Örvitinn

Veggurinn

Mynd af stjörnumÉg geri ráð fyrir því að það sé ákaflega óþægilegt að hlaupa á vegg þó ég hafi aldrei afrekað það sjálfur.

Aftur á móti hljóp ég á hálfgerðan vegg í Formlegumum málum og reiknanleika um daginn. Hef verið að dunda mér við að gera stöðuvélar, staflavélar, Turing vélar og málskipanir í vetur. Það hefur gengið alveg þokkalega, sumt ansi vel

Þegar umfjöllun um reiknanleikann hófst verð ég að játa að ég hætti að skilja nokkurn skapaðan hlut. Af einhverjum ástæðum* þykir mér þetta alveg sérlega strembið. Les textann margoft, skoða dæmi en næ ekki að tengja. Get ekki gert grein fyrir því að verkefni sé óleysanlegt en hef samt á tilfinningunni að þetta sé alls ekki flókið. Fylgi bara forskriftum, kópera og vona að ég sé ekki að skálda of mikið í eyðurnar.

Eyddi morgninum í að klára skilaverkefni sem ég byrjaði á í gærkvöldi. Get ekki sagt að ég hafi verið stoltur af því sem ég setti í hólfið í VR-II, en það var (vonandi) skárra en ekkert.

* Ég er bara of vitlaus.

dagbók