Örvitinn

Gylfi og Sáli

Varúð, þetta er fáránlega löng og leiðinleg bloggfærsla sem einungis örfáir munu hafa gaman af að lesa.

Þrasið

Eins og flestir sem slysast inn á þetta blogg vita á ég það til að þrasa á veraldarvefnum. Það mætti alveg halda því fram að þrasgirni mín jaðri við að vera sjúkleg.

Fyrir rúmu ári var ég að rökræða á moggabloggsíðu Ólafs í Hvarfi um Vantrú og fleira. Þetta voru dálítið dæmigerðar umræður þar sem Ólafur og fleiri trúmenn héldu því fram að Vantrú væri félag fasista sem vildu afnema trúfrelsi. Ég á að vita betur en reyndi að malda í móinn, vísaði á lög félagsins og gerði mitt besta til að sýna fram á að þeir væru að snúa gróflega úr lögum og málflutningi félagsins.

Gylfi Gylfason

Í miðjum umræðum mætti Gylfi Gylfason á svæðið og hóf að drulla yfir Vantrú. Eins og sést af því sem ég afritaði úr umræðunni reyndi ég fyrst afskaplega kurteisilega að fá hann til að færa rök fyrir fullyrðingum sínum án árangurs. Ég verð að játa að ég varð fljótt pirraður á Gylfa en tek fram að samtal okkar var bara hluti af löngu samtali þar sem fleiri komu við sögu og stöðugar dylgjur um fasisma og skoðanakúgun höfðu verið settar fram. Eftir að hafa karpað við Gylfa í nokkurn tíma afritaði ég samtal okkar í bloggfærslu og lýsti því yfir að við þennan mann vildi ég ekki eiga viðskipti.

Þessi bloggfærsla mín hefur valdið því að Gylfi elskar mig ekki. Hann hefur ítrekað skrifað um mig, meðal annars dylgjað um að ég stundi skemmdarverk. Ég hef reynt að leiða þetta hjá mér en hef þó komið að leiðréttingum þegar Gylfi dylgjar um mig í athugasemdum hjá öðrum.

Sumir hafa verið afskaplega ósáttir við bloggfærslu mína um Gylfa og fyrirtæki hans, finnst að ekki megi færa rifrildi af netinu yfir í raunveruleikann. Ég er einfaldlega ósammála því. Ef fyrirtækjaeigendur drulla yfir mig, hvort sem það er á netinu eða öðrum vettvangi, áskil ég mér rétt til að segja frá því hér á bloggsíðu minni.

Sáli endurholdgaði

Fyrir tveim vikum var ég að lesa bloggfærslu hjá Kristni og slysaðist til að þrasa eitthvað örlítið við hina afar kristnu Lindu. Eins og trúmanna er siður ásakaði hún mig um að vera alltaf ógurlegur durgur! Ég mundi ekki efir að hafa verið dónalegur við hana og ákvað að rifja upp fyrri samræður okkar. Googlaði á moggabloggi og endaði á færslu hjá Guðsteini. Sú færsla er ekki í frásögur færandi en þar var athugasemd sem vakti athygli mína:

Ég hef nú áður minnst á sértrúarsöfnuðinn Vantrú sem illa skipulagðan illmælgisklúbb sem rífi meira niður í umhverfi sínu en hann nái að byggja upp innan eigin raða og það þarf ekki mikinn tölfræðispeking til að sjá að aðdáendahópur Vantrúar nái ekki einu sinni vinsældastærð Gunnars í krossinum.

Talandi um starfstengdan árangur þá er Matti dálítið eins og sölumaðurinn síblaðrandi sem engum selur eitt eða neitt en samt er hann alltaf að selja sannleikann

Haturkenndur klúbbur? Ef Vantrú myndi læra að sýna snefil af virðingu gagnvart annara manna vali á trúarstefnu eða trúarheimspeki þá væri staða hans kannski marktækari, eða marktæk yfirhöfuð?

