Örvitinn

Hermessa

Undirbúningurinn undir það að slátra fólki fer alltaf fram í guðs nafni, eða réttara sagt: í nafni einhverrar æðri veru sem maðurinn hefur af hugkvæmni sinni búið sér til.
Áður en Fönikar hinir fornu skáru fanga á háls héldu þeir hátíðlega guðsþjónustu á sama hátt og nýjar kynslóðir mörgum öldum seinna, áður en þær réðust gegn óvinum sínum með eldi og vopnum. Mannæturnar á Guinea-eyjum færðu guðum sínum fórnir og sungu messur á sínu máli áður en þeir lögðu sér til munns saklausa trúboða, ferðamenn eða kaupmenn. Þar eð skreytingarlistin var ekki orðin þeim töm skreyttu þeir lærin á sér með marglitum fjöðrum skógarfugla.
Áður en hinn heilagi rannsóknarréttur brenndi fórnardýr sín á báli hélt hann hátíðlegar guðsþjónustur með tilheyrandi helgisiðum og söng. Við aftökur dauðadæmdra manna hafa prestar jafnan verið nærstaddir og þjakað hinn seka með nærveru sinni.
Í Prússlandi leiddi prestur hina seku undir öxina, í Austurríki leiddi kaþólskur prestur þá til gálgans, í Frakklandi undir fallöxina, í Ameríku til rafmagnsstólsins, á Spáni leidi klerkur þá til sætis á haglega gerðum stóli þar sem þeir voru kyrktir, og í Rússlandi leiddi skeggjaður pápi hina byltingarsinnuðu til aftökustaðarins.
Hið mikla sláturhús heimsstyrjaldarinnar gat ekki þrifist án blessunar prestastéttarinnar. Prestar allra herja þuldu bænir og sungu messur til sigurs þeim flokki sem veitti þeim brauð. Við tvenns konar tækifæri var haldin hermessa. Þegar herdeildirnar lögðu af stað að heiman út á vígvöllinn, og að baki vígvallarins rétt áður en sláturtíðin hófst. Ég man eftir því að óvinaflugvél komu einu sinni þegar verið var að halda síka messu og sendi sprengju beint niður á altarið. Af herprestinum var ekki annað eftir en blóðugar tætlur. Því næst var skrifað um hann sem píslarvott meðan verið var að búa flugvélar út til þess að gera herpresti óvinanna sams konar glaðning. Við höfðum mjög gaman að þessu og á krossinn, sem til bráðabirgða var stungið niður þar sem leifarnar af prestinum höfðu verið grafnar, var skrifuð eftirfarandi grafskrift nóttina eftir:

Það sem oss var ætlað gekk ekki á bug við þig.
Um yndi Paradísar varstu að hrína,
er sprengjukorn eitt lítið kom og lét þig reyna sig
og leyfði sér að trufla messu þína.

Ævintýri góða dátans Svejks eftir Jaroslav Hasek, Karl Ísfeld þýddi.

bækur kristni
Athugasemdir

frelsarinn - 02/08/10 01:14 #

Þetta er einstakur gullmoli.