Örvitinn

Að prófi loknu

Var í prófi í Stærðfræðigreiningu 1C í HÍ í dag. Var bjartsýnn fyrir prófið en þótti það svínslega erfitt. Hef engar áhyggjur af því að ná ekki - var bara eitthvað að láta mig dreyma um að ná tíu en það er engin hætta að það takist :-)

Fyrir nokkrum vikum sögðu dæmatímakennarar í greiningunni mér að þeir hefðu rekist á bloggið og leitað að skrifum um skólann en ekkert fundið enda hef ég eiginlega ekkert bloggað um námið.

Síðast þegar ég tók próf í stærðfræðigreiningu 1C fyrir tólf árum náði ég með lágmarkseinkunn. Þegar ég mætti því aftur í HÍ til að klára loks BSc gráðuna í tölvunarfræði þurfti ég að taka kúrsinn aftur. Í vetur hef ég verið töluvert duglegri en í gamla daga, hef reiknað heima og náð að skilja mest af því sem ég átti að skilja. Sumt var þó ekki að smella fyrr en á síðustu dögum fyrir prófið.

Þannig að mér þótti prófið ansi erfitt. Hefði getað gengið út eftir einn og hálfan klukkutíma en sat allan tímann og yfirfór prófið, endurreiknaði sumt og skoðaði annað betur. Held það hafi borgað sig. Vona að ég hafi ekki gert margar ódýrar klaufavillur en þær eru örugglega einhverjar.

Seinna prófið sem ég fer í verður 15. des. Ég ætla að slaka á í kvöld og er meira að segja að spá í að drekka þennan eina bjór sem ég á í ísskápnum. Byrja að læra Formleg mál og reiknanleika á morgun. Ég er stressaður fyrir það próf.

dagbók
Athugasemdir

Carlos - 03/12/10 18:54 #

Þú hefur þá ekki gert þau reginmistök í prófi, að gleyma 25% spurningunni, aftast á prófinu, eins og mér tókst að gera um árið ;-P

Matti - 03/12/10 18:58 #

Ég reiknaði öll dæmin :-)

Haukur - 03/12/10 23:46 #

Gangi þér vel. Ég fékk 8 í Formlegu málunum, ætlaði að fá meira en hrokinn varð mér að falli. Mér gekk rosa vel í Reikniritum, rökfræði og reiknanleika, sem ég tók samhliða, og hélt ég gæti tekið aumt 8.72 námskeið með vinstri hendi. Svo var dæmi á prófinu af gerð sem ég hélt ég væri alveg með á hreinu og ég, ööö, reyndist svo ekki kunna.