Gleðilega páska Guðsteinn. Mínir páskar eru kannski ekki trúarlegir eins og þínir en við fylgjum okkar rétti sem menn til að eiga okkar skoðanir, hvort sem Mattar þessa heims þoli valfrelsi okkar eða ekki.

Sáli, 6.4.2009 kl. 22:47

Ég og Sáli höfðum háð nokkrar ansi harðar rimmur á netinu og því ekki skrítið að hann skrifi með þessum um mig og Vantrú. Í athugasemdinni var vísun á bloggfærslu hans um Vantrú en færsluna er búið að fjarlægja. Eins og sést í athugasemdum hjá Guðsteini var ég ekkert að kippa mér neitt sérstaklega upp við þetta, benti fólki einfaldlega á að lesa umræðuna hjá Sála. Ég mæli reyndar ekkert sérstaklega með þessum umræðum hjá Guðsteini, athugasemd Sála er það eina sem skiptir máli í þessu samhengi.

Þessi ásökun um hvað ég væri lélegur markaðsmaður var kunnugleg. Mér fannst ég hafa séð svona skrif áður frá einhverjum öðrum.

Hvílík brakandi snilld Matti en þú ert jú leiðtogi yfir örsöfnuði sem hefur afrekað að standa svo algjörlega í stað í félagatali eftir er tekið. Innan trúflokksins er þetta víst kallað stöðugleikamerki hleraði ég.

Þetta er náttúrulega frábær markaðsmennska hjá þér að afreka að láta rödd þína heyrast svona víða en safna svo litlu fylgi um leið. Markaðslega bendir þetta til leiðtogakreppu, eða hugmyndafræðilegrar kreppu.

Þetta skrifaði Gylfi Gylfason semsagt þegar við rifumst hjá Ólafi og sama stef endurtók hann nokkrum sinnum eftir það.

Sáli skrifaði einnig:

Verst Matti minn að þú ert ekki að fatta að ég er bara að spila með þig til að láta þig sýna þitt rétta andlit.

Þú verður alltaf jafn heiftugur þegar ég gagnrýni litla drullukasts-klúbbinn þinn sem skartar þröngri heimssýn og yfirborðskenndum og haturskenndum áróðri gagnvart fólki með frjálsan hug og frjálst val í sinni andlegu leit.

Gylfi og Sáli

Þegar ég rakst á þessi skrif skellti ég athugasemd inn á lokað spjallsvæði félagsmanna í Vantrú og setti fram þá tilgátu að Sáli væri Gylfi Gylfason. Þar skrifaði ég:

Ekki er Sáli sami maður og Gylfi Gylfason? Ég man að Sáli var líka að berjast við að hætta að reykja, en þetta blaður um sölumennsku og lélegan árangur minn í því er akkúrat eins og þvaður Gylfa.
...
Eflaust er þetta bara tilviljun, en mér varð hugsað til Gylfa Gylfasonar þegar ég las þetta yfir núna :-)

Ég var orðinn ansi forvitinn og las yfir bloggsíðu Sála. Reyndar er Sáli/Gylfi búinn að eyða út einhverjum færslum en Google geymir ýmislegt. Ég skrifaði þetta á spjallið:

Af google, búið að eyða af síðunni.

Fyrirtækið mitt blómstrar líka og líf mitt er óðum að færast í fasa sem ég hef beðið...
Þetta er næstum örugglega Gylfi Gylfason.

og skömmu síðar:

Gylfi og Sáli nota báðir orðið "trúarsannleika". Sáli talar einnig um búðarborðið og viðskiptavini.

Ég er núna 100% viss um að Gylfi og Sáli eru sami maðurinn.

Lokanaglinn var þó þessi:

Orðið "trúarneytendum" kemur fyrir á þremur moggabloggum. Hjá Sála, hjá Gylfa og í athugasemd Sála hjá Snorra í Betel.

Þar með er ég orðinn 100% viss og hættur að spá í þetta. GG er Sáli.

