Örvitinn

Fráveitugjald lækkað í 101, hækkað hjá hinum

Var að fá bréf um álagningu vatns- og fráveitugjalda frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er sagt frá því að héðan í frá miði fráveitugjald ekki lengur við fasteignamat heldur fjölda fermetra eigna, semsagt stærð húsnæðis.

M.ö.o. þá á fólk sem býr í stóru (en ódýru) raðhúsi í úthverfi að borga tvöfalt meira en fólk sem býr í minna húsnæði í miðbænum.

Í kynningarbækling stendur (feitletrun mín):

Þessar breytingar geta leitt til hækkunar á fráveitugjöldum hjá þeim sem eiga stórar eignir með hlutfallslega lágt fasteignamat [innskot: það erum við]. Að sama skapi geta þær leitt til lækkunar gjalda vegna lítilla eigna með hlutfallslega hátt fasteignamat.

Hvar eru þær eignir aftur? Hvar búa borgarfulltrúar?

Við erum semsagt að fara að borga 45 þúsund krónur í fermetragjald vatns á árinu meðan sá sem býr í 100 fermetra íbúð borgar um 20 þúsund. Ég efast stórlega um að við sturtum tvöfalt meira niður en meðal fjölskylda í 100 fermetra íbúð í Reykjavík.

Ég hefði sjálfur talið eðlilegra að gjöld miðuðust við verðmat húsnæðis en ekki fermetrafjölda - en kannski segi ég það bara vegna þess að þetta kemur illa út fyrir okkur. Væri ekki eðlilegast að gjaldið miðaðist við fjölda fullorðinna á heimili - semsagt við notkun.

Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að greiða hærri gjöld og skatta útaf hruninu, ég hef sagt það áður og sætti mig við það. Aftur á móti finnst mér óþolandi að þurfa að greiða tvöfalt hærra gjald vegna þess að ég kaus að fjárfesta í hagstæðustu fermetrunum á höfuðborgarsvæðinu fyrir tíu árum.

pólitík
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 18/01/11 19:57 #

Er ekki mest af fráveitunni vegna kyndingar? Stærra hús, meiri kynding?

Matti - 18/01/11 20:00 #

Við borgum þegar gjald fyrir kyndingu sem tekur mið af notkun á heitu vatni. Auk þess held ég að það sé ósköp mikill munur á því hversu mikið fólk hitar húsnæði sitt - við höfum t.d. verið frekar hógvör í því og alltaf undir áætlun OR.

Þetta gjald er gamla holræsagjaldið sem sett var á til að veita skólpi lengra út í sjó (sem var gott verkefni).

Baddi - 18/01/11 20:02 #

Þar sem þú býrð í stærra húsi þá er gert ráð fyrir að þú kúkir meira.

Matti - 18/01/11 20:03 #

En hvað ef ég lofa að kúka bara í vinnunni?

Erna Magnúsdóttir - 18/01/11 20:11 #

Já, ég veit að það er borgað fyrir heitt vatn, en er fráveitan á því innifalin? Ég er bara að velta fyrir mér hvernig þetta er rökstutt. Ætti þetta ekki bara einfaldlega að fara eftir vatnsnotkun, eða væri of dýrt að safna gögnum um hana?

Ég held að meirihluti vatnsnotkunar á heimilum sé vegna kyndingar, en ég gæti haft rangt fyrir mér.

Matti - 18/01/11 20:30 #

Tja, gögnum um vatnsnotkun er safnað þannig að það kostar ekkert til viðbótar. Ég held það væri sennilega eðlilegast að miða við notkun.

hildigunnur - 18/01/11 22:26 #

Hvar færðu þessar tölur um 20 þúsund? Við búum í 130 fermetrum í 101, reyndar er íbúðin okkar skráð sem tvær en samt - annar reikningurinn er upp á 36.413 krónur (70 fermetra íbúðin) og 32.360 krónur (sú 60 fm).

Ég væri alveg til í þessar öfunduðu 20 þúsund - þó það væri á hvora íbúð...

Matti - 18/01/11 22:33 #

Stendur í kynningarbréfinu sem fylgdi með. Þessi 45/20þ sem ég er að tala um er bara fermetragjald vatns. Heildarreikningur okkar er rúmlega 100þ.

hildigunnur - 18/01/11 23:26 #

já ókei, kom ekki sérlega greinilega fram í færslunni - eða þá að ég las ekki nógu nákvæmlega.

Reyndar þykir mér ekki óeðlilegt að fráveitugjald miðist við það magn sem fer og það er held ég alveg öruggt að heitavatnsgjaldið miðast við keypt vatn en ekki fráveitu á því (vona þetta sé skýrt). Öll önnur vatnsnotkun í húsum er eingöngu brot af því sem kyndingin tekur og það tekur jú meira vatn að kynda stór hús, sérstaklega með stórum herbergjum.

JR - 18/01/11 23:45 #

Auðvitað hugsa allir pólitíkusar bara um eigið rassgat , það breytist ekkert !

Það má líka minnast á strætó í þessu sambandi. Hvers vegna er strætó ekki bara lagður niður, ef þetta er svona erfitt ? Þegar nágrannar borgarinnar komu inn í strætó var besta leiðakerfi sem verið hefur, eyðilagt. Þeir bjuggu til vonlaust leiðakerfi, en tryggja sjálfum sér milljónir í laun !!!

Hafþór Örn - 19/01/11 09:24 #

Flokkast regnvatnið af þakinu sem fráveita?

Matti - 19/01/11 09:33 #

já ókei, kom ekki sérlega greinilega fram í færslunni - eða þá að ég las ekki nógu nákvæmlega.

Það kom ekki nógu skýrt fram hjá mér - en þarna er ég semsagt bara að tala um einn tiltekinn hluta.

Auðvitað ætti þetta að miðast við notkun. Reyndar hefur OR slæma reynslu af því að miða gjaldtöku við notkun, notendur eiga það nefnilega til að spara við sig heita vatnið!

Flokkast regnvatnið af þakinu sem fráveita?

Ég hef ekki grun.

Tryggvi R. Jónsson - 19/01/11 12:36 #

Það mun alltaf alltaf alltaf Matti verða refsað fyrir ráðvendi og skynsemi á Íslandi. Þannig er það bara!