Örvitinn

Fimmtudagur gegn Icesave

Jæja, byrjum á fimmtudagsmogganum.

Á forsíðu er stór mynd af háskólanema að gefa blóð. Restin af forsíðunni fer undir Icesave og bensínhækkanir. Túlkun Morgunblaðsins á endumati eignasafns Landsbankans er Eignir jukust lítið í krónum og við hlið þess er vitnað í grein Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns sem bendir á að vaxtagreiðslur yrðu í krónum ef mál myndi tapast hér á landi.

Ef svo ólíklega vildi til, að ríkið tapaði Icesave máli fyrir íslenskum dómstólum, yrðu allar vaxtagreiðslur í íslenskum krónum og því væri engin greiðslufallsáhætta, því samfara fyrir íslenska ríkið.

Á síðu tvö er stór mynd af guðfræðinemunum Pétri Markan og Hjalta Sverrissyni á sviði.

"Það var einhver sem hélt verndarhendi yfir mér" segir Sigmundur Guðmundsson bílstjóri sem slapp vel eftir að hafa ekki útaf á þjóðveginum. Hann imprar á því með því að segja "Það er alveg á hreinu".

Ef einhver hélt verndarhendi yfir Sigmundi, af hverju kom hann ekki í veg fyrir að hann æki útaf? Æi, þetta er kjánaleg klysja en svosem skiljanlegt að fólk segi þetta eftir þessa lífsreynslu.

Í "skop"-mynd á áttundu síðu eru vísað til fjármálaráðherra sem "skattafíkils". Staksteinar tala um aukna miðstýringu í ESB, þar sem völd framkvæmdarstjórnar séu að aukast á kostnað aðildarríkja.

Þá þróun sem hér er lýst verður ekki að finna í opinberu kynningarefni ESB og ríkisstjórnar Íslands vegna aðlögunarviðræðnanna. Þar verður ekki sagt frá þeirri ríku tilhneigingu ESB til að taka í auknum mæli á sig mynd ríkis og auka áhrif framkvæmdastjórnarinnar á kostnað aðilarríkjanna. Í opinbera áróðrinum munu menn halda sig við glansmyndina og ekki láta raunveruleikann trufla sig.

Ólíkt óopinbera áróðrinum í Morgunblaðinu - blaðinu sem aldrei víkur frá "raunveruleikanum".

Frétt um aðalmeðferð í máli Baldurs Guðlaussonar hefur fyrirsögnina "Baldur vísar ásökunum á bug".

All ítarleg umfjöllun verðhækkanir á eldseyti er á fjórtándu síðu með línuriti og ítarlegi úttekt á hluti skatta. Vilhjálmur Egilsson bendir á að bílar verði dýrari og séra Þórhallur Heimisson segir að það sé vaxandi vonleysi um kjörin. Mér finnst eins og Þórhallur sé dálítið oft að tala um vaxandi vonleysi.

Líbía, Gorbatsjov og sonur Gaddafis.

Leiðari blaðsins er með hressasta móti og ber titilinn Óttinn. "Íslendingar hafa til þessa þorað að verja rétt sinn gagnvart erlendum ríkjum. Enn er gengið út frá skrifum og orðum Reimars Pétursonar og imprað á því að íslendingar eigi að "standa á rétti sínum".

Íslendingar hafa of lengi verið sagðir þurfa að óttast að standa á rétti sínum, en bæði reynsla og og rök sýna að þessi ótti er ástæðulaus. Íslendingar hafa enga ástæðu til annars en að standa beinir í baki og hafna ólögmætum kröfum og yfirgangi erlendra ríkja.

Kolbrún Berþórsdóttir skrifar pistil dagsins um stjórnmálamenn á villigötum.

Í lífinu getur enginn maður ætíð verið sjálfum sér samkvæmur. Það er hins vegar gott að leitast eftir því. Hentistefnan í íslenskri pólitík er æpandi og veldur því að fólk treystir ekki stjórnmálamönnum. Íslensk pólitík er orðin svo ótrúverðug og ómarktæk að hæfileikamikið fólk sem vill halda reisn sinni og virðingu kýs sér felst önnur störf en að fara á þing.

