Örvitinn

Ferðin út

Við áttum bókað flug klukkan 16:20 og nýttum því daginn í undirbúning. Gyða kíkti með Ingu Maríu til læknis, ég fór til sýslumannsins í Kópavogi og sótti alþjóðlegt ökuskírteini og svo fórum við í Byr og keyptum gjaldeyri. Komum við í Kringlunni á bakaleiðinni, keyptum skó hana Ingu Maríu og fengum okkur hádegismat.

Pökkum svo í þrjár töskur, vorum búin að taka megnið af dótinu saman en áttum bara eftir að troða því í töskur.

Stelpurnar bíða eftir flugiMættum tveimur tímum fyrir flug í Leifsstöð. Tékkuðum farangurin okkar inn í sjálfssala og komum okkur svo fyrir í biðstoðunni. Versluðum lítið í Fríhöfninni í þetta skipti. Ég greip reyndar tengi til að geta sett tvö heyrnartól í samband við iPod eða ferðatölvu. Kolla og Iga María kunnu alveg að meta það.

Þegar við mættum í flugvélina kom smá babb í bátinn. Við höfðum fengið þrjú sæti við neyðarútgang en þar er sextán ára aldurstakmark. Hin tvö sætin okkar voru tveimur röðum framar sitthvoru megin við ganginn. En það var nóg af lausum sætum í vélinni og við færðum okkur öll aftast þar sem vel fór um okkur.

Stelpurnar fengu hamborgara og horfðu saman á barnaefni. Ég kíkti á einn þátt af Stelpunum og horfði svo á bíómyndina Sunshine. Rétt náði að klára hana, myndin endaði eftir að vélin var lent. Tíminn flýgur þegar maður er að horfa á áhugaverða bíómynd.

Það er óhætt að segja að það sé þokkalegur göngutúr sem fólk þarf að rölta á flugstöðinni í Brussel, við héldum að þetta ætlaði aldrei að enda. Enda var farangurinn kominn þegar við vorum komin á leiðarenda.

Stebbi mágur beið eftir okkur og skutlaði okkur öllum ásamt farangri í rútunni sinni, enginn smábíll sem fjölskyldan við Hertogaveginn ferðast um á.

Guðrún Sif tók okkur fagnandi. Fengum súpu og brauð og svo horfðum ég og Stebbi á upptöku af leik Frakklands og Uruguay sem endaði með markalausu jafntefli. Komum okkur öll fyrir í húsinu fína, ég og Gyða fengum herbergi útaf fyrir okkur og stelpurnar annað herbergi hinum megin í húsinu. Allt eins flott og hugsast getur.

Brussel og París 2010