Örvitinn

Vinsælasti bloggari landsins

Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup framkvæmdi ekki fyrir mig er ég langvinsælasti bloggari landins. Könnunin var framkvæmd dagana 19.-24. janúar á þessu ári og fór fram í aðalbyggingu Háskóla Íslands með þeirri aðferð að gægst var á tölvuskjái kennara og starfsmanna. Þetta er á fræðimáli kallað akademískt úrtak og er að sjálfsögðu afar akademískt.

Þegar ég var spurður út í þessa niðurstöðu sagði ég orðrétt:

"Þetta er stórkostlegur heiður. Ég hef í mörg ár stefnt að því að ná athygli í aðalbyggingunni eða allt síðan ég stundaði þar nám í heimspeki veturinn 1994-1995 við lítinn orðstír (nema hugsanlega í rökfræði). Nú get ég loks hætt enda kominn á toppinn".

Því næst lokaði ég bloggsíðu minni og hóf að skrifa hugleiðingar í stílabók. Fyrsta pælingin fjallaði um hægðir og innihélt einnig skyggða teikningu af kassa. Þeir sem vilja lesa hana og aðrar vangaveltur geta pantað viðtalstíma milli 16:00-17:00 á ganginum á þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands.

skáldskapur
Athugasemdir

Steindór J. Erlingsson - 24/01/11 15:37 #

Ég nýt góðs af þessum vinsældum því óvenju margir hafa á þessu tímabili heimsótt heimasíðuna mína.

Þórður Ingvarsson - 24/01/11 16:09 #

Ertu alveg hættur að spá í hlandinu? Eða verður það kannski pæling í næstu stílabókarhugleiðingu?