Þegar hann hóf að tjá sig um Vantrú hjá Ólafi í Hvarfi er staðreyndin sú að honum var óskaplega í nöp við Vantrú og mig sérstaklega.

Þarna var ég semsagt alveg viss um að Gylfi Gylfason hefði skrifað undir nafnleynd á moggabloggi og rifist við mig í skjóli þess nokkrum sinnum. Ég ætlaði mér ekki að gera neitt við þessa vitneskju, þótti ágætt að setja þetta í samhengi. Gat nú skilið Gylfa aðeins betur, auðvitað var honum verulega í nöp við mig, eins og ég hef áður bent á eru nýaldarsinnar miklu reiðari út í Vantrú en aðrir trúmenn. Þeir virðast margir beinlínis hata okkur. Nú gat ég skilið upphaf þrætunnar og áttað mig á því hvaðan þetta kom.

Uppljóstrunin

Í gær var einhver prakkari í mér. Hjalti bloggaði um bókstafstrú og hinn geðugi Guðbergur mætti á svæðið. Ég ákvað í grallaraskap að kommenta en þá mætti Gylfi líka á svæðið. Ég hefði átt að fara að sofa en var andvaka og ákvað að prófa Gylfa/Sála aðeins. Ég baunaði þessu á hann eftir að hafa svarað Guðbergi:

GG, hvað er að frétta af Sála? Dó hann?

Matthías Ásgeirsson, 8.11.2010 kl. 00:43

Gylfi var snöggur að svara og gerði grín að þessari "paranoju" minni.

Hvað áttu við Matti minn? það sem ég segi hér er undir mínu nafni eins og þú sérð og hvaða paranoja er þetta.
Gylfi Gylfason, 8.11.2010 kl. 00:48

Ég verð að taka fram að ég var að kommenta með símanum og skrifaði því stuttar athugasemdir. Ég birti hér bara það sem beindist að Gylfa.

Þetta verður bara pínlegra. Ég sakna Sála og heimildarmaður minn gaukaði því að mér að þið væruð afskaplega nánir.
Matthías Ásgeirsson, 8.11.2010 kl. 00:55

Gylfi kannaðist náttúrulega ekkert við að tengjast þessum Sála, enda þarf hann ekkert fela sig:

Já Matti, þetta verður bara pínlegra

Ég sá að einhver sem kallaði sig sála var að kommenta áðan en þau eru horfin vegna ritskoðunarstefnu bloggsins hugsanlega?

Þú verður bara að eiga þína paranoju við sjálfan þig Matti en þú veist manna best að ég þarf ekki að fara í felur með andlitið á mér eins og Hjalti og ég þori að segja hlutina eins og ég skynja þá undir eigin nafni.

Þetta er nú meiri nojan í ykkur :-)

Gylfi Gylfason, 8.11.2010 kl. 01:03

Ég átti þó einn ás eftir. Guðbergur Ísleifsson sem kommentar undir nafninu Grefillinn á eflaust met í því að láta loka moggabloggum sínum. Guðbergur hefur einnig verið óskaplega duglegur við að kommenta undir mörgum nöfnun en alltaf kemst upp um kauða.

Hann er búinn að sannfæra sig um að við í Vantrú höfum eitthvað með það að gera að moggabloggum hans var lokað. Vissulega vorum við eitthvað að stríða honum með það á tímabili en höfum einnig ítrekað tekið fram að við höfum engin sambönd hjá moggabloggi. Ég ákvað að athuga hvort Gylfi væri ekki ginkeyptur fyrir þessu líka:

Ég sá enga athugasemd frá Sála hér, ertu ekki að bulla? Kannski sástu kommentið í öðru lífi Sáli minn (heimildarmenn mínir eru traustir, spurðu Guðberg, hann veit það)
Matthías Ásgeirsson, 8.11.2010 kl. 01:08

Þetta dugði. Takið eftir að ég hafði engar sannanir eða rök sett fram í þessari umræðu hjá Hjalta. Ég dylgjaði bara um málið og Gylfi gleypti öngulinn.

