Örvitinn

Dóttir mín og Gídeon

Kolla með Nýja testamentið

Gídeon-karlar komu í heimsókn í Ölduselsskóla um daginn og færðu öllum krökkum í fimmta bekk Nýja testamentið að gjöf. Um leið og þeir gáfu börnunum bókina sögðu þeir þeim að hana ættu að lesa þegar þau væru leið. Sögðu að börnin myndu eiga þessa bók lengi, bentu þeim á að athuga hvort að amma og afi ættu svona bók og hvort bókin hefði eitthvað breyst. Þeir kynntu félagið Gídeon fyrir börnunum. Lásu fyrir þau úr Nýja testamentinu, sögðu þeim hvar Faðirvorið var að finna (bls. 10). Svo leiddu þeir bekkinn í bæn, allir þuldu Faðirvorið.

Kolla er búin að glugga aðeins í bókina. Þykir hún leiðinleg. Ég mun hvetja hana til að lesa hana eftir nokkur ár.

Þessi bloggfærsla var skrifuð með aðstoð Kolbrúnar Matthíasdóttur. Vert er að taka fram að foreldrar Kolbrúnar hafa aldrei verið spurðir álits á þessum gjörningi. Bókin inniheldur Nýja testamentið og tvö rit úr Gamla testamentinu; Sálmana og Orðskviðina.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Þórður Ingvarsson - 23/10/10 12:35 #

Sumt firrt fólk mundi segja að þessi færsla er í raun "falleg".

Tryggvi R. Jónsson - 23/10/10 12:59 #

Og maður spyr sig er þetta trúboð? Svarið virðist mjög afstætt, þeir sem hafa þessa trú telja þetta ekki trúboð en aðrir virðast á annarri skoðun. Kannski er þetta svipað eins og með afstöðu "heiðingja" til Krossferðanna? Í augum sumra var það jú bara mjög fallegt trúboð... (yfir strikið?)

Eva Hauksdóttir - 23/10/10 16:56 #

Væri það pólitískur áróður ef ég færi í skólana og gæfi börnunum Dansað á ösku daganna og segði þeim að lesa hana þegar þau eru glöð og segði þeim svo sögu anarkistahreyfingarinnar í leiðinni?

Lalli - 24/10/10 07:35 #

Spara eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann, þótt þú sláir hann með vendinum. Þú slær hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju. Okv.23.13-14

Ég man ekki eftir því að Orðskviðirnir hafi verið í minni útgáfu...

Arnold - 24/10/10 17:34 #

Sonur minn fer í 5. bekk á næsta ári. Verði hann látinn fara með bænir undir leiðsögn Gideonmanna mun ég kæra það til lögregglunnar enda er þetta brot á ymsum lögum, reglum, siðareglum og alþóðlegum mannréttindasáttmálum. Ég mun líka fara með bókina og skila henni til skólastjóra. Það er til biblía á heimilinu sem hann getur gluggað í þegar hann hefur áhuga til.

Matti - 24/10/10 19:58 #

Þetta er nú orðið dulítið þreytandi þegar endurtaka þarf allt 100 sinnum.

Trúboð er ekki stundað í skólum Valgerður.

Enginn vill trúboð í skólum.

Svo mælir séra Þórhallur Heimisson.

Ásgeir - 24/10/10 20:57 #

Er Þórhallur að ljúga þessu eða veit hann ekki betur? Vill hann kannski bara ekki vita betur?

Matti - 24/10/10 20:59 #

Hann lýgur.

Mummi - 24/10/10 23:04 #

Þórhallur hefur skilgreint trúleysi sem trú. Þú ert "trúaður" ef þú trúir því að sólin rísi á morgun. Allir eru þannig trúaðir. Þar sem allir eru trúaðir getur varla verið trúboð. Þannig held ég að Þórhallur hafi náð að skilgreina sig fimlega framhjá þessu - amk í eigin huga.

