Örvitinn

Að berja prest eða vera barinn af presti

Fyrir fimm árum spurði ég hvort það væri ekki rétt að berja presta. Ég meinti það þó að sjálfsögðu ekki bókstaflega heldur var að tjá bræði mína vegna tiltekinna skrifa sem vöktu hjá mér viðbjóð.

Ég fékk ansi sterk viðbrögð.

Nú skrifar prestur bloggfærslu sem upphaflega hét Nú langar mig að berja Brynjar Níelsson en titlinum hefur verið breytt (slóðin sýnir upphaflega titilinn).

http://blog.eyjan.is/bjarnikarlsson/2010/07/20/nu-langar-mig-ad-berja-brynjar-nielsson/

Þetta eru megin ástæður þess að þegar ég las greinina hans Brynjars Níelssonar þá langaði mig að fara og berja hann.

Hvað segir fólk þá?

Mér þykir óskaplega ósmekklegt og ósvífið hjá séra Bjarna að tengja málið við barnaklám og barnanauðganir.

Annars vakti þetta líka athygli mína:

... það er ekki gott að úthluta frelsinu að ofan eins og hann kemst svo ágætlega að orði. Siðahugsun verður alltaf vond ef hún er sett yfir mannfélagði líkt og skapalán. Siðurinn verður að koma að innan, vera meðvitað val. (Jesús frá Nasaret var mikið að tala um þetta.)

Uh, er þetta alveg rétt? Gengur kristni ekki meðal annars út á að setja fólki reglur? Hvað eru boðorðin tíu eiginlega?

kristni
Athugasemdir

Hjalti Rúnar Ómarsson - 20/07/10 17:52 #

Uh, er þetta alveg rétt? Gengur kristni ekki meðal annars út á að setja fólki reglur? Hvað eru boðorðin tíu eiginlega?

Þetta er alveg hárrétt hjá honum, Jesús var sammála öllu því sem Bjarni Karlsson skrifar.

Sindri G - 21/07/10 17:16 #

Lykillinn af því að vera frjálslyndur prestur, er að vera ósammála sem flestu af því sem Jesús sagði.

Carlos - 23/07/10 05:47 #

Það er munur á því að langa eitthvað og gera það, Matti. Auk þess tókstu tilvísunina úr samhengi, leyfi mér að setja það hér í athugasemdakerfið:

Þetta eru megin ástæður þess að þegar ég las greinina hans Brynjars Níelssonar þá langaði mig að fara og berja hann. Þegar valdamikill karlmaður í virtri þjóðfélagsstöðu leyfir sér að skrifa eins og hann skrifar og tala um vændi sem frjálst val þeirra sem það stunda, þá er hann að auka á ófrelsi og óöryggi kvenna og barna. Ég veit vel að Brynjar Níelsson er hinn vænsti maður því svo vill til að ég er málkunnugur honum og hef af honum gott eitt að segja. Ég veit að hann myndi aldrei vilja vinna neinum manni tjón. En þessi skrif hans eru ekki bara óskynsamleg heldur eru þau í eðli sínu hættuleg árás á konur og börn og ég hvet hann til þess að opna augun, skynja ábyrgð sína og koma sér upp úr þessu feni.

Matti - 23/07/10 08:40 #

Hvaða máli skiptir sá munur í þessu samhengi þar sem ég ber saman viðbrögð fólks við mínum skrifum og svo skrifum prestsins?

Auk þess tók ég ekkert úr samhengi þar sem þetta er bloggfærsla og ég vísaði á skrifin sem ég var að vitna í .

Auk þess hélt ég að þér þætti nákvæmlega ekkert athugavert við að taka skrif manna úr samhengi :-)

Ég hefði kannski átt að hafa þetta svona:

Þetta eru megin ástæður þess að þegar ég las greinina hans Brynjars Níelssonar þá langaði mig að fara og berja hann ... hann [er] að auka á ófrelsi og óöryggi kvenna og barna .. hann myndi ... vilja vinna ... manni tjón. En þessi skrif hans eru ... hættuleg árás á konur og börn og ég hvet hann til að ... koma sér upp úr þessu feni.