Örvitinn

Styrkir og auglýsingar

Ég bloggaði fyrir skömmu um styrki, prófkjör og frægð þar sem ég benti á að þeir sem ekki þurfa styrki til að ná kjöri eru annað hvort ríkir eða frægir.

Nú var Steinunn Valdís að segja af sér vegna styrkja sem hún þáði fyrir tvö prófkjör á sínum tíma. Þar á meðal voru nokkuð háar upphæðir frá fyrirtækjum sem í dag eru ekki vinsæl - en voru reyndar þá.

Enn finnst mér umræðan á villigötum eða a.m.k. glopótt. Vissulega skiptir máli hvað fólk fékk í styrki en mér finnst skipta alveg jafn miklu máli hvað fólk eyddi miklu í kosningabaráttuna. Þannig myndi ég vilja sá fjölmiðla taka saman hvað aðrir frambjóðendur eyddu miklu í sína baráttu, hvort sem það var af eigin fé eða annarra. Hve mikið pláss fengu þeir í fjölmiðlum (alveg ókeypis), hve verðmætt er það. Hvað borguðu frambjóðendur fyrir kosningamiðstöð eða borgaði þeir jafnvel ekkert?

Styrkjaumræðan er að mínu mati á villigötum ef allar hliðar málsins eru ekki skoðaðar og ekki rannsakað hvernig baráttan fór fram. Hver miklu eyddi fólk? Auðvitað skiptir máli hvernig baráttan var kostuð en það skiptir líka máli hvað hún kostaði.

pólitík
Athugasemdir

Björn Ómarsson - 28/05/10 22:32 #

Nú ætla ég að vera ósammála þér, vegna þess að það er mikilvægur eðlismunur á lánsfé, styrkfé og eigið fé. Maður sem fær lánað frá öðrum manni er skuldbundinn honum beint, um það þarf ekki að ræða. Þ.a.l. er Þorgerður Katrín jafn vanhæf og Sigurður Grey til þess að fjalla um málefni Kaupþings á Alþingi. Augljóst og óumdeilt (að maður hefði haldið).

Maður sem fær styrk frá öðrum manni er LÍKA skuldbundinn honum beint, hvort sem hann veit af því eða ekki. Svo lengi sem frambjóðandinn veit hver það var sem styrkti hann, myndar hann tengsl við gjafann sem hefur svo áhrif á allar ákvarðanir sem snerta hagsmuni hans. Þessi áhrif þurfa ekkert að vera meðvituð: það getur vel verið að Guðlaugur Þór viti ekki að hann er að ljúga þegar hann segir að styrkveitingar til hans hafi ekki haft nein áhrif á þingstörf hans.

Case in point: Í rannsókn sem ég las fyrir langa löngu og nenni ekki að finna aftur (áreiðanleg heimild það) voru dómarar látnir dæma í sýndarréttarhöldum yfir ungmennum sem voru ýmist ótengd, nátengd (s.s. ættingjar) eða mjög fjartengd (s.s. nágrannar) þeim. Dómararnir áttu líka að segja til hvort þeir teldu sig vanhæfa. Dómar yfir nátengdum ungmennum voru mildari en yfir ótengdum (augljóslega) og dómarararnir töldu sig undantekningalaust vanhæfa til dómsins. Það sem kom á óvart var að dómar yfir fjartengdum ungmennum voru alveg vafn mildir og yfir nátengdum! Og að sjálfsögðu töldu dómararnir sig undantekningalítið hæfa til dómsins.

Ef Jón Oddur eyðir milljón af Sínu fé í kosningabaráttu, þá eyðir hann milljón. Ef Jón Bjarni eyðir milljón af Gefnu fé, þá eyðir hann milljón OG er fullkomnlega vanhæfur til þess að fjalla um öll þau mál sem snerta styrkgjafana!

Ég held að besta leiðin til þess að komast hjá þessum hagsmunatengslum sem felast í styrkveitingum sé að gera allar styrkveitingar fullkomnlega nafnlausar, þannig að frambjóðandinn sjálfur viti ekki hver gaf honum peninginn. Í það minnsta ætti að skilgreina styrkveitingar, þar sem frambjóðandinn veit hver styrkveitandinn er, sem mútur.

Matti - 29/05/10 10:01 #

Ég geri mér grein fyrir þessu varðandi styrki og hugsanlega hagsmunaárekstra en ég skrifa þetta allt í tengslum við það hvort við viljum bara ríkt og frægt fólk á þing eða í bæjarstjórnir.

Ég vil ekki bara ríkt og frægt fólk :-)