Örvitinn

Köttur og bílaþjófur

Vísir segir frá því að bifreið sem stolið var um daginnkomin í leitirnar.

Frásögnin af þjófnaðinum vakti athygli mína því þar segir að ekki hafi vilja betur til en að "þegar Kristrún hleypti kettinum sínum út til að pissa að einhver óprúttinn aðili fór inn í íbúðina hennar og stal bíllyklunum að bílnum hennar og ók honum í burtu". Einnig kemur fram að þjófurinn hafi bara tekið bíllyklana en ekki veski og annað sem var "ekki langt undan".

Nú ætla ég að vera dálítið skeptískur. Mér þykir miklu sennilegra að konan hafi gleymt lyklunum í bílnum sínum. Morgunin eftir finnur hún ekki lyklana á sínum vanalega stað, sér að bílinn er horfinn og dregur þá ályktun að einhver hafi brotist inn til að stela lyklunum.

Ég held semsagt að kötturinn sé alsaklaus í þessu máli. Minni okkar er brigðult og oft erum við sannfærð um að hafa lagt hlutina frá okkur á vissan stað en finnum þá síðar á allt öðrum. A.m.k. hef ég lent í því oftar en einu sinni.

ps. Ég útiloka alveg að konan hafi einfaldlega verið að skálda söguna til að líta betur út gagnvart tryggingafélagi. Efast um að þú fáir tjónið bætt ef þú gleymir lyklum í bíl.

Ýmislegt
Athugasemdir

Kristján Steinarsson - 23/07/10 09:52 #

Þú ert ekkert betri en gula pressan og amx með því að gefa í skin að annað hafi gerst án þess að hafa sönnun.

Matti - 23/07/10 10:07 #

Finnst þér sennilegt að þjófur hafi farið inn í íbúðina, stolið lyklum en skilið veskið eftir?

Er ekki sennilegra að hún hafi einfaldlega gleymt lyklunum úti í bíl? Það er eitthvað sem gerist reglulega.

Ég útiloka ekki fyrri möguleikann en mér þykir hinni líklegri.

Haukur Logi - 23/07/10 15:42 #

Já þetta kann að hljóma ótrúlegt og ég mundi hallast að útskýringu þinni ef það væri ekki fyrir það að móðir mín lenti í mjög svipuðu atviki í fyrra. Brotist inn um hábjartan dag og engu stolið nema bíllyklum. Síðar fannst bíllinn óskemmdur með lyklunum og öllu í.