Örvitinn

Helvítis Evrópusambandið!

Hvað er svona slæmt við Evrópusambandið? Í alvöru. Ég skil ekki hvað er svona hrikalega skelfilegt. Snýst andstaðan við aðild (eða aðildarviðræður) um eitthvað annað en sérhagsmuni tiltekinna hópa á Íslandi?

Fræðið mig.

ps. Svarið má ekki innihalda vísun í svokallað "sjálfstæði þjóðarinnar" eða einhvern álíka þjóðrembing. Ég fagna öllu sem dregur úr sjálfstæði þjóðarinnar, við kunnum ekkert með það að fara. Já og Jón Valur Jensson má ekki kommenta hér. Fjandakornið, hann má ekki einu sinni lesa þetta blogg! Ef þið eruð að spá í að skrifa athugasemd um að útlendingar muni koma og veiða fiskinn okkar legg ég til að þið hugsið málið betur og ræðið við einhvern sem veit eitthvað um málið. Ég legg líka til að fólki lesi smá letrið, það er iðulega vanmetið. Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur að kvarta undan því að Evrópusambandið vilji að við gerum upp Icesave sting ég upp á snuði. Þau virka. En annars vil ég gjarnan heyra hvað í ósköpunum er svona skelfilega hrikalegt við þetta helvítis Evrópusamband. Ekki láta ykkur detta í hug að tala um að íslensk ungmenni verið skikkuð í samevróskan her. Takk fyrir.

pólitík
Athugasemdir

Eggert - 03/07/10 00:25 #

Þú gleymdir alveg hliðstæðunni í sameinaðri Evrópu 1940. UNDIR ÞÝSKALANDI NASISTA.

Lalli - 03/07/10 00:39 #

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Þórir Hrafn - 03/07/10 00:55 #

Þú þarft klárlega að horfa á myndina The Rape of Europe sem er sýnd sirka 2 sinnnum í viku á Omega.

ESB er nefnilega ríki Antíkrists...

Jón Frímann - 03/07/10 01:08 #

@Eggert, taktu þessa rugl útskýringu þína og hentu henni í ruslið.

Það er ekkert slæmt við ESB, það eru auðvitað gallar enda er heimurinn ekki fullkominn. Það eru líka gallir (og það mjög stórir) að standa fyrir utan ESB eins og íslendingar hafa fengið að kynnast frá árinu 2008 með harkalegum hætti.

Hérna eru þau svið sem ESB starfar á í dag. Þetta gildir allstaðar innan aðildarríkja ESB, og að einhverju leiti á Íslandi vegna EES samningins. Þó með öðrum hætti en innan ESB ríkjanna. Þetta er vefsíða ESB sem ég vísa í.

http://europa.eu/pol/index_en.htm

Matti - 03/07/10 09:11 #

Jón Frímann, þetta var hæðni hjá Eggert.

Jón Frímann - 03/07/10 10:57 #

Matti, ég er ekki svo viss. Ég hef séð svona oft haldið fram hjá andstæðingum ESB á Íslandi, og erlendis reyndar einnig.

Matti - 03/07/10 10:59 #

Ég er viss.

Haukur - 03/07/10 11:24 #

Tja, ef þér er alveg sama um hugsjónarök (sjálfstæði, Evrópuhugsjón o.s.frv.) þá viltu væntanlega helst skoða efnahagslega þætti.

Myntbandalagið er oft gagnrýnt fyrir að vera byggt á háleitum hugsjónum fremur en sterkum efnahagslegum rökum (sjá t.d. hundrað greinar eftir Paul Krugman).

Ég held það sé rétt sem Jón Steinsson segir að það væri þægilegt að hafa evruna þegar vel gengur en gagnlegt að hafa eigin gjaldmiðil þegar í óefni er komið. Svo er spurning hvort skiptir meira máli. Það er auðvitað ekki þægilegt að vera í björgunarvesti alla daga en ef maður er um borð í skipi sem vitað er að siglir alltaf af og til í strand þá er það kannski skynsamlegt.

En svo gætum við auðvitað gengið í Evrópusambandið án þess að taka upp evruna. Það hafa sumar þjóðir gert en af einhverjum ástæðum hefur það sjónarmið ekki átt neitt fylgi á Íslandi.

Jóhannes Proppé - 03/07/10 11:42 #

Fyrir mér eru það möppudýrin. Það er eitthvað samasem merki á milli ESB og möppudýra í hausnum á mér. Mér finnst við einhvernveginn vera með nóg af nefndum og spekingum til að skíta upp á bak fyrir, að við þyrftum varla fleiri svona spekinga að utan.

