Örvitinn

Flottasta húsið á Hvammstanga

Hús Eika og OddnýjarVinir mínir Eiríkur og Oddný sem búa á Hvammstanga standa í stórframkvæmdum og eru að byggja við húsið sitt. Um helgina mættum við vinirnir á staðinn til að aðstoða.

Ég hafði ekki hugmynd um hversu stórt þetta er, bjóst við smá viðbyggingu en þau eru að tvöfalda húsið og rúmlega það. Mega alveg við því, hafa búið frekar þröngt síðustu árin, eru sex í heimili auk hundar, kattar og landnámshæna en hænurnar hafa reyndar sér hús. Húsið er byggt árið 1906 og viðbyggingin er í sama stíl, afskaplega smekklegt. Staðsetningin við sjóinn og útsýnið er mjög skemmtilegt. Þetta verður sannkallað draumahús þegar framkvæmdum er lokið.

Við tókum semsagt þokkalega á því um helgina. Settum gólfplötur á efri hæðina og steinull á alla veggi, plöstuðum áður en við héldum í bæinn í gær.

Þegar við vorum ekki að vinna fengu menn sér dálítið öl, tóku í spil og átu dálítið. Kíktum svo á knæpuna á laugardagskvöldi.

Afskaplega fín helgi en ég verð að játa að ég er dálítið uppgefinn.

dagbók