Matti. Þér til upplýsinga og uppljóstrunar þá á ég annað notendanafn sem kallast sáli og undir því er greinasafn um endurholdgun og önnur furðuleg fyrirbæri. Ég hef ekki skrifað grein á þann vef í allnokkrun tíma, né notað sálanafnið í umræðum. Og þegar ég hef nota sálanafnið þá geri ég það innskráður.

Það er augljóst að það hefur orðið trúnaðarrof á milli mín og MBL bloggsins því ekki einu sinni fjölskylda mín veit af þessari síðu.Hún er einkamál mitt og aðeins samantekt á því sem mér finnst spennandi og ill-útskýranlegt af hálfu vísinda og trúarbragða. Ekkert sem ég skammast mín fyrir eða þarf að fela ef út í það er farið og ég veit að margir hafa gaman af því að gramsa í greinasafninu.

Mér finnst í sjálfu sér ekkert slæmt við það að þú hafir komist að sála-viðbótinni eins og þú segist hafa gert í gegnum heimildarmann sem getur ekki verið staðsettur annarsstaðar en innan MBL.is Aðeins kerfisstjóri eða þeir sem hafa aðgang að notendaupplýsingum geta séð að ég sé "sáli" því hann er á mini kennitölu.

Svo ég bara leyfi þér bara að hreykja þér af niðurstöðum rannsóknar þinnar í gegnum heimildarmenn þína á meðan ég fer uppí hádegismóa á morgun og ræði við yfirmenn mbl.is um trúnað.

Þeir hjá MBL.is eru örugglega jafn spenntir og ég að finna heimildarmanninn þinn því bloggið þeirra verður seint sterkara en traustið sem til þess ríkir. Það er mjög óeðlilegt að fjölmiðill á borð við mbl.is geti ekki varið skjólstæðinga sína gagnvart árásum innanfrá en ég kemst að því á morgun hver þeirra vilji sé í raun.

Gylfi Gylfason, 8.11.2010 kl. 01:45

Gylfi virðist sannfærður um að ég hafi heimildarmann hjá Morgunblaðinu en ég fullvissa hann um að þó ég þekki nokkra Morgunblaðsmenn dálítið hef ég engin samböndn á moggablogginu. Ég vona að hann hafi ekki verið mjög harður við starfsfólkið í Hádegismóum, það hafði nákvæmlega ekkert með málið að gera heldur þróaðist það nákvæmlega með þeim hætti sem ég hef rakið hér.

Heimildarmaðurinn dularfulli var Gylfi sjálfur. Skrif hans voru auðþekkjanleg við nánanir skoðun auk þess sem hann játaði allt með látum þegar í hann var potað :-)

Geta ekki allir verið vinir?

Það er alveg ljóst að ég var stundum ansi harður við hinn nafnlausa Sála og svaraði honum vissulega af óþarfa hörku í einhver skipti en Sáli var ekki alveg saklaus af skítkastinu. Ég get vel skilið að Gylfi hafi ekki verið neinn sérstakur aðdáandi minn eða Vantrúar þegar hann mætti í karpið hjá Ólafi í Hvarfi.

Mér þykir nóg komið. Ég ætla að reyna að leiða skrif Gylfa hjá mér og vona að hann hætti að dylgja um mig á sinni síðu eða í athugasemdum hjá öðrum. Ég hef engan áhuga á að standa í stappi við Gylfa Gylfason (eða Sála).

Minni að lokum á hið fornkveðna: Þú heldur að þú sért að skoða internetið en í raun er internetið að skoða þig!

Ýmislegt
Athugasemdir

Matti - 08/11/10 21:42 #

Djöfull er þetta hrikalega löng og leiðinleg bloggfærsla.

Snæbjörn - 08/11/10 21:48 #

Varúð, þetta er fáránlega löng og leiðinleg bloggfærsla sem einungis örfáir munu hafa gaman af að lesa.