Eða svo ég vitni í hinn mikla spekin Leonard Nimoy (Þar sem hann var að lesa inn á Civ4) "The bureaucracy is expanding to make room for the expanding bureaucracy"

Annars er mér nokk sama hvort við séum að díla við samevrópska mávaræpu eða íslenska. Nema að okkur hefur tekist að koma allavega einni stjórn frá hérna heima, væri sennilega meira ves með jakkafataplebba á evrópuþingi.

Matti - 03/07/10 13:22 #

Bjúrókrasía og myntsamstarfið er eitthvað sem hægt er að ræða.

Varðandi bjúrókrasíu, þá velti ég því fyrir mér hvort sögur af því séu færðar í stílinn eða hvort virkilega sé svona mikið skrifræði í ESB, þekki það bara ekki.

Með myntsamstarfið, þá er það einmitt ágætur flötur á málinu að íslendingar hafa getað gengisfellt gjaldmiðilinn í gegnum tíðina og þannig haldið upp atvinnustigi. Spurningin er bara hverjir hafa verið að fórna einhverju og hverjir hafa grætt á þessu. Ég þekki það ekki heldur.

Hildur - 03/07/10 16:03 #

Hugmyndin um möppudýr hefur aldrei höfðað mikið til Íslendinga, enda hefur skrifræði (já eða öflug stjórnsýsla, ef þið viljið), gjarnan verið litið hornauga.

En ein af rótunum að okkar vandamálum hefur fjandakornið verið skortur á skrifræði/öflugri stjórnsýslu! Yfirvöld bankamála í Evrópu voru alltaf að setjast niður og reikna á meðan kollegar þeirra á Íslandi kýldu bara á hlutina frjálsir úr viðjum skrifræðisins.

Og fáir virðast vilja draga af þessu lærdóm.

Kristín í París - 03/07/10 17:17 #

Oh, það var einhver alveg frábær frétt í vikunni sem sýndi hvernig ESB er einmitt EKKI alveg að spila út í möppudýra-stöðlunar-rugli sem það hefur verið ásakað fyrir. Alveg týpískt að ég ætlaði svo að muna þessa frétt og vitna í hana, en get ómögulega komið því fyrir mig um hvað málið snerist.

Gunnar J Briem - 03/07/10 18:20 #

Hildur, ef þú hefðir skrifað þetta í Facebook hefði ég sett "like" á athugasemdina þína :-). Ef aðild að ESB minnkar svigrúm séníanna okkar til að véla um hluti eins og markaðsmisnotkun, Icesave, gengistryggð lán o.fl. finnst mér það sterk rök með aðild!

Jón Frímann - 03/07/10 22:01 #

@Haukur, Krónan lækkar laun fólks. Það bara gerist ekki beint eins og hjá þeim löndum sem eru með evruna sem gjaldmiðil.

Síðan verður til staðar kaupmáttarrýrnun vegna krónunar og hárra vaxta. Eins og margir íslendingar ættu að þekkja vel í dag nú þegar.

Haukur - 03/07/10 22:59 #

Ég veit ekki alveg hvað þú ert að fara, Jón. Þegar gengi krónunnar fellur minnkar kaupmáttur fólks - áttu við það? Stundum er það orðað þannig að kosturinn við gengisfall sé að það er blóðlaus launalækkun yfir línuna. Það er auðvitað ekki skemmtilegt en það er skárra en hinir möguleikarnir.

Eggert - 04/07/10 00:15 #

Fyrirgefðu, Jón Frímann. Ég var að bæta vísuninni í nasisma, sem ég hef heyrt nokkrum sinnum, við lista Matta yfir léleg rök gegn inngöngu í Evrópusambandið.

Sindri G - 04/07/10 07:00 #

út af möppudýratalinu þá hafði ESB 24.000 starfsmenn árið 2007 sem voru talsvert færri starfsmenn, en starfsmenn BBC (man ekki fjölda þeirra, en fleiri unnu sem sagt hjá BBC en hjá ESB).

(nýbúinn að lesa þessa grein frá 2007, veit ekki fjöldann í dag)

Sindri G - 04/07/10 07:22 #

Ég hef haft fremur lítinn áhuga á ESB umræðunni undanfarin ár (þó ótrúlegt megi virðast). Hér eru helstu gallarnir sem mér dettur í hug eða hef heyrt í umræðunni. Ég tek ekki undir eitt af þessum sjónarmiðum.

