Örvitinn

Icelandair og mannréttindi í Mogga dagsins

Morgunblað dagsins kemur vafið innan í auglýsingabækling frá Icelandair. Ekki í fyrsta skipti sem for- og baksíða eru seld en nú er fyrsta opna alvöru blaðsins líka auglýsing, frá N1. Mér þykir það frekar örvæntingarfullt að pakka blaðinu inn í auglýsingu.

Forsíðufréttin fjallar um eldsneytisverð sem er jú ansi hátt, rætt er við eftirlaunaþega sem óskar þessum næstum því að hér væri Sturlungaöld svo hann gæti brugðist við með því að safna liði (og drepa marga menn?) Á blaðsíðu sex er rætt við nokkra einstaklinga sem kvarta allir undan háu eldsneytisverði og Staksteinar hnýta í fjármálaráðherra fyrir að ætla að setja málið í nefnd. Eldsneytisverð er orðið svo hátt að fólk er farið að keyra minna (sem er skelfilegt).

Frétt um að tómatar geti skapað hundrað störf er á forsíðu og blaðsíðu 16. Í skoðun er að smíða risatómataverksmiðju á Íslandi í samkeppni við sólina því hér er rafmagnið svo ódýrt (og vinnuafl væntanlega líka).

Opna um (neyðar)ástandið í Líbíu og sjóræningja í Sómalíu er áhugaverð.

Í leiðara er fjallað um undirbúning stjórnlagaþings og úrskurði mannréttindadómstóls Evrópu. Inndreginn texti gefur tóninn

Samræmdur pólitískur rétttrúnaður eykst jafnt og þétt í Evrópu

Morgunblaðið skilur ekki af hverju Bretar eiga að þurfa að fara eftir mannréttindadómstólnum því Bretland er gamalgróið lýðræðsríki (eins og Ísland).

En sú spurning hlýtur að vakna af þessu tilefni og mörgum öðrum hvers vegna gamalgrónum lýðræðisríkjum er ekki treystandi fyrir því að ákveða hvað teljist til mannréttinda heima hjá þeim. Ekki síst þegar mannréttindi er orið svo víðfemt hugtak að hægt er að láta það ná yfir hvaða sérvisku sem er. En allt er þetta hluti af því markmiði að þurrka út sérstöðu þjóðanna og setja þær allar undir hattinn sem sniðinn er handa þeim í Brussel og næsta nágrenni.

Þarna kristallast Morgunblaðið í íhaldssemi og Evrópusambandshatri. Við hliðina á þessum leiðara er pistill Unu Sighvatsdóttur um rasisma. Hún tekur ekki sömu afstöðu og höfundur leiðara í mannréttindamálum.

Á blaðsíðu 26 er ansi merkileg aðsend grein frá Helga Helgasyni stjórnmálafræðingi. Greinin heitir Hvað næst, kosningasvindl? og er ekkert annað en ansi grófar dylgjur um ráðamenn og þá sem hafa skipt um skoðun á Icesave málinu.

Ég fullyrði að Steingrímur og Jóhanna hafa logið að þjóðinni frá byrjun um áhættuna af þessum samningi/um og passa sig á því að minanst ekki á hvað gerist ef greiðslufall verður, en það þýðir uptptöku eigna íslenska ríkisins hvar í heimi sem þær finnast. ... Miðað við lygina, heiftina og viðbjóðinn sem viðgegnst hefur af af hálfu Steingríms og Jóhönnu í þessu máli spyr maður sig: Hvað reyna þau og stuðningsfólk þeirra næst? Kosningasvindl í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave sem fyrirhuguð er 9. apríl?

Já, ætlar enginn að hugsa um börnin. Munu Jóhanna og Steingrímu spilla þjóðinni. Hvað gera þau næst? Er fólk alveg sturlað?

Á næstu síðu reynir Hlynur Jónsson Arndal fyrir sér með háðgrein og öfugmælavísu gegn Icesave. Greinin er hvorki fyndin né gáfuleg. Hagsmunir af ranglæti?, Þrælaeyjan Ísland og Bandalag fjandvina eftir Hall Hallsson eru aðsendar greinar á næstu opnu (bls. 28-29). Allar í sama dúr. Auk þess er grein gegn stjórnlagaþingi sem á að sleppa og fela Alþingi verk þess.

Albert Jennsen fv. trésmiður skrifar líka grein og byrjar á því að mæra Morgunblaðið

Í mínum huga er Morgunblaðið best blaða og því skrifa ég í það. Ég tel að það besta sé ávallt ódýrast. Fólk borgar ekki fyrir það sem það hefur ekki áhuga á.

Það þyrfti einhver að benda Alberti á sölutölur Morgunblaðsins.

Minningargreinar á sínum stað. Víkverji talar vel um sýninguna Nei, ráðherra og stjörnuspá dagsins er án fyrirvara (einu sinni var alltaf fyrirvari við stjörnuspána í Morgunblaðinu, að hún væri bara dægradvöl, nú byggir hún væntanlega á traustum vísindalegum grunni).

Varaðu þig á því að láta ekki neikvæðar hugsanir ná stjórn á huganum. Mundu að maður er manns gaman. Mundu líka að hóf er best á hverjum hlut.

Á baksíðunni er stór frétt um að Magneu biskupsfrúar hafi verið minnst í gær í tilefni þess að hún hefði orðið 100 ára. Ég get ekki beðið eftir aldarafmæli biskupsins sjálfs!

moggamars
Athugasemdir

Matti - 02/03/11 10:10 #

AMX vitnar í öfugmælavísu Hlyns Jónssonar Arndal. Segir það ekki allt sem segja þarf?

Arngrímur - 02/03/11 19:22 #

Ég er ánægður með Moggamars.