Örvitinn

Stjórnarskrá og aðskilnaður ríkis og kirkju

Karl Sigurbjörnsson
Biskup Íslands!
Vissulega er Stjórnlagaþing ekki að fara að aðskilja ríki og kirkju - það er hlutverk Alþingis og ráðherra (þannig að kirkjan þarf ekki að hafa áhyggjur af öðru en að hún fái svínslega góðan uppgjörssamning).

Aftur á mót mun Alþingi ekki gera neinar breytingar meðan 62. grein stjórnarskrár er eins og hún er í dag. Verjendur núverandi ástands vísa alltaf að lokum til stjórnarskrárinnar.

Stjórnlagaþing verður því að fjarlægja vísanir í ríkiskirkjuna og kristni úr stjórnarskrá þannig að hægt sé að fara að vilja þjóðarinnar og aðskilja ríki og kirkju endanlega. Stjórnarskrá Íslands á að vera fyrir alla landsmenn, kristna, heiðna og trúlausa.

Margir vilja meina að aðskilnaður verði bæði flókinn og dýr. Í fyrsta lagi er það vandamál þeirra sem að því koma síðar, ekki stjórnlagaþings. Í öðru lagi þarf ekkert að vera að svo verði. Fólk segir þetta vegna þess að það tekur mark á því sem hagsmunaaðilar segja. Ég legg enn og aftur til að samningi verði rift og kirkjan látin fara í mál. Þá getur hún t.d. fjallað ítarlega um trúfrelsið á Íslandi fyrir 1874, verðmat ríkiskirkjujarða og þá staðreynd að fimmtungur þjóðarinnar á að þeirra mati ekkert tilkall til hluta þessara verðmæta. Niðurstaða dómsmáls verður aldrei jafn óhagstæð og sá "samningur" sem ríki og kirkja gerðu árið 1997.

kristni