Örvitinn

Þróun háskólanáms og tölvuleikja

Þegar ég var í háskólanámi á árunum 1994-1998 var internetið frekar ungt og fólk eyddi mismiklum tíma hangandi á netinu. Sumir misstu sig þó aðeins og í tölvunarfræðinni voru fáeinir sem eyddu ótæpum tíma í að spila svokallaða mud leiki í Vetrargarði. Menn sátu þá inni í tölvustofu tímunum saman og skrópuðu jafnvel í fyrirlestur meðan þeir vöfruðum um sýndarheima í textaformi. Í einhverjum tilvikum held ég að þetta hafi frestað útskrif um einhver ár. Svo eyddi fólk miklum tíma á ircinu eða í spjalli með talk, svona eins og gengur og gerist. Þetta var áður en messenger varð til.

Nú, fáeinum árum síðar* spila nemendur ekki mud í tölvuverinu heldur dunda þeir sér í tölvuleikjum og á Facebook í miðjum fyrirlestri. Ég verð að játa að ég missti næstum andlitið þegar ég sá að náunginn við hliðina á mér í seinni fyrirlestri dagsins var að spila Eve online (varúð, myndband með hljóði fer í gang) nær allan tímann.

Ég held að mudið hafi verið skárra og ég held að mörgum myndi ganga betur í tímum ef þeir hefðu slökkt á ferðatölvunni.

*Já, ég þjáist af afneitun. Nei, ég spilaði aldrei mud leiki. Eyddi aftur á móti alltof miklum tíma á netinu. Ég ætla svo ekki að rifja upp frásögur af þeim sem eyddi ótæpilegum tíma í að safna klámi inni í Vetrargarði!

Ýmislegt
Athugasemdir

Jonni - 30/08/10 13:53 #

Ég er hræddur um að þú hafir rétt fyrir þér, ég las þessa færslu í tíma í HÍ.

Matti - 30/08/10 13:59 #

Hehe :-) Ég kíkti bara á netið í frímínútum (kallar maður það enn frímínútur í háskóla?)

Sindri G - 30/08/10 14:10 #

Gallinn er að maður tekur þennan ávana með sér úr náminu og yfir í vinnuna.

Mummi - 30/08/10 14:14 #

Enginn þorir að mótmæla Sindra fyrr en eftir kl fjögur ;)

Jón Magnús - 30/08/10 14:40 #

Ég reyndi nú við muddið en fattaði fljótt að ef ég ætlaði að ná prófunum þá væri best að láta það vera.

Ég man að ég eyddi þvílíkum tíma í Duke Nukem og DOOM I/II í tölvunarfræðinni.

Að falla í skóla vegna þess að þú ert klámfíkill er frekar dapurt, enda fékk þessi einstaklingur viðeigandi forskeyti fyrir framan nafnið sitt...

Mummi - 30/08/10 15:50 #

Já, Duke Nukem og Doom i/ii vógu harðlega að árangri mínum í tölvunarfræðinni, en það hafðist.

Ég var nú í námi á sama tíma og þið en man ekki eftir þessum klámfíkli. Svona er maður fljótur að gleyma; nú er ekki eins og það sé langt um liðið síðan við vorum í námi!

Matti - 30/08/10 17:55 #

Klámfíkillinn sat á aftasta bekk í tölvuherberginu í Vetrarhöllini og hlóð niður gríðarlegu magni kláms. Nú ætla ég ekki að gagnrýna nokkurn mann fyrir að hafa gaman að smá klámi en þetta var dálítið öfgakennt hjá honum.

Ég man aðallega eftir að hafa spilað Age of empires, en svo var ég eitthvað að rökræða á internetinu (byrjaði snemma á því) og svo eyddi ég alltof miklum tíma í að læra eitthvað sem ég átti ekkert sérstaklega að læra (sbr. C++ forritun fyrir Windows). Eyddi einnig miklum tíma á Bókhlöðunni að lesa tímarit og dagblöð.

Skrítið að ég hafi ekki klárað á sínum tíma :-)

Arnar - 31/08/10 11:58 #

Hey.. var Hilmar Veigar ekki forfallinn muddari?

Þið eigið sko eftir að grenja úr öfund þegar ég verð búinn að koma brilliant hugmyndinni minni í gang og orðin mold ríkur.. þarf bara aðeins að kíkja í muddið fyrst.