Örvitinn

Frábært á Einari Ben

Fyrir rúmum tveimur vikum fórum ég og Gyða ásamt Jónu Dóru systur minni á Einar Ben. Fyrir ekki svo löngu fórum ég og Gyða tvö þangað og vorum mjög ánægð, fengum þá tilboð með fjórum réttum og fjórum vínum. Ég kann vel við svoleiðis tilboð, gaman að smakka vín sem passa með hverjum rétti og svo verður maður (og kvenmaður) hóflega hífaður.

Í þetta skipti ákváðum við að fá okkur stolt matreiðslumannsins (7.990,-) þar sem kokkurinn sér um að velja réttina. Mér finnst miklu skemmtilegra að fá marga rétti þegar ég fer út að borða, þegar maður vel einn veit maður oft ekki hver útkoman verður, með safni rétt hef ég aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Maður smakkar eitthvað fjölbreytt og yfirleitt eru kokkarnir að nota besta hráefnið sem þeir geta fengið.

Við bárum fullt traust til kokksins og fengum fimm frábæra rétti.

jonadora_og_gyda_a_einari_ben.jpg
Af hverju voru stelpurnar að hlæja að mér á Einari Ben?

Fyrst fengum við hrámarineraðar sneiðar af hrefnu í súraldin, eldpipar og sölvadressingu, óskaplega gott. Svo kom hægelduð bleikja með kartöflu- og jarðskokkaköku, hrognum og léttsýrðu blómkáli, frábær samsetning - hrognin voru upplifun! Þar á eftir þorskhnakki borinn fram með kartöfluteningum, gljáðum lauk og múskatfroðu og svo loks folaldalund með gráðaosta- og jarðsveppagnocchi, steiktu spínati og portvínssósu. Lundin bókstaflega bráðnaði í munni, glæsilegt kjöt sem ég væri alveg til í að borða aftur og aftur. Á eftir kom svo eftirréttaþrenna, meðal annars afskaplega góð súkkulaðikaka.

Þar sem ég kannast aðeins við kokkinn voru skammtarnir í stærra lagi sem olli því að við vorum óskaplega södd eftir mat, meira að segja ennþá þegar við fórum heim klukkan þrjú um nóttina.

Í þessi tvö skipti sem ég hef farið á Einar Ben í sumar hef ég verið afskaplega ánægður með matinn og þjónustuna. Mæli því hiklaust með staðnum. James Randi og aðstoðarmaður hans voru líka gríðarlega sáttir þegar þeim var boðið þangað í sumar og ekki rökræðir maður við James Randi!

Reikningur kvöldsins fyrir okkur þrjú með einum bjór (800,-) og einni rauðvín (6.950,-) var 31.730,- krónur.

Það eina sem ég geri athugasemdir við er verð á léttvínum. Mér finnst óskaplega leiðinlegt að sjá hvað allir almennilegir veitingastaðir á Íslandi eru búnir að hækka verð á léttvínum mikið - mun meira en hækkanir á innkaupsverði gefa tilefni til.Mér finnst vínverð vera of hátt á betri veitingastöðum á Íslandi

Já, ég kannast við annann kokkinn, ég var búinn að segja það!

veitingahús
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 08/08/10 13:51 #

Þetta voru reyndar ósköp venjulegar skammtastærðir hjá mér. Eina sérmeðferðin sem þú fékkst var að fá folaldið í aðalrétt, en það er frekar spari, sem og ég leyfði nemanum að missa sig aðeins í desertunum.

Málið er að ég hef folaldið voða sjaldan í fimmrétta, og því er það allt skammtað í venjulegar stærðir og ég sá engan tilgang í að senda ykkur hálfa skammta og sitja svo uppi með steikarstubba.

En vínþjónninn vildi koma því að, að hann hefur ekki hækkað verð á léttvínum síðan fyrir síðustu jól og það var ekki laust við að hann væri pínu sár yfir þessu vínverðakommenti.

Matti - 09/08/10 20:36 #

Maturinn var a.m.k. frábær. Ég strikaði yfir að verð hefði hækkað enda hef ég ekki samanburð. Veit bara að ég er eiginlega hættur að tíma að kaupa mér léttvínsflösku á betri veitingastöðum landsins.

Jóhannes Proppé - 10/08/10 00:03 #

Flestir betri veitingastaðir sem bjóða upp á smakkseðla bjóða uppá vínglas parað við hvern rétt. Ég er vanur að gera þau kaup, enda fær maður bæði að reyna á hæfileika kokksins og vínþjónsins. Þar að auki fær maður að smakka meiri fjölbreyti en þegar maður kaupir sér staka flösku.

Matti - 10/08/10 08:07 #

Algjörlega sammála, 4+4 dæmið sem við fengum fyrri í sumar á Einari Ben var einmitt alveg frábært.