Örvitinn

Árekstur

breidholtsbraut_skogarsel.pngÉg er ósköp feginn að liðið var á Yaris en ekki Landcruiser.

Skaust heim í hádeginu til að sækja myndavélina. Á bakaleiðinni lenti ég á rauðu ljósi (eins og vanalega) á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Seljaskógar. Þegar græna kom ók ég ósköp rólega af stað (var í ytri beygjunni, stór jeppi vinstra megin við mig í innri beygjunni). Þegar ég var kominn vel út á gatnamótin gall flautan og áður en ég viss af hafði bíll ekið inn í hliðina á mér, þó ekki beint þar sem ég var um hálfnaður í beygjunni þegar árekstur varð.

Ég skokkaði út, athugaði hvort það væri í lagi með fólki í Yarisnum. Þau voru fjögur og kenndu sér ekki meins fyrir utan bílstjórann sem fann eitthvað til.

Steve varði vitni að þessu, stoppaði til að segja mér að hann hefði séð allt. Ók við hlið Yarisins á Breiðholtsbraut og hjó eftir því að Yarisinn fór víst afskaplega glannalega áður en hann kom að ljósunum. Steven benti mér á að ökumaður Yarisins virtist í annarlegu ástandi og angaði af áfengi. Ég hringdi í lögguna og reyndi að hafa sem minnst afskipti af hinum bílstjóranum sem vildi fylla út tjónaskýrslu.

Lögreglan kom eftir smá bið og sá um skýrslugerð. Samkvæmt þeim var ökumaðurinn ekki undir áhrifum áfengis. Hver veit með annað.

Það eru ekkert rosalega miklar skemmdir sjáanlegar á mínum bíl. Höggið kom fyrst og fremst á framdekkið, álfelgan er ónýt, eitthvað sér á listum og lakki. Stuðarinn skaust svo af. Þar sem höggið kom á hjólabúnað ákváðum við að láta draga bílinn - maður veit ekki hvað hefur skemmst við svona högg. Vonandi hafa ekki orðið verulegar skemmdir á hjólabúnaði.

Skemmdir á bíl eftir árekstur

Yarisinn var ekki ökufær þó skemmdir á honum virtust ekki mjög miklar og var líka dreginn. Þegar bílstjórinn frá Krók settist í Yarisinn til að koma honum í drag fann hann opna bjórdós sem lá fyrir framan bílstjórasætið!

Báðir bílarnir eftir áreksturinn

Ég er kominn á bílaleigubíl, lítinn Suzuki sem verður að duga næstu daga. Hann er nú frekar lítill en við erum ekkert á leiðinni í bústað á næstunni hvort sem er.

Ég vona bara að tryggingarnar vinni hratt í þessu. Yarisinn er tryggður hjá VÍS en ég er með allt mitt hjá Sjóva.

Svo þarf ég að muna að það er ekki nóg að sjá grænt ljós á þessum gatnamótum, maður þarf líka að tékka á því hvort einhverjir brjálæðingar séu á leiðinni. Þarna verða ansi margir árekstrar.

ps. Þau voru víst öll að koma úr meðferð og á leiðinni í bæinn að skemmta sér.

dagbók
Athugasemdir

Pétur - 08/10/10 16:09 #

Mér hefur alltaf fundist það ágætis þumalputtaregla í umferðinni að gera ráð fyrir þeim möguleika að allir aðrir en ég séu geðveikir. Auðvitað eru ekki allir það, en merkilega finnst mér það samt vera hátt hlutfall miðað við mína reynslu.

Pétur - 08/10/10 16:11 #

Svo má við bæta að það hefur komið fyrir mig að vera einn af þessum geðveiku. Ég keyrði á í síðustu viku, algjörlega mér að kenna, og ég skil ekki ennþá hvernig mér tókst að sjá ekki að bíllinn fyrir framan mig stoppaði.

Bragi Skaftason - 08/10/10 16:18 #

Ef þig vantar hjálp varðandi tryggingafélögin þá hikarðu ekki við að hringja.

Henrý Þór - 08/10/10 17:06 #

Gott að enginn skyldi meiðast!

Myndi passa mig á að hafa allt á hreinu í samskiptum við VÍS. Ég lenti í mínum fyrsta árekstri við bíl með tryggingu frá VÍS þegar ég var 17 ára. Ég var í 100% rétti, og valdi að fá dagpeninga meðan gert var við minn bíl og taka strætó á meðan.

En svíðingarnir ákváðu að láta mig bara hafa dagpeninga fyrir þann dag sem það tók að bolta nýja hurð á bílinn, og báru fyrir sig að þeir þyrftu ekki að greiða dagpeninga fyrir þann tíma sem beðið er eftir varahlutum. The fuckers..

Kristinn Snær - 08/10/10 18:05 #

ertu ekki að djóka með að þau hafi verið að koma beint úr meðferð? með opinn bjór í bílnum og allt það?

Á hvaða aldri var þetta lið?

Matti - 09/10/10 00:23 #

Þau voru á bilinu 25-35 held ég. Stundum erfitt að sjá það á svona liði, lítur oft út fyrir að vera eldra en það er - orðið sjúskað.