Áskorun tekið!

Carlos - 08/11/10 22:37 #

Hún myndi batna ef þú brytir hana upp með myndefni.

Villi - 08/11/10 22:50 #

Ef ég átta mig á hver einhver er, að baki ákveðnu nikki er það ekki kurteisi hjá mér að virða hans vilja. Hann vill vera anonymous, ekki satt? Eða er þetta debatt þar sem allt má ef þú getur komið höggi á andstæðinginn?

Matti - 08/11/10 22:55 #

Áhugaverð nálgun. Ég get þó ekki tekið undir með þér.

Kristinn - 08/11/10 23:13 #

Til þess að menn eigi það inni að nafnleynd þeirra sé virt þurfa þeir að mínu mati að vera kurteisið uppmálað. Ágreiningur er eitt, en að væna menn um hatur og illsku úr launsátri kallar ekki á vilja til að vernda nafnleynd þeirra.

Eða hvað?

Svavar Kjarrval - 08/11/10 23:14 #

Þú verður bara að eiga þína paranoju við sjálfan þig Matti en þú veist manna best að ég þarf ekki að fara í felur með andlitið á mér eins og Hjalti og ég þori að segja hlutina eins og ég skynja þá undir eigin nafni.

Gaman að sjá að við getum treyst því sem Gylfi skrifar.

Villi - 08/11/10 23:17 #

Jæja mr. Sherlock Holmes. Viltu segja okkur hver DoctorE er? Nýtur hann friðhelgi vegna þess að hann er í þínu liði? Þegar moggablogg eða eyjublogg býður upp á nafnleynd þá finnst mér liggja beint við að notendur virði nafnleyndina. Prinsippmál. Eða hvar endar þetta ef allir ætla í lögguleiki; Hver er Matti?

Tamika - 08/11/10 23:17 #

Haters gonna hate.

Matti - 09/11/10 00:08 #

Ég veit ekki hver DoctorE er og mér er nokk sama. Gylfi opinberaði sig sjálfur í kommenti hjá Hjalta (með smá hjálp frá mér) og tók fram að honum þætti þetta ekkert slæmt. Sagði hann ósatt?

Viðbrögð Gylfa við þessari færslu eru í takt við annað hjá honum.

Villi - 09/11/10 00:14 #

Jæja félagi ég þakka þér fyrir að virða mig viðlits. Við búum í litlu samfélagi og eigum flest lík í lestinni eða dirty laundry og þessi yfirleitt skemmtilegu samskipti og oft fræðandi geta ekki gengið nema við sýnum hvort öðru umburðarlyndi og virðingu. Ég þakka fyrir mig.

Þórður Ingvarsson - 09/11/10 01:50 #

Aaaahhh... mér fannst þetta bara fín lesning og gott sprell. En vonandi að þetta geti mögulega skrúfað fyrir kjaftæðinu í Gylfa.

Ég ætla samt að segja það, og ég biðst bara velvirðingar ef þetta særir einhvern, en hann er þverhaus og sjálfbirgingslegt kjánaprik sem þarf nauðsynlega að tempra sig ögn niður og skrúfa fyrir þetta svart/hvíta viðhorf og temja sér smá umburðarlyndi og gera sér grein fyrir því að mannlífið getur verið mismunandi, margbreytilegt og fjölbreytt, jafnvel þó við búum í fámennu þjóðfélagi.

Margar þessar Skoðanir Íslendings samræmast allavega ekki mér sem Íslending og - ótrúlegt en satt - þá virkar það báðar leiðir, en ég nýti mér nákvæmalega sama rétt og hann að viðra mínar skoðanir og auk þess leyfi ég mér þann munað að gagnrýna það sem mér finnst vera vitlausar skoðanir sem ég telji hafa skaðleg áhrif. Og ef það er einhverskonar fasismi - þá erum við öll fokking fasistar.

Kannski ætti hann bara að byrja reykja aftur - kannabis í þetta skiptið - og slaka fokking á.