Örvitinn

Hefjum daginn seinna

Vitið þið hvað er einfaldara og miklu ódýrara en að seinka klukkunni um klukkustund. Breyta hegðuninni og hefja daginn klukkutíma seinna.

Í stað þess að hefja skólastarf klukkan átta á morgnana er hægt að byrja klukkan níu. Í stað þess að hætta í vinnu klukkan fjögur hættum við klukkan fimm. Seinkum hádegishlénu. Vöknum klukkan átta en ekki sjö.

Það er eitthvað svo dæmigert að vilja frekar breyta klukkunni (ytri aðstæðum) en að breyta hegðuninni.

dagbók
Athugasemdir

Matti - 14/12/10 13:24 #

Svo er hægt að hefja vinnudaginn fyrr á sumrin - engin ástæða til að breyta klukkunni!

Sævar Helgi - 14/12/10 18:35 #

Já, þetta er nú meira bullið. Mér finnst ótvíræður kostur þess að vakna á myrkri á veturna sá að þá sér maður stjörnubjartan morgunhiminn.

Svo væri líka reynandi að breyta bara möndulhalla jarðar.

Haukur - 14/12/10 22:33 #

Mér finnst þó að hugsunarháttur eins og Matti lýsir geti allt eins verið fylgjandi frumvarpinu. Klukkan er vitlaus núna af því að menn ætluðu að vera voða sniðugir. Hættum að vera voða sniðug, stillum klukkuna rétt og vinnum okkur svo í kringum það eins og við teljum best.

Matti - 14/12/10 23:16 #

Nema hvað, mín tillaga kostar hvorki tíma né peninga (eða vesen).

Eygló - 15/12/10 11:17 #

Ég sé nú ekki að það sé óskaplegt vesen að breyta klukkunni einu sinni. Frumvarpið gengur út á það að breyta klukkunni einu sinni, færa hana fram um eina klukkustund. Samkvæmt frumvarpinu er ekki ætlunin að taka upp sumar- og vetrartíma.

Ég held að þetta sé í raun miklu minna vesen en að allir vinnustaðir, skólar o.s.frv. fari að breyta sínum vinnutíma. Það myndi m.a. kosta ótal fundi, bréfaskriftir og fullt af veseni.

Hins vegar er mikill ókostur við þetta að við nytum þá sólar í styttri tíma eftir vinnu.

Már - 15/12/10 12:43 #

Uss, þetta mun ekki breyta neinu. Við Íslendingar erum nú þegar að vakna klukkan seinna, hefja vinnu seinna, hætta í vinnu seinna, éta kvöldmat seinna, og sofna seinna en flestar aðrar þjóðir. ...einmitt af því við höfum fyrir lifandi löngu leiðrétt okkur m.v. sólarganginn.

Arnar - 15/12/10 13:38 #

Er einhverfan svo mikil að fólk getur ekki hugsað sér að vakna á öðrum tímum en kl. sjö? Hvað er að því að láta vekjara klukkuna hringja kl átta?

(* - eða hvaða tíma sem hentar fólki)

Matti - 15/12/10 13:44 #

Eygló, flækjan liggur í öllum tölvukerfum landsins sem hafa eitthvað með tímavinnslu að gera - þurfa t.d. að mæla tíma milli a og b.

Ef tímabilið a-b sem þarf að mæla liggur yfir þann tíma klukkunni verður breytt er nauðsynlegt að gera ráð fyrir því í tölvukerfinu. Þetta kostar tíma og fyrirhöfn. Alls ekki óleysanlegt og ekki dýrasta vandamál í heimi - en kostar samt tíma og peninga. Mér þykir bara óþarfi að fara út í slíkt.

Sé ekki alveg vandamálið við að breyta stundatöflu ef það þykir vandamál að fólk sé að fara af stað þegar enn er nótt.

spritti - 17/12/10 06:01 #

Svo má líka bara sofa allan veturinn eins og Birnirnir gera. Ég myndi gera það ef ég gæti.

Arngrímur - 18/12/10 00:38 #

Hafi aðrir það einsog þeir vilja, en mér er drullusama hvernig umhverfis er þegar ég vakna á morgnana. Fyrstu 9-10 tímar dagsins fara í að koma sér í og úr vinnu og allt sem er þar á milli og mér er drullusama hvert birtustigið er á þeim tíma. Fyrir mér þýðir þetta ekkert annað en aukið skammdegisþunglyndi fyrst ég er lokaður inni allan tímann sem sólin vogar sér að skína. Það væri mér meira að skapi að flýta klukkunni um tvo tíma.