Örvitinn

Örvitinn í skólanum

Örvitinn með tunguna útiÍ gær fór örvitinn* í skólann. Byrjaði í Reiknifræði og stærðfræði í hádeginu, skellti sér eftir það í Bókhlöðuna þar sem hann reyndi við líkindafræðidæmi áður en hann fór í dæmatíma klukkan þrjú. Hálf fimm staulaðist örvitinn þreyttur og ringlaður aftur í vinnuna.

Rétt fyrir átta stimplaði hann sig úr vinnu og ætlaði að leggja af stað heim. Þegar hann var að setja öryggiskerfið í gang fattaði hann að ferðatölvuna vantaði. Örvitinn fékk sting í magann. Leitaði við skrifborðið, ekki var hún þar. Hann hljóp út í bíl - tölvan var ekki þar heldur. Örvitinn hafði gleymt ferðatölvunni undir borðinu í stofu 158 í VR-II.

Hann ók eins og óður maður# upp í háskóla og kom að sjálfstögðu að læstri stofu. Rölti um húsið í leit að starfsmanni, fann kennara á heimleið. Sá var með lykla og hleypti örvitanum inn í stofuna þar sem hann greip í tómt, tölvan var ekki undir borði. Kennarinn bendi örvitanum á símanúmer vaktmanna á miða á vegg við fyrir framan skrifstofuna þeirra.

Örvitinn hringdi í vaktmann, rakti raunir sínar og fékk þær afskaplega góðu fréttir að vaktmaður hefði rekist á tölvutöskuna þegar hann læsti stofunni og farið með hana inn á skrifstofu sína. Klukkan tíu um kvöldið ók örvitinn því aftur upp í HÍ, hitti Berg og endurheimti töskuna. Færði vaktmönnum örlítinn glaðning með von um að þeir njóti vel.

Hverslags örvitar gleyma ferðatölvunni í kennslustofu?

* Hér er ekki nógu oft skrifað um mig í þriðju persónu.
#Virti samt umferðarreglur, gaf stefnuljós og stoppaði á rauðum ljósum!

dagbók
Athugasemdir

Haukur - 28/01/11 10:33 #

Þegar við bjuggum í Lundúnaborg gleymdi ég einu sinni fartölvunni í lest á leiðinni í vinnuna. Þá tók ég lestina frá Paddingtonstöðinni til Slough (þar sem "The Office" gerist) á hverjum morgni. Þennan dag hafði ég ákveðið að vera sniðugur og setja fartölvutöskuna í farangursrýmið yfir sætunum frekar en að láta hana þvælast við fæturna á mér.

Ég áttaði mig fljótlega á örvitaskapnum, fékk sting í magann og talaði við starfsfólk lestarstöðvarinnar um hvað ég ætti að gera. Niðurstaðan var að ég elti lestina áfram á endastöðina hennar - sem var í Oxford. Ég kom seint í vinnuna þennan dag og ég notaði sniðuga farangursrýmið aldrei aftur. En ég endurheimti tölvuna.

Sindri G - 28/01/11 10:56 #

Ég er alltaf að bíða eftir bloggi um Livrarpollinn og Kenny.

Matti - 28/01/11 13:47 #

Við skulum sjá hvort örvitinn tjáir sig um það mál á næstu dögum, aldrei að vita. Annars var örvitinn í sunnudagsmorgunblaðinu fyrir tveimur vikum þar sem hann tjáði skoðun sína á brottrekstri Hodgson. Örvitinn var afskaplega ánægður.