  1. Lýðræðishalli – framkvæmdastjórn ESB mjög valdamikill. Hún er ekki kosin af almenningi. Evrópuþingið með lítil völd, þangað er fólk kosið. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa nánast verið virtar að vettugi. (að vísu kannski ekki svo slæmur ókostur þegar maður býr í vitleysingasamfélagi – en í prinsipinu vont mál)
  2. Menn lenda í að sitja í súpunni vegna vitleysu annarra landa sbr. t.d. Grikklands málið.
  3. Mjög erfitt fyrir sumar greinar íslensks landbúnaðar að halda velli í samkeppni ef gengið verður í ESB. Hefur þær afleiðingar að lægra hlutfall af matvælum verður framleitt hérlendis. (Gott sé tekið mið af ákveðnum sjónarmiðum frjálshyggjumanna, og einnig hagfræðinga, vont fyrir fæðuöryggi, landsbyggðina og bændur, segja gagnrýnendur)
  4. Við myndum í reynd ekki vera með æðstu yfirráð yfir sjávarauðlindunum okkar. Gætum þurft að reiða okkur á undanþágur og annað sem er galli. Auðvelt fyrir skip í Evrópu að koma veiða fiskinn okkar, en við eigum erfiðara með að stofna námuvinnslufyrirtæki í fjöllunum í Evrópu svona til að nefna dæmi.
  5. Krónan er gagnleg fyrir íslenskt efnahagslíf við núverandi aðstæður. (Við reyndar fengjum hvort sem er ekki Evru fyrr en eftir áratugi skilst mér)

Sindri G - 04/07/10 07:26 #

Ég sagði: "Ég tek ekki undir eitt af þessum sjónarmiðum." Það sem ég á við er að ég tek undir öll þessi sjónarmið nema 1 (þ.e. mér finnst 4 ástæður af 5 vera góðar og gildar.)

Haukur - 04/07/10 08:50 #

út af möppudýratalinu þá hafði ESB 24.000 starfsmenn árið 2007

Árið 2007 borgaði ESB kaupið mitt eða stóran hluta af því en ég er samt eflaust ekki einn af þessum 24.000. Alltaf nóg af Evrópuverkefnum í gangi.

En ég er alveg sammála, ég held að "of margir skriffinnar" séu frekar veik rök gegn ESB-aðild fyrir Ísland.

Daníel - 05/07/10 12:43 #

Mér sýnist Sindri hafa komið með einu alvöru rökin gegn aðild hér. Þ.e. punkta sem hægt er að ræða um án ávænings um landráð. Hann segist sjálfur ekki taka undir sjónarmið 1 og ég vil aðeins benda á nokkur atriði varðandi hin.

  1. Fjalla ekki um þetta.
  2. Menn sitja nú þegar í súpunni vegna vitleysu annarra landa (sbr. húsnæðislánin í USA). Með ESB ætti að vera hægt að draga úr þessari vitleysu með sameiginlegum eftirlitsstofnunum. En vissulega er það satt að ESB gengur út á samábyrgð aðildarlandanna.
  3. Það er helst svína- og kjúklingarækt sem mun eiga erfitt uppdráttar og e.t.v. mjólkurbú. Hagur sauðfjárræktar, skógrækart og grænmetisframleiðslu mun væntanlega vænkast. Skilgreining Finna og Svía á heimskautalandbúnaði mun nýtast alls staðar á Íslandi. Styrkir til menningartengdrar atvinnustarfsemi og jaðarsvæða (landbyggðarinnar) þýðir að henni er í raun betur borgið innan ESB en utan. Lækkaður kostnaður á aðföngum, m.a. til landbúnaðar þýðir svo aukið fæðuöryggi.
  4. Þetta er rétt. Hins vegar má ætla að hugtakið heimskautaveiðar sé jafn augljóst og heimskautalandbúnaður. Íslendingar mundu væntanlega sjálfir ákveða kvóta og ráðstöfun þess kvóta sem kæmi í hlut Íslendinga (líklega allur í ljósi veiðireynslu). Hins vegar væri eflaust ekki hægt að banna erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi.
  5. Krónan er gagnleg eftir hrun vegna þess að með henni er hægt að rýra kjör almennings án þess að lækka laun í krónutölu. Ef við værum með Evruna hefði þurft að fara þá leið með tilheyrandi verkföllum og uppþotum eins og við sjáum víða í Evrópu núna. Hins vegar má ætla að með Evrunni hefði hrunið orðið minna og jafnvel að þær eftirlitsstofnanir sem fygljas með henni, s.s. seðlabanki Evrópu, hefðu jafnvel komið í veg fyrir ýmislegt sem hér viðgekkst. En í ljósi þess að það tekur mörg, mörg ár að taka upp Evruna eftir að í ESB er komið er líklega best að geyma þá umræðu þangað til ljóst er hvort aðild verður samþykkt eða ekki.

Salvar - 09/07/10 16:46 #

Vá. Vitræn umræða um ESB. Í kommentakerfi bloggs.

Ég hélt í smástund að það væri eitthvað að tölvunni.