Örvitinn

Moggamars

Til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini mun ég lesa Morgunblaðið á hverjum degi í þessum mánuði. Átakið hófst í morgun og ef Davíð lofar mun blaðið berast í Bakkasel út mars.

Blað dagsins skartar lítill mynd af uppáhaldsframsóknartrúarnöttaranum mínum á forsíðu, Höskuldur Þórhallsson glottir til mín neðst úr vinstra horninu eins og hann sé að benda mér á að hann hafi einu sinni verið formaður Framsóknarflokksins, ekki ég.

Að sjálfsögðu er frétt um Icesave á forsíðu út frá því sjónarhorni að ekki skuli samþykkja Icesave samninginn heldur fara í hart því vaxtakostnaður sé ofmetinn. Rætt er við hæstaréttarlögmanninn Reimar Pétursson. Það gleymist að taka fram í blaðinu að hæstaréttarlögmaðurinn og Björgólfur Thor hafa verið par. Ég efast um að það hefði gleymst ef lögmaðurinn væri á öndverðri skoðun. Lesendur Morgunblaðsins skulu sannfærðir um að segja nei.

Það verður fróðlegt að fylgjast með baráttunni gegn Icesave samningnum þennan mánuðinn.

Á blaðsíðu fimm og sjö eru tvær heilsíðuauglýsingar vegna opnunar Hörpu, tónlistarhúss. Önnur frá Hörpu, hin frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Staksteinar skjóta á ríkisstjórnina vegna þess að Ástráður Haraldsson var endurkjörinn í stöðu formanns landskjörstjórnar. Í kjölfarið er talað um stjórnlagaþing og "þá furðuhugmynd að ætla að sniðganga Hæstarétt".

Heilsíðuumfjöllun um stöðu innflytjenda sem senda fé heim og íslendinga sem gera það sama eftir hrun, vinna í útlöndum og senda fé til Íslands, er nokkuð upplýsandi.

Leiðari blaðsins fjallar um tíma uppreisna í Líbíu og nágrannalöndum. "1989 hefur verið nefnt annus mirabilis. Þá féllu alræðisstjórnirnar fyrir austan járntjald. Nú er komið að einræðisherrunum í arabalöndunum að skjálfa. Vonandi verður hægt að tala með svipuðum hætti um 2011 og ár kraftaverkanna."

Ívar Páll Jónsson (Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttadómara) skrifar pistil um að þjóðsagan um að Íslendingar hafi mismunað innistæðieigendum eftir þjóðerni í kjölfar bankahruns sé lífseig. Þessu svarar hann í þremur liðum og lýkur pistlinum með því að segja að ríkið hefði átt að halda sig til hlés og leyfa bönkunum að fara í þrot ef öllum hefðbundnum lögum og reglum. Það hefði eflaust verið fjör á Íslandi í október árið 2008 ef Ívar hefði fengið að ráða.

Vinkona mín Jakobína Ingunn Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur er með aðsenda grein á leiðarasíðu, staðsett milli Ívars og Birgis Ármannssonar. Á næstu síðu er aðsend grein um staðgöngumæðrun frá Guðmundi Pálssyni lækni og trúarnöttara. Fyrir ofan hans grein er pistill Vigdísar Hauksdóttur um stjórnlagaþing. Þetta er glæsilegur hópur!

Íþróttadálkurinn er myndarlegur en ég nennti ekki að lesa hann ítarlega. Með blaðinu fylgir nokkurra síðna auglýsing um Skólahreysti.

Minningargreinar á undan Víkverja sem segir slappa brandara í dag. Stjörnuspáin er á sínum stað.

Hópvinna lætur ekki bara daginn líða hraðar, hann verður líka skemmtilegri. Hættu að reyna að sanna eitthvað fyrir umhverfinu eða hamra á viðhorfum þínum.

Það verður semsagt fjör á kanban fundinum klukkan hálf tíu og ég á að hætta þessu blaðri.

Ef ég skrifa um Morgunblaðið á hverjum degi í mars, er þá ekki í lagi að ég sleppi því að safna yfirvaraskeggi. Ég meika það nefnilega ekki.

moggamars
Athugasemdir

Daníel - 01/03/11 09:44 #

Þú átt væntanlega við Steinars Gunnlaugssonar en ekki Steinarssonar, þ.e. Hæstarréttardómarinn heitir Jón Steinar Gunnlaugsson.

Matti - 01/03/11 09:49 #

Takk takk, ég vissi þetta alveg - klúðraði þessu bara við morgunverðarborðið :-)

ÁJ - 01/03/11 14:36 #

"Ef ég skrifa um Morgunblaðið á hverjum degi í mars, er þá ekki í lagi að ég sleppi því að safna yfirvaraskeggi. Ég meika það nefnilega ekki."

Er konseptið í mottumarsinum að valda þjáningu annarra í heilan mánuð með öllum hugsanlegum aðferðum?

Matti - 01/03/11 15:46 #

Já var það ekki? A.m.k. væri það ekkert nema þjáning fyrir mig (og aðra) ef ég reyndi að skarta yfirvaraskeggi í mánuð!