Nonni - 25/10/10 13:34 #

Við eigum son í 5. bekk í Reykjavík. Foreldrar voru látnir vita og beðnir um álit sitt á heimsókn Gídeonsfélagsins. Við konan mín skrifuðum bréf til kennara og skólastjóra um að okkar álit væri að Gídeon væri fyrst og fremst trúboðsfélag og að trúboð ætti ekki heima í skólum. Var tekið vel í það, en heimsóknin fór þó fram.

Það er skemmtilegt frá að segja næg umræða myndaðist milli foreldra og barna til að 8-10 af 25 nemendum í bekknum ákváðu að taka ekki við bókinni.

Matti - 25/10/10 14:38 #

Las um það á Facebook. Frábært hjá krökkunum :-)

Fjalar - 02/11/10 13:32 #

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið. Þeir höfðu svo samband við mig og sögðu mér að í þessu tilviki hefði verið flett upp á Faðir vorinu í Nýja testamentinu og það LESIÐ saman. Hvort sem okkur finnst það eðlilegt eða ekki er það hluti af aðalnámskránni að þekkja Faðir vorið og því vandséð að Gídeonmenn hafi brotið af sér á nokkurn hátt enda voru kennarar bekkjarins hafðir með í ráðum. Gaman væri að menn vönduðu málflutning sinn og gættu þess að fara með rétt mál áður en svona staðhæfingar eru settar fram.

Matti - 02/11/10 13:37 #

Í fyrsta lagi, þá er afar fín lína á milli þess að "lesa saman" bæn og að fara saman með bæn. Getur þú útskýrt muninn í stuttu máli? Þykir þér eðlileg að trúmenn frá Gídeon lesi bæn með börnum í grunnskóla?

Í öðru lagi, þá trúi ég ekki einu orði af því sem Gídeon menn segja um málið. Þeir segjast sjálfir vera að boða kristni. Líttu á heimasíðuna þeirra, hvað er sérstaklega sett fram á forsíðu:

Markmið Gídeonfélagsins er að færa hinum týndu von fyrir náðarverk Jesú Krists. Okkar einstaka leið til að ná þessu markmiði er að koma orði Guðs í hendur fólks á sem flestum aldursskeiðum þess.

Í þriðja lagi. Hver ert þú?

Hvort sem okkur finnst það eðlilegt eða ekki er það hluti af aðalnámskránni að þekkja Faðir vorið

Kennarar sjá um þá kennslu, ekki trúfélagið Gídeon.

...sögðu þeir þeim að hana ættu að lesa þegar þau væru leið

Hvað kallarðu þetta?

Gaman væri að menn vönduðu málflutning sinn og gættu þess að fara með rétt mál áður en svona staðhæfingar eru settar fram.

Ertu að segja að ég og dóttir mín höfum verið að segja ósatt? Ef svo, skaltu koma hér fram undir réttu nafni. Athugasemd þín verður fjarlægð nema rétt nafn eða auðkennandi póstfang komi fram.

Matti - 02/11/10 13:48 #

Skjámynd af heimasíðu Gídeon.

Matti - 03/11/10 11:10 #

Merkilegt að Fjalar virðist alveg horfinn. Ekki var þetta sami Fjalar og verið hefur formaður Gídeon! Nei, það væri fáránlegt :-)

Einar - 09/11/10 12:32 #

Alveg merkilegt hve prestar og gídeonmenn sækja í grunn- og leikskóla.

Finnst þessum aðilum ekki eð'lilegra að kynna þessa trú sína fyrir fólki sem komið er til vits og ára, sem skilur um hvað trúarbrögð snúast.

Á þessum aldri trúa börn því sem fyrir þau er lagt hvað sem það er.

Kristileg innræting og trúboð á að halda frá leik og grunnskólum.

Vona innilega að mannréttindaráð bakki ekki með þessar góðu tillögur sínar og að þær verði að veruleika. Gagnrýni öfgatrúmanna á ekki neinu að breyta.