Icesave-lögin tryggja fullkomna niðurlægingu Íslands segir enginn annar en Loftur Altice Þorsteinsson í aðsendri grein. Ég nenni ekki að lesa greinina, vona að þið fyrirgefið það.

Helgi Seljan (fv. alþingismaður, ekki sjónvarpsstjarnan) skrifar um áfengisbölið. Finnst eins og ég hafi séð slíka grein frá honum áður! Heil opna fer undir aðsendar greinar. Engar áhugaverðar, nema kannski grein Jóhanns J. Ólafssonar stórkaupmanns um eignajöfnun í þjóðfélaginu.

Minningargreinar hefjast í miðopnu blaðsins og fylla níu og hálfa blaðsíðu. Víkverji fékk ruslpóst og stjörnuspáin sagði mér að gera eitthvað gott fyrir sjálfan mig í (gær) dag því það er víst fyrir öllu að ég sé ánægður. Ég gerði ekkert sérstaklega gott fyrir mig í gær.

Orri Ormars skrifar pínan pistil um Metallica og plötuna Master of the puppets sem kom út fyrir aldafjórðungi í gær. Snilldarverk og fínn pistill.

Á baksíðu er brosandi smiður sem háði erfiða baráttu við krabbamein í eista og hafði betur. Fín umfjöllun um það mál.

Viðskiptakálfur Morgunblaðsins er lagt undir baráttuna gegn Icesave. Faldar niðurgreiðslur í Icesave-samningum stendur á forsíðu. Verðmæti eignasafns skilanefndarinar sveiflaðist nokkuð á árinu er fyrirsögn næstu síðu (flestir aðrir fjölmiðlar bentu á að verðmæti eignasafnsins hefði aukist). Títtnefndur Reimar Pétursson fær heilsíðu undir grein sína gegn Icesave og Sigurgeir Jónsson fjármálamaður frá New York fær tæpa heilsíðu undir sína grein.

Ég nenni ekki að skrifa um Monitor. Hefði kannski gert það ef ég hefði fengið blaðið í gær. Þarf að fara að kíkja á blað dagsins.

moggamars
Athugasemdir

Óli Gneisti - 04/03/11 23:27 #

Eru ekki allir dagar í Moggamars gegn Icesave?

Matti - 04/03/11 23:35 #

Ég er ansi hræddur um það :-) Mun segja sérstaklega frá því þegar enginn áróður verður gegn Icesave í blaðinu.

Snæbjörn - 05/03/11 01:27 #

Uppáhaldið mitt í Mogganum eru einmitt „skop“-myndirnar, sem fengið hafa alveg nýja merkingu þar sem markmiðið er fyrst og fremst að skopast að lesendum frekar en viðfangsefninu. Sérstaklega finnst mér Helga Sig takast vel upp í því.

María - 05/03/11 07:45 #

Þér þykir ekki ástæða til að skrifa um áróðurinn sem fer fram í öllum öðrum fjölmiðlum, í þeim tilgangi að fá fólk til að samþykkja þennan samning? Morgunblaðið er þó eini miðillinn sem kemur öðrum sjónarmiðum en ríkisstjórnarinnar á framfæri.

Matti - 05/03/11 12:31 #

Af sérstöku tilefni fæ ég Morgunblaðið sent heim í mars og því ákvað ég að dunda mér við að skrifa þetta.

Þó vel megi vera að Fréttablaðið sé með áróður fyrir Icesave og ESB, þá fullyrði ég að tónninn í Fréttablaðinu er ekki líkur tóninum í Morgunblaðinu.

Og það er nú ekki eins og ég hafi ekki reglulega gagnrýnt Fréttablaðið og ritstjórann (prestsoninn) hér á blogginu.