það er ýmislegt fleira en bara laun sem skipta máli þegar fólk er komið á þennan level í starfsferlinum.

Maðurinn var ráðinn á ákveðnum kjörum og ég ætla rétt að vona að hann hafi tekið að sér stöðuna vegna prófessional metnaðar frekar en vegna launanna. Ef ekki, þá má hann fara eitthvert annað fyrir mér :Þ

Matti - 03/05/10 16:13 #

Maðurinn var ráðinn á ákveðnum kjörum

Það eru akkúrat þau kjör sem er verið að tala um að láta hann fá - en allt er brjálað útaf. Kjör hans voru lækkuð töluvert eftir að hann réð sig til starfa. Það sama gildir um forstjóra LSH. Bæði eiga það sameiginlegt að hafa verið í starfi erlendis þegar þau réðu sig hingað og bæði tóku þau á sig verulega launalækkun. Hvorugt gerði ráð fyrir enn meiri launaskerðingu vegna hugmynda um að enginn mætti fá hærri laun en forsætisráðherra.

Daníel - 03/05/10 16:25 #

Hingað til hefur nú reynslan sýnt að hærri laun laða ekki að hæfara fólk heldur frekar gráðugra fólk. Það hefur enginn nokkurn tíman sýnt fram á að tengsl séu á milli þess hve há laun eru í boði og hæfni þeirra sem sækja um viðkomandi störf. Hæfir einstaklingar koma til með að vilja vera seðlabankastjórar hvort sem launin eru ein milljón á mánuði eða tíu.

Matti - 03/05/10 16:31 #

Það hefur enginn talað um að borga honum tíu milljónir á mánuði og vissulega er rétt að hærri laun eru ekki alltaf svarið. Það er einmitt málið að fimm eða tíu milljónir á mánuði voru bara vitleysa, hvað þá bónusarnir þar á ofan.

Hvað ætli séu margir einstaklingar sem hafa það sem þarf til að vera bankastjóri Seðlabankans? Sá síðasti hafði það ekki og heldur ekki þeir sem á undan komu.

Þetta er fólk sem þarf að hafa ákveðna menntun og reynslu, helst alþjóðlega. Besta fólkið í þessum geira er sennilega starfandi í útlöndum.

Hvað annað lærðum við í ruglinu? Var ekki dálítið erfitt að halda fólki í eftirlitsstofnunum vegna þess að einkaaðilar gátu borgað hæfasta fólkinu miklu hærri laun. Vissulega viljum við fólk sem er ekki bara í vinnunni vegna launanna, en þegar ofan á bætist ógurlegt vanþakklæti og opinbert skítkast (eins og margir opinberir starfsmenn fá reglulega) hljótum við að gera ráð fyrir að menn fái nóg að lokum.

Ég vil helst að bankastjóri Seðlabankans sé ekki að velta því fyrir sér hvar hann ætlar að vinna eftir tvö ár.

Henrý Þór - 03/05/10 16:38 #

Tvennt í þessu. Maður í topp trúnaðarstöðu eins og Seðlabankastjóri þarf auðvitað að vera afgerandi fjárhagslega sjálfstæður. Það gefur augaleið.

Hinsvegar er allt í lagi að Seðlabankinn sýni árangur í peningastjórnun, í fyrsta sinn síðan 2001, áður en við förum að hækka launin. Mér finnst að Seðlabankinn eigi að ganga fram með góðu fordæmi í aðhaldssömum rekstri. Ekki þjófstarta launakapphlaupinu hinu síðara.

Skítt með peninginn sem færi í launahækkunina hinsvegar, við gætum tekið hann af ÓRG.

En hvað veit ég, svosem, einhver skrípókall útí bæ.

Daníel - 03/05/10 16:44 #

Jæja,hvort launin eru 1 eða 1,4 hefur ekki áhrif á hverjir sækja um starfið eða hversu lengi þeir tolla í því. Ef þessi laun eiga að vera samkeppnishæf við það sem gengur erlendis er ljóst að báðar upphæðirnar eru langt undir því sem þar býðst. Ég held að það sé enginn vilji fyrir því hér á landi að borga laun sem jafnast á við það sem gerist meðal hæstu stjórnenda í útlenskum bönkum. Hver ætli sé "hæfasti" bankastjórinn á Íslandi? Er það e.t.v. sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þingeyinga? A.m.k ekki fyrrverandi eða núverandi bankastjórar stóru bankanna þriggja. Það er ljóst að laun hafa aldrei endurspeglað "hæfni" hér á Íslandi né munu hærri laun nokkurn tíman laða "hæfari" einstaklinga að. Það eru bara hýenurnar sem renna á peningalyktina.

Matti - 03/05/10 16:45 #

En við erum að tala um launin sem hann samdi um þegar hann réð sig til starfa. Hann tók á sig launalækkun, það er engin spurning. Hann gæti fengið miklu hærri laun annars staðar, það er heldur engin spurning.

Réttlætir það að við lækkum launin sem hann samdi um þegar hann var ráðinn?

Það sama finnst mér líka gilda um forstjóra LSH - sem hætti náttúrulega bara (hugsanlega tímabundið) í stað þess að taka þátt í svona vitleysu.

Henrý Þór - 03/05/10 16:50 #

Ef ég mætti stinga upp á lausn, þá myndi ég segja að við ættum að borga Má 2.000.000kr á mánuði, þá mánuði sem verðbólgan er 2,5%. Sem lækkar þá um 10.000kr fyrir hvert 0,1% frávik. Lágmarks laun hans yrðu þó 200.000 kr. Væru þá ekki allir sáttir?

Carlos - 03/05/10 17:00 #

En við erum að tala um launin sem hann samdi um þegar hann réð sig til starfa. Hann tók á sig launalækkun, það er engin spurning. Hann gæti fengið miklu hærri laun annars staðar, það er heldur engin spurning.

Það er erfitt að finna lausn sem er réttlát og gengur framhjá samningnum sem hann undirritaði.

Hinsvegar geta ekki margir státað af því á lífshlaupi sínu að hafa verið seðlabankastjórar. Margir myndu gera þetta út á hugsjónina og glansinn sem fylgir starfinu eingöngu.

Daníel - 03/05/10 17:28 #

Það hafa margir tekið á sig launaskerðingu undanfarið og þá sérstaklega þeir sem þurfa að þiggja bætur. Ég sé ekki að það gildi einhver sérákvæði um seðlabankastjóra varðandi það að hann þurfi ekki að taka á sig launaskerðingu frekar en ýmsir aðrir. Hitt er svo annað mál að launaskerðingar á sama tíma og verið er að eyða formúgum í alls kyns vitleysu eru náttúrulega algerlega siðlausar.

Erna Magnúsdóttir - 03/05/10 20:20 #

Jæja, kallinn er sjálfur búinn að gera út um málið og lýsa því yfir að hann myndi ekki þiggja þessa hækkun. Er þetta því þá ekki sjálfdautt?

Matti - 03/05/10 21:39 #

Jú í sjálfu sér, en umræðunni um laun opinberra starfsmanna er ekki lokið.

Henrý Þór - 03/05/10 22:58 #

Hann guggnaði eftir að hann las tillögu mína hér að ofan, no doubt

Matti - 03/05/10 23:41 #

Ég held hann hafi verið að vakta umræður á blogginu og þegar hann sá að enginn nema ég var að verja þetta gafst hann upp, sérstaklega eftir að hann sá annað sem ég hef